Á Íslandi býr þjóð sem síðustu áratugi hefur sannfært sjálfa sig um að hér sé fallegasta náttúran, besti landbúnaðurinn, hreinasta loftið, fallegasta kvennfólkið og mesta gróskan. Á góðum stundum höfum við meira að segja sannfært okkur um að við séum fremri öðrum í fótbolta og Júróvisjón og við rennum ekki niður vatnssopa nema sú hugsun fylgi að hátveiroið okkar sé betra en hátverio í útlöndum. Það er búið að tala svo mikið um glæsileika þjóðarinnar, menntun hennar og mannauð að það er ekkert skrítið þótt útlendingarnir séu litnir hornauga af stórum hluta þjóðarinnar.
Hvað eru það annað en rasismi í Guðna Ágústssyni þegar hann segir að Íslenskur landbúnaður sé sá besti í heimi. Hefur hann smakkað paprikur, lambalærissneiðar og skólajógúrt frá öllum löndum í heiminum? Er eitthvað á bak við þessa grænmetisþjóðhyggju? Nei. Þetta eru alhæfingar, byggðar á fordómum og frösum. Guðni er gulrótarrasisti.
Hvað er það annað en rasismi þegar sumir náttúruverndarsinnar fullyrða án nokkurs fyrirvara að Ísland sé fallegra en önnur lönd. Hafa þeir skoðað öll önnur lönd? Alla firði í heimi, eyjar, eyðimerkur, sléttur, dali og fjöll. Nei. Þetta eru alhæfingar fólks sem einungis hefur séð brotabrotabrotabrot af veröldinni. Þetta eru orð náttúrurasista. Heimskuleg þjóðremba.
Hvað eru það annað en rasismi þegar fullyrt er að íslenskar konur séu fallegri en útlenskar konur, einsog oft heyrist. Hvernig er þetta mælt? Hefur einhver séð allar konur á Íslandi? Eða allar útlenskar konur í heiminum? Nei. Þetta eru alhæfingar um huglæga og ómælanlega hluti. Og alhæfingarnar byggja á þjóðerniskennd.
Þetta er nákvæmlega sama hugsun og að íslendingar almennt séu betri en annað fólk.
Íslendingar hafa í takmarkalausri minnimáttarkennd á síðustu áratugum ræktað í sér rasismann með belgingslegu tali um eigin yfirburði og ágæti. Hér hefur verið plægður svo frjór akur fyrir þjóðernishyggju að löngu áður en innflytjendamál eru orðin að rauverulegu vandamáli einsog í grannríkjunum, fær Frjálslyndi flokkurinn ótrúlega útkomu í skoðanankönnunum.