föstudagur

Enn að ruglast

Fjandakornið. Þetta er farið að verða verulega þreytandi. Ennþá ráfar þú hingað inn einsog áttavillt heiðagæs þótt ég sé fluttur fyrir lifandis löngu. Drífa sig hingað. Breyta hlekkjum og favorites. Takk.

sigmarg.blog.is

sunnudagur

Enn fluttur.

Hallóóó. Af hverju ertu enn að villast hingað inn. Ég er fluttur á þennan stað og þar blogga ég frammvegis. Vonandi þarf ég ekki að tyggja þetta ofan í þig.

Ef þú ert með hlekk á mig á blogginu þínu, vinsamlegst uppfærðu hann fyrir mig. Breyttu svo heimilisfanginu í favorites.

sigmarg.blog.is

Fluttur.

Er fluttur. Hér blogga ég framvegis. Ykkur er boðið að kíkja í heimsókn. Vinsamlegast vistið nýja blogheimilisfangið mitt í stað þess gamla. Breytið hlekknum líka ef þið eruð með hlekk á mig. Takk, elskurnar

sigmarg.blog.is

fimmtudagur

Ræktaður rasismi

Á Íslandi býr þjóð sem síðustu áratugi hefur sannfært sjálfa sig um að hér sé fallegasta náttúran, besti landbúnaðurinn, hreinasta loftið, fallegasta kvennfólkið og mesta gróskan. Á góðum stundum höfum við meira að segja sannfært okkur um að við séum fremri öðrum í fótbolta og Júróvisjón og við rennum ekki niður vatnssopa nema sú hugsun fylgi að hátveiroið okkar sé betra en hátverio í útlöndum. Það er búið að tala svo mikið um glæsileika þjóðarinnar, menntun hennar og mannauð að það er ekkert skrítið þótt útlendingarnir séu litnir hornauga af stórum hluta þjóðarinnar.

Hvað eru það annað en rasismi í Guðna Ágústssyni þegar hann segir að Íslenskur landbúnaður sé sá besti í heimi. Hefur hann smakkað paprikur, lambalærissneiðar og skólajógúrt frá öllum löndum í heiminum? Er eitthvað á bak við þessa grænmetisþjóðhyggju? Nei. Þetta eru alhæfingar, byggðar á fordómum og frösum. Guðni er gulrótarrasisti.

Hvað er það annað en rasismi þegar sumir náttúruverndarsinnar fullyrða án nokkurs fyrirvara að Ísland sé fallegra en önnur lönd. Hafa þeir skoðað öll önnur lönd? Alla firði í heimi, eyjar, eyðimerkur, sléttur, dali og fjöll. Nei. Þetta eru alhæfingar fólks sem einungis hefur séð brotabrotabrotabrot af veröldinni. Þetta eru orð náttúrurasista. Heimskuleg þjóðremba.

Hvað eru það annað en rasismi þegar fullyrt er að íslenskar konur séu fallegri en útlenskar konur, einsog oft heyrist. Hvernig er þetta mælt? Hefur einhver séð allar konur á Íslandi? Eða allar útlenskar konur í heiminum? Nei. Þetta eru alhæfingar um huglæga og ómælanlega hluti. Og alhæfingarnar byggja á þjóðerniskennd.

Þetta er nákvæmlega sama hugsun og að íslendingar almennt séu betri en annað fólk.

Íslendingar hafa í takmarkalausri minnimáttarkennd á síðustu áratugum ræktað í sér rasismann með belgingslegu tali um eigin yfirburði og ágæti. Hér hefur verið plægður svo frjór akur fyrir þjóðernishyggju að löngu áður en innflytjendamál eru orðin að rauverulegu vandamáli einsog í grannríkjunum, fær Frjálslyndi flokkurinn ótrúlega útkomu í skoðanankönnunum.

miðvikudagur

Landsbjörg, siðareglur og Southend

Hvernig stendur á því að slysavarnarfélagið Landsbjörg byrjaði nú nýverið að vísa fjölmiðlum á Jón Gunnarsson framkvæmdastjóra í fréttatilkynningum sínum, í stað þess að beina þeim einvörðungu á Ölöfu Snæhólm upplýsingafullrúa félagsins einsog venja er? Varla vegna þess að Jón er í miðri prófkjörsbaráttu? Er við hæfi að Jón auglýsi baráttu sína merktur Landsbjörgu í bak og fyrir? Er Landsbjörg hafin yfir flokkadrætti eða gengin í Sjálfstæðisflokkinn? Get ímyndað mér að fólk vilji vita þetta áður en það ákveður af hverjum það kaupir jólatré og flugelda í desember.
---

Soldið hefur borið á því að nafnlaust fólk úðar fordómum og sleggjudómum í allar áttir í kommentakerfinu mínu. Þetta er vandamál sem flestir bloggara þekkja nokkuð vel. Ég er lítið fyrir að ritskoða svo ég bið ykkur, elsku lesendur, að hafa sígildar siðareglur Zygmarrs í huga þegar þið tjáið ykkur um menn og málefni hér á síðunni. Þær hljóða svona:

1 Ef þið eruð ómálefnaleg við aðra, reynið þá að vera það á málefnalegan hátt.

2. Ef þið talið illa um Zygmarr, gerið það þá fallega og af virðingu.

3. Ef þú heitir Jakob Bjarnar, reyndu þá að hafa kommentin styttri en skáldsögurnar hans Hallgríms Helgasonar.

---

150 kílóa kraftajötunn tapar fyrir lítilli stúlku í sjómann. Fyndið.
Þórhallur Gunnarsson kemst ekki út að reykja í heila klukkustund. Mjög fyndið.
Manchester United tapar fyrir Southend í fótboltaleik. Mig skortir orð.

mánudagur

Ömmi og Bingi

Ögmundur Jónasson er stjórnmálamaður sem talar í lausnum. Hann vill senda bankana og starfsmenn þeirra úr landi til að auka jöfnuð í samfélaginu. Þetta er frábær hugmynd hjá Ögmundi. En það er líka hægt að fara aðra leið að sama marki þótt Ögmundi hafi ekki dottið hún í hug. Það er hægt að flytja þá launalægstu úr landi og ná þannig fram meiri jöfnuði. Eða á bara annar hópurinn tilverurétt í fyrirheitna landinu? Svo er náttúrulega líka hægt að flytja karlmenn úr landi og útrýma þar með á einu breytti launamun kynjanna. Sama markmiði má reyndar ná með því að flytja konur úr landi en slíkur málfluttningur yrði fljótt afgreiddur sem karlremba. Fleiri lausnir, Ögmundur?

Mér finnst þetta alls ekki nógu nákvæm frásögn af debútti Björns Inga Hrafnssonar á Alþingi. Pétur hefði mátt gera grein fyrir áru varaþingmannsins þegar lestur fyrsta andsvars hófst. Og hvort skipti hann í miðju eða greiddi létt útá vinstri hlið? Gat Pétur ekki greint hvernig skóm háttvirtur Bingi var í eða gleymdist það í geðshræringunni:) Og takið eftir litla orðinu "loksins" þegar rætt er um að Jónína hafi farið í frí.

laugardagur

Atkvæðaveiðar

Ungur maður sem ég þekki vel hefur í dag og í gær gert fátt annað en að taka á móti sms skilaboðum vegna prófkjörs Samfylkingarinnar. Hann hefur verið ákaft hvattur af Samfylkingarfólki í kraganum til að mæta á kjörstað og hefur fengið vel á þriðja tug sms skilaboða. Það væri svosem lítið við þetta að athuga ef ekki væri um að ræða 11 ára gamlan fósturson minn, hann Sindra. Þeir stjórnmálamenn sem eru svo desperat að reyna að véla ófermt barnið í prófkjörsslaginn eru Jakob Frímann, Sandra Franks, Katrín Júlíusdóttir, Þórunn Sveinbjarnar, Magnús Norðdahl, Gummi Steingríms, Gunnar Svavarsson, Kristján Sveinbjörnsson, Anna Sigríður Guðnadóttir og Bjarni Gaukur Þórmundsson. Flestir hafa sent fleira en eitt sms. Sniðugast fannst mér smsið frá Bjarna Gauk til ellefu ára sonar míns þar sem stóð “Setjum börn og unglinga í fyrsta sæti með því að setja Bjarna Gauk í 7-8 sætið”. Láttu bara barnið mitt í friði, Bjarni Gaukur!

Sindri er vinsæll hjá Samfylkingunni því á síðast kjördag var hann boðaður á kosningavökufylleri um kvöldið klukkan 21:30. Hann komst því miður ekki því hann var að leika sér með tindátana sína.

Það fyndnasta við þetta er samt að Sindri hefur ekki snefil af pólitískum áhuga. Honum fannst þessi sms stórskotahríð Samfylkingarinnar óþægileg því hún truflaði hann við að komast á milli pláneta í Ratchet and Clank playstation leiknum. Einnig hefur hann frétt einhverstaðar að Samfylkingin vill lengja skólaárið og slíkur flokkur á ámóta mikið uppá pallborðið hjá Sindra og grænmetisát.

Að lokum vil ég biðja Samfylkingarfólk í prófkjörsham afsökunar á að Katla (sjö mánaða) og Salka (þriggja ára) eru símalausar sem stendur. Ef Samfylkingafólk þarf að koma til þeirra
einhverjum áríðandi pólitískum boðskap þá er hægt að gera það í kommentakerfinu hér að neðan.

Við munum öll....

Nú eru einhverjir sérfræðingar búnir að reikna það út að allur fiskur verði horfinn úr hafinu árið 2048. Ekki 2047. Eða 2049. Nei, sushi heyrir sögunni til árið 2048 þótt það fylgi ekki sögunni í hvaða mánuði! Ég get ímyndað mér að kjósendur Frjálslynda flokksins séu óhressir með þessa spá, því samkvæmt þeirra málflutningi átti kvótakerfið hans Halldórs að stúta lífríki hafsins og vistkerfi sólkerfisins á enn skemmri tíma. Sjálfur tek ég þessu með stóískri ró þar sem ég er fyrir löngu orðin bólusettur fyrir þessum bölmóðs og heimsendaspám sem virtustu vísindamenn í heimi demba í sífellu yfir okkur.

Ég lifði af súra regnið og kalda stríðið. Það er líklegra að ég fái hrossaexem heldur en fuglaflensu. Bílastæðavandinn í miðbænum olli mér meiri skakkaföllum en 2000 vandinn. Þágufallsýki er í dag alvalegri heilsufarsvandi á Íslandi en HABL lungnabólgan sem átti að strádrepa allt kvikt fyrir nokkrum misserum. Ég ætla því að leyfa mér að draga í efa að síðasta rækjan hrökkvi uppaf um miðja öldina.

Í gærkvöldi voru þau Sigga Klingenberg spákona og Eiríkur Norðdahl skáld í Kastljósi að ræða fréttir vikunnar. Eiríkur var með hattinn sinn fræga og Sigga var með eitthvað fjaðradót og jólaskraut sem danglaði frístæl uppá hausnum á henni. Skyndilega fannst mér reiðhjólahjálmurinn minn töff.

fimmtudagur

Pönkhnakkar og Seljan

Samkvæmt Fréttablaðinu er allt brjálað vegna þess að Ásgeir Kolbeinsson yfirhnakki og Arnar Gauti tískulögga voru með svo mikin sorakjaft og pönkaraattitjúd í Innlit/Útlit um daginn. Ég sá ekki þáttinn en mér finnst þetta ámóta trúlegt og að móðir Theresa og Óli lokbrá hafi framið raðmorð í miðbænum um helgina með heróínsprautu í handleggnum. Þessi prúðmenni hafa í mesta falli gengið framaf Arnari Grant fyrir að vera ekki nógu gulir.

Mér þykir leiðinlegt að drepa góða kjaftasögu. En geri það samt. Það var ekki Símon Birgisson, blaðamaðurinn ógurlegi, sem fékk listræna útrás með því að skvetta gulum vökva úr skinnsokk sínum yfir sprund í listaháskólanum einsog hann er sakaður um hér. Hann er algerlega saklaus af því. Hann hinsvegar sat í umræddri kennslustund og fylgdist með af barnslegri forvitni.

Mér finnst bæði rétt og skylt að greina frá því hér að Helgi Seljan, umsjónarmaður Kastljóssins, kláraði að naga alla blýantana hans Ara Edwald, forstjóra 365, í gær. Forstjóri 365 lætur Kastljósmanninn væntanlega flokka rykkorn í dag. Fylgist með daglegum fréttum hér á síðunni af ævintýrum Kastljóssmannsins sem fær ekki að fara burt frá NFS.

Græni kallinn, fótboltakallinn og Seljan kallinn

Græna staðalímyndin í gönguljósunum verður bráðlega kominn í kjól ef Bryndís Ísfold fær sínu framgengt. Ég verð þó að játa á mig þá fávisku að hafa ekki haft hugmynd um að ég væri nánast að brjóta jafnréttislög í hvert sinn sem ég rölti yfir götu. En ég styð heilshugar þessa hugmynd Bryndísar, enda hefur hún allt sem prýða þarf góða hugdettu. Hún er frumleg, það er hægt að gera stólpagrín af henni en jafnframt ómögulegt að mæla gegn henni nema með ódýrum fimmaurabröndurum. Með hvaða rökum ætlar fólk í mannréttindanefnd að greiða atkvæði gegn þessu? Af hverju má kallinn ekki vera kona?

Sumir kalla hann Henrí. Aðrir Onrí. Sumir Henri. Enn aðrir kalla hann Honrí. Og eftir því sem framburðarsnillingunum fjölgar styttist væntanlega í að hann verði kallaður Horny. Þessi mismundi framburður á nafni besta knattspyrnumanns veraldar fer í taugarnar á mér. Getum við hér eftir sæst á að kalla hann bara Hinrik?

Að lokum sendi ég Helga Seljan, Kastljósmanni, kærar kveðjur, þar sem hann nagar blýanta í Skaptahlíðinni. Notalegt hjá Ara Edwald að halda honum uppá Stöð í hálfgerðu tilgangsleysi mánuðum saman, rétt eftir einn blóðugusta niðurskurð fjölmiðlasögunnar.