fimmtudagur

yfirlýsing - og fleira

Ég lýsi því hér með yfir að ég styð Sigmar Guðmundsson í annað sætið í prófkjöri sjálfstæðisflokksins um helgina.

Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson,
borgarstjóri

-----

Sirkus tekur viðtal við frægan poppdópista, Ívar Örn Kolbeinsson, sem talar hispurslaust um viðhorf sín til kvenfólks og kókaíns. Viðtalið er afhjúpandi og sláandi. Sirkusblaðið er gagnrýnt fyrir að upphefja neyslu Ívars. Því er mótmælt með þeim rökum að fjölmiðlar eigi að sýna veröldina einsog hún er, en ekki einsog hún ætti að vera. Og í Sirkus blasti dópistinn við í allri sinni eymd og engu var haldið frá lesandanum. Þetta eru góð og gild rök í blaðamennsku.

Síðan birta Kastljós og Mogginn viðtal við móður popparans þar sem hún gagnrýnir bæði neyslu sonarins og umfjöllun fjölmiðla um hann. Þar var engu í hennar óttablöndnu skoðunum á örlögum sonarins haldið frá áhorfendum. En þá ber svo einkennilega við að rökin um að sýna veröldina einsog hún er, virðast ekki lengur góð og gild. Ekki ef marka má leiðara og fjölmiðlapistli Fréttablaðsins í dag.
Lesandinn má bara sjá veröld fársjúks fíkniefnaneytanda sem ramblar áfram í firrtri veröld. Angist móður hans og gagnrýni er lesandanum ekki hollt að sjá vegna þess að hún beinist að hluta til að fjölmiðlum. Hún er á einhvern einkennilegan hátt óæskilegri en firring fíkniefnaneytandans.

Fjölmiðlar eiga að spegla samfélagið segir einn besti penni fréttablaðsins, Jón Kaldal. Og ég er því hjartanlega sammála. En að það sé bara pláss fyrir sjúkan fíkilinn en ekki örvæntingafulla móðurina í spegilmyndinni finnst mér hæpið. Og er vonandi ekki í anda Fréttablaðsins.

Í fjölmiðlapistlinum er Jakob Bjarnar fyndinn að vanda. Gagnrýni móðurinnar er framlenging á skoðun Kastljóss og Moggans sem líta á sig sem góða fjölmiðla og sjá hina sem vonda, segir Jakob. Skoðun viðmælandans er skoðun miðilsins, semsagt. Ef þetta er rétt hjá Jakobi, þá hljóta viðhorf Ívars til kvenna og kókaíns í téðu Sirkusviðtali að vera framlenging á skoðun Sirkuss. Eða gildir þetta bara um “góðu” miðlana?

Svo fer Jakob háðulegum orðum um þessa “góðu” fjölmiðla sem ætlist til að haft sé “vit fyrir viðmælendum og passað uppá lesendur og áhorfendur”. En samt er pistill hans skrifaður í einhverju fúllyndi yfir því að Kastljós og Mogginn höfðu ekki vit fyrir móður Ívars og báru þessa vitleysu úr henni á borð fyrir lesendur og áhorfendur. Þvílík hræsni.

Og það er kvartað undan því hér að ekki hafi verið nægjanlega mikil gagnrýni í viðtölum við móðurina, fremur einhver meðvirkni. En bíðum við. Fangar þetta orð, meðvirkni, ekki ágætlega stemmninguna í Sirkusviðtalinu? Þar var ástandi fíkilsins lýst af blaðamanni með orðunum: “Sjálfur er Ívar illa góður á því”. “Illa góður á því” er einkunn blaðamanns á unglingablaði á kengdópuðum poppara að þusa rúnk og dópsögur í diktafón. Er þetta ekki upphafning og meðvirkni?

Að mínu viti mátti alveg spyrja móðurina með gagnrýnni hætti um hvort hún sé ekki að varpa ábyrgðinni á hegðun og veikindum sonarins yfir á fjölmiðla. Það var full ástæða til þess. Blaðamaður Sirkus mátti einnig vera gagnrýnni á Ívar í viðtalinu í stað þess að segja hann illa góðan á því. En bæði viðtölin áttu fullkomlega rétt á sér. Pennar Fréttablaðs og Blaðsins ættu hinsvegar að leggjast undir feld og skoða vandlega hvort ekki sé ekki örugglega absúrd að gagnrýna aðra miðla fyrir að spegla samfélagið einsog það er.

21 Comments:

Blogger Brynja Björk said...

Mér leið illa að horfa á Brynju spjalla við Ívar. Það minnti mig á lítið barn sem er búið að kúka á gólfið og fer úr nærbolnum til að breiða yfir skítinn.

Ívar og félagar föttuðu það of seint að það var ekkert gaman að vera þekktur sem dópisti og aumingi. Og þá allt í einu eiga þetta að vera tilbúnir karakterar... Fólk vorkennir Ívari sem er auðvitað bara veikur. En mér finnst alltaf lélegt þegar fólk getur ekki verið samkvæmt sjálfu sér, hvort sem það eru fíklar eða alþingismenn.

Að sama skapi fannst mér óþægilegt að horfa á viðtalið við móður Ívars. Hún var líka dálítið að fela kúkinn sinn.

Peace

11:51 e.h.  
Blogger Anna Kristjánsdóttir said...

Ég sá ekki seinna viðtalið, þetta við Ívar, hitt var sem neyðaróp móður sem kann að halda andlitinu.
Ég ætla heldur ekki að fylgja í fótspor Villa og styðja þig því hjarta mitt slær vinstra megin og Guðrún Ögmundsdóttir er mitt uppáhald á Alþingi.

12:54 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég er mikið sammála þér þarna Sigmar. Mér rann til rifja frásögn beggja aðila. Ég hafði í sjálfu sér ekki myndað mér skoðun á þætti fjölmiðlanna í þessu, leggst nú á netið og leita uppi bæði Kastljósþáttinn og greinina.

Varðandi það sem Brynja er að segja hér að ofan þá er þetta mjög góð líking og sönn.

Ég styð Zigmarr heilshugar í komandi kosningum.

12:56 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ekki ætla ég að styðja þig í prófkjörinu, enda væri sá stuðningur Bjarnargreiði, Villjandi gæti einhver reiðst því.

Þetta eru svo sem þörf skrif hjá þér, en þú mátt ekki láta Jakob Bjarna raska stóískri ró þinni. Hann er ágætur penni en hugmyndir hans er svolítið skrítnar.

Ertu að verja Kastljós og Moggann eða réttlæta eitthvað með þessu? Þetta minnir óneitanlega á skrif Björns Bjarna þegar hann er að verja sig og það sem hann segir, eftir heimsóknir í fjölmiðla, alltaf smá pisst.

Annars má nú á milli vera þegar verið er að spegla þjóðfélagið með svona viðtöl um eymdina. Þetta er orðið landlægt að leita sífellt uppi krassandi sögur, í þessum málum og öðrum sem gengið hafa nærri einstaklingum. Bætir þetta þjóðfélagið?

Virðingafyllst, Garðbæingurinn.

7:28 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

æj voðalega eru allir eitthvað strektir. Það eru hundruð ungmenna úti á galeiðunni eins og þessi gæi. Og þúsundir fullorðinna, haldnir sjálseyðingarhvöt og á kafi í bullinu. Þetta fólk á allt tugirþúsunda aðstandenda þannig að svona nokkuð stendur okkur öllum svolítið nálægt. Ímynd rokkarans hefur verið svona í tugir ára og hér koma nokkrir sem eru eins karakterar.
Keith R
Leonard Cohen
Robert Plant
Bubbi Mortens
Peter Doherty reyndar auli
Sid V
Jim Morrison
Þorgeir Á
etc

þetta er aðeins miilibrot af tónlistarmönnum sem hafa verið á svipuðum stað og þessi gæi. Sumir meika það aðrir ekki. En okkur finnst samt að þessir menn séu baðaðir ákv dýrðarljóma og við lítum upp til þeirra.
Hljómsveitin Mínus hafa gefið sig út fyrir að vera töffarar en eru bara píkur. eru kynnar á fegurðarsamkeppnum, syngjandi með hallærislegum feðrum sínum skallapopp, og komandi fram í blöðum sem trend setterar???

Hafið enga áhyggjur af þessum gæja hann á möguleika ef hann þurrkar sig og gerir eitthvað í sínum málum, nú ef ekki þá er hann í djúpum. Málið er að við getum bara ekkert gert í því þetta er alfarið hann

9:33 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hahhaa þessi skrif hjá þér eru alger snilld! Heimsæki síðuna hjá þér daglega núorðið! Brilliant!

11:42 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Keith R
Leonard Cohen
"Robert Plant
Bubbi Mortens
Peter Doherty reyndar auli
Sid V
Jim Morrison
Þorgeir Á
etc"

Hahahaha, þetta er í fyrsta skipti sem ég sé komment sem slær út færslu Zigmarrs í fyndni. Að lauma Þorgeiri Ástvalds þarna inn made my day.

12:17 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Blessaður Simmi minn!

Ekki hefur þú lesið fjölmiðlapistilinn sem þú vísar í gaumgæfilega - verð ég að segja. Enda virðist þú oft ofurviðkvæmur fyrir RÚV og Kastljósi. Sem er gott. Sýnir að þú ert góður liðsmaður í þínum hópi. En það er með "góðu" miðlana, sem ég kalla svo, hina siðvöndu, sem ekki vilja rugga bátnum nema einhver sé búinn að brjóta eggið í ommilettuna, ekki síst Kastljósið, að þeir eru ávallt tilbúnir að hlaupa upp til handa og fóta og gera sér stórmáltíð úr því þegar einhverjir aðilar vilja gagnrýna þá á "vondu" miðlunum. Eiginlega alveg sama hvaða bull er boðið upp á. Þú ættir að skoða það.

En ekki misskilja mig. Mér finnst fínt að þið í Kastljósinu birtið efni sem þegar hefur verið unnið og komið fram prenti. Þið gerið það oft mjög vel. Gerið efnið jafnvel að ykkar eins og kom fram við síðustu Blaðamannaverðlaun. Og þetta eru náttúrlega ólíkir miðlar og allt það.

Kannski hefur þér þótt fjölmiðlapistillinn helst til snubbóttur. Hann var lengri en það þurfti að klippa nánast helminginn af plássins vegna. Kannski að sú staðreynd ali á misskilningi og því ætla ég, af því að þetta ert þú, vinur minn, að skjóta honum hingað í fullri lengd.

Bestu kveðjur ævinlega,
Jakob


Við tækið Góðir fjölmiðlar og vondir Jakob Bjarnar veltir fyrir sér plati og alvöru

Mamma Ívars Arnars, sem er mikil poppstjarna og kallar sig Dr. Mister, var í viðtali í Mogganum. Um leið og hún sagði “suma” fjölmiðla bera ábyrgð á vafasömu líferni sonar síns og viðhalda því – þá vildi hún meina að sonur hennar væri ekki hann heldur annar. Mamman þykir hafa sýnt fádæma hugrekki að koma svona fram.
Mogginn reit svo leiðara í vikunni þar sem segir: “Fjölmiðlar eru ekki bara leiðslur með stjórnlausu rennsli. Þeir bera ábyrgð en hvernig fara þeir með hana?”
Svo merkilegt þótti Kastljósfólkinu á RÚV þetta viðtal að þeir fengu mömmuna til að endurtaka þessa merkilegu staðreynd á skjánum. Og fylgdu því svo eftir með viðtali við Ívar Örn sem tjáði Kastljósinu að Ívar Örn væri eitt og Dr. Mister væri annað. Sem fyrirmynd er Dr. Mister vond en Ívar Örn kannski ágætur.
Hér á landi eru “sumir” fjölmiðlar í því að níða skóinn af heiðarlegu fólki. Eins og Sirkus og Séð og heyrt að ekki sé nú rætt um DV. Sem hafa allskonar vitleysu eftir fólki. Sem það sagði að vísu en meinti ekkert með því. Og þar kemur einmitt að umræddri ábyrgð og ábyrgðarleysi. Góðir fjölmiðlar eiga að hafa vit fyrir viðmælendum sínum og passa upp á áhorfendur og lesendur. Að ekkert beri nú fyrir augu þeirra sem passar ekki við slétt og fellt yfirborðið. Eins og við viljum hafa það.
En sem betur fer eru nokkrir fjölmiðlar góðir og vara grandalausa borgara eins og mig við þessum óbermum á fjölmiðlamarkaði. Og undirliggjandi er þá staðhæfing þeirra miðla um eigið ágæti -- að sjálfir séu þeir góðir. Þá erum við til dæmis að tala um Mogga og Kastljós. Og NFS sem kallaði til Bjarna Brynjólfsson fyrrverandi ritstjóra Séð og heyrt til sín Í bítið. Þó Bjarni hafi fjallað um hjónaskilnaði og einkamál í rúman áratug, og gengur þar í berhögg við hegningarlögin sem kveða á um að ekki megi fjalla um einkamál fólks nema nauðsyn beri til (sic), þá bara gerir hann það svo miklu fallegar en aðrir. Af virðingu. Og fordæmir nú vondu miðlana sem góði hirðirinn.
Ef einhver sér mótsögn í þessu, eitthvað bogið – ekki þá skrifa mér póst.
Annars er þetta alteregó merkilegt fyrirbæri. Og erfitt fyrir fjölmiðla að vara sig á því. Greinilega. Sigmar Kastljóssmaður Guðmundsson lá ekki á liði sínu að taka viðtöl við hina tilbúnu fígúru Silvíu Nótt á sínum tíma. Sem í alvöru væri. Svo fylgdi hann Silvíu til Grikklands. Þar sem erlendir fjölmiðlar kveiktu ekki á gríninu. Tóku henni eins og hún var en ekki að þetta væri eitthvert leikrit. Þetta ofbauð Sigmari á frægri bloggsíðu sinni. Og þá er spurt: Kastljósið tók viðtal við Ívar Örn en ekki Dr. Mister eins og vondu fjölmiðlarnir gerðu greinilega. Ætlar Kastljósið þá að hætta að taka þátt í Silvíu-leikritinu? Og ræða framvegis bara við Ágústu Evu leikkonu? Þegar menn fara að hengja sig í hæpnum hugmyndir um fyrirmyndir, slæmar og vondar, verður þeim hált á svellinu. Í lagi er að taka viðtal við Mikka mús sem raunveruleg persóna sé því allir fatta það auk þess sem Mikki er svo góð fyrirmynd, Silvíu Nótt kannski en alls ekki Dr. Mister – sem þó gerir ekki annað en hanga í úrsérgenginni ímynd um sex, drugs and rock’n’roll.

12:22 e.h.  
Blogger sigmarg said...

Stjórnandi bloggs hefur fjarlægt þessi ummæli.

12:37 e.h.  
Blogger sigmarg said...

Helvíti átti þetta að vera langur fjölmiðlapistill, Jakob:) Og hann er skárri í styttri útgáfunni, þar kemur þú fyrir færri rangfærslum. Og svo ferðu náttúrulega að tala um eitthvað allt annað. Það er eitt að taka viðtal við leikna persónu i karakter, sbr sylvíu, en annað trúa svívirðingum hennar um franhjáhald þekkts fólks og slá því upp sem frétt. Af því að þú ert nú skynsamur maður, jakob minn, þá mannstu væntanlega að það var þetta sem ég gagnrýndi á blogginu sem þú vitnar til. Ef ekki þá skaltu bara rifja upp. Lestu færsluna og kommentin við hana. Hún er frá laugardeginu 20 mai.

2:49 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hahaha alveg snilld að BRYNJA BJÖRK sé að setja út á hvernig fólk markaðsetur sig! Ekki gaman að vera þekktur sem dópisti og aumingi? Ertu búin að gleyma fyrir hvað ÞÚ ert ,,þekkt"? hahaha :D Brynja mín fólk vorkennir þér líka...no hard feelings! ;)

2:54 e.h.  
Blogger Jökull Sólberg Auðunsson said...

Dópistarnar eyða sjálfum sér til að skemmta mér.

Sköpunarkrafturinn er óumdeilanlegur og magnaður þegar fólk er haldið þessari tegund af sjálfseyðingarhvöt. Þegar manneskjan hefur engu að tapa og örvar hugann sinn með efnum ratar hún á áhugaverðar brautir og hefur frá svo mörgu ótrúlegu að segja.

3:56 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hér logar greinilega allt í rökræðum um þetta fræga viðtal sem ég verð greinilega að lesa. Sigmar er hörku fréttamaður og ég myndi fúslega styðja hann ef hann færi í framboð....

4:00 e.h.  
Blogger Brynja Björk said...

Stjórnandi bloggs hefur fjarlægt þessi ummæli.

5:31 e.h.  
Blogger Brynja Björk said...

Stjórnandi bloggs hefur fjarlægt þessi ummæli.

5:31 e.h.  
Blogger Kristín Alma said...

Er einhver keppni um hver getur skrifað lengsta kommentið?

Anonymous4 á samt vinninginn í leiðinlegasta kommentinu og getur ekki einu sinni sagt þetta, nema með nafnleynd.
Þrusu nagli.

Góða helgi.

8:03 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Asskoti er þetta comment um Brynju nú sorglegt...

Brynja Björk er nú aðallega þekkt held ég fyrir að vera gullfalleg og með bein í nefinu...ákveðinn og lætur ekki vaða yfir sig.

Sjálfstæðar skoðanir og kemur fram eins og hún er klædd....svona hinn kvenlegi Sigmar og þá með útlitið hans Loga Bergmanns...bara töff gella !

....sem er meira en hægt er að segja um þennan nafnlausa lúser að ofan sem tætir Brynju í sig... sem er örugglega 30 kg of þung....jómfrúar skass eða einhver sem Brynja hefur neitað um dans á balli...

whatever...Brynja er flott !

PS: ég er nafnlaus þar sem ég vil ekki að Brynja viti hversu við félagar dáumst að henni....:-)

10:01 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Merkilegt hversu tónlistarmenn eru hafnir upp til skýjanna, sérstaklega þeir sem semja og flytja tónlist sína gjörsamlega út úr stoned. Íþróttamenn sem gripnir eru fyrir notkun ólöglegra lyfja eru sviptir verðlaunum sínum og settir í keppnisbann, en tónlistarmönnum (körlum og konum) hampað sem frábærum listamönnum, viðtöl tekin og myndaseríur birtar af þessu líka glæsta fólki. Íslandi allt!!!

12:36 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Er þetta ekki sama Brynja og er þekkt fyrir að vera Hnakkamella eða eitthvað álíka. Það er eiginlega verra en að vera þekktur fyrir að vera dópisti. AMK þar til að það að vera hnakkamella verði skilgreint sem sjúkdómur. Ivar er veikur en Brynja er "markaðsmanneskja".

12:38 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Síðan hvenær fór þessi færsla að snúast um Brynju Björk? Jeminn....finniði ykkur annað hobby segi ég nú bara.

1:27 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Kæru félagar í Flokknum.

Við styðjum Björn Bjarnason, Guðlaug Þór Þórðarson og Sigmar Guðmundsson í annað sæti í prófkjörinu um helgina.
Við hvetjum ykkur til þess að setja Guðlaug Þór í annað sæti en Björn og Sigmar í eitthvað annað sæti.

Virðingarfyllst,

Geir H Haarde
Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson

10:17 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home