þriðjudagur

Spyrillinn

Björn Bjarnason skrifar um viðtal sem ég átti við hann um hlerunarmálin í gær á vefsíðu sinni. Það sama gerir Guðmundur Magnússon á sinni bloggsíðu. Þeir falla báðir í þá gildru að álykta að spyrill í svona viðtali spyrji bara útfrá eigin skoðunum og viðhorfum, en ekki útfrá umræðu, fullyrðingum og andrúmslofti í samfélaginu. Báðir halda að Sigmar Guðmundsson hafi persónulega mikið vantraust á ríkissaksóknara og lögreglu í hlerunarmálinu og byggja það á spurningum mínum. Báðir hafa rangt fyrir sér. Sigmar Guðmundsson hefur enga sérstaka skoðun á ríkissaksóknara eða lögreglu í þessu máli. Spyrillinn Sigmar spurði hinsvegar útfrá þeirri gagnrýni sem þetta hefur fengið, til að mynda frá Árna Páli Árnasyni. Þá var ástæða til að spyrja þessara spurninga þar sem umræða um sjálfstæði stofnanna frá ráðherravaldinu dúkkar reglulega upp í samfélaginu. Með því að spyrja er ekki verið að slá einu né neinu föstu, heldur er spurningin leið til þess að fá fram skoðanir og svör við þessum fullyrðingum pólitískra andstæðinga. Það er svo áhorfandans að meta hvað er er rétt og hvað ekki. Þetta ættu Björn og Guðmundur að vita en báðir hafa gengt ábyrgðarstöðum á ritstjórnum. Auk þess verður að hafa í huga að engin pólitískur andstæðingur var í þættinum til að veita Birni viðnám en það kallar á hvassari tón frá spyrli. Annars er svona gagnrýni ekki ný af nálinni. Því er reglulega haldið fram að við spyrjum útfrá skoðunum okkar og drögum taum einhverra stjórnmálaafla. Sem betur fer kemur sú gagnrýni úr öllum flokkum og ekkert síður af vinstri væng en þeim hægri. Það finnst mér staðfesting á því að við séum sjálfstæð og gerum skyldu okkar gagnvart almenningi en ekki stjórmálamönnum.

20 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sæll Sigmar. Ég sá þetta viðtal og fannst þú standa þig sérstaklega vel og ég vil nú meina að það hafi eingöngu verið viðbrögð Björns og tilraunir til að komast undan því að svara sem kölluðu á hvassari tón frá spyrlinum! Ég vil sjá meira af svona viðtölum þar sem menn komast ekki upp með að víkja sér undan svörum.

11:52 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sigmar. Ég var afar ánægður með framgöngu þína í þættinum í gær. Svona á að tala við "pólitíkusa". Þá meina ég að það á ekki að leyfa þeim að komast upp með að svara út og suður endalaust. Haltu þessu áfram, Comrad

12:09 e.h.  
Blogger Einhver said...

Heyr heyr! Komið nóg af prinsa og prinsessuviðtölum. Þessir menn stjórna í okkar umboði og eiga að svara fyrir gjörðir sínar en ekki spila pólitíkusaleik í viðtölum, snúandi sér undan eins og börn í smá orrahríð.

12:18 e.h.  
Blogger Hjörtur Howser said...

Björn Bjarnarson er þurs, hann var þurs meða hann stýrði menntamálum (sem "öðrum þræði", svo notað sem þvælt tungutak Björns sjálfs, eru í þeim ólestri sem þau eru vegna vangetu hans) og hann er enn þurs í öllu sem viðkemur dómsmálaraðuneitinu. Þú stóðst þig frábærlega vel og átt alls ekki að láta dínósára eins og Björn fipa þig. Sem ráðherra hefði hann smellpassað í ríkistjórn í gömlu ráðstjórnarríkjunum þar sem allar ásakanir í garð ráðamanna voru rannsakaðar af þeim sjálfum og síðan fengin niðurstaða sem hreinsaði þá að sjálfsögðu af öllu misjöfnu. Eftir stóðu svo ásakendurnir sem ómerkingar af því ekkert var hægt að sanna af því sem þeir héldu fram. Björn er svo siðblindur, eftir alla bitlingana og bláhandaraðstoðir í gegnum tíðina, að hann heldur í hjarta sínu að svona gerist kaupin á eyrinni í dag. Á meðan til eru heiðarlegir og drengilegir fréttamenn, á borð við þig Sigmar, komast gjörspilltir stjórnmálamenn eins og Björn ekki upp með sinn blekkingarleik.
Keep on rocking in the free world !!

12:35 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Svona eiga viðtöl að vera, mér fannst þú standa þig rosalega vel. Það á einmitt ekki að leyfa þessum körlum að komast upp með að snúa út úr og þar með svara þeir ekki spurningunum eins og beðið er um. Þú lést það alls ekki í ljós að þú hefðir vantraust á þeim stofnunum sem um er rætt.

12:38 e.h.  
Blogger Finnur Beck said...

Vel mælt Simmi. Það skiptir máli að halda þessum sjónarmiðum á lofti í umræðunni innan um skrif og skilgreiningar stjórnmálamanna á því hvernig fjölmiðlar standa sig.

12:54 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Margt merkilegt kom þarna fram.

Árni Páll:

Hann tekur undir orð Ómars Ragnarssonar um óttasamfélagið. Menn ekki færðir til í starfi eða tapi á að segja sannleikan. Verslings Ísland. Er þetta svo í raunveruleikanum?


Björn Bjarnason: Ver ríkissaksóknara!

Þarf Ríkisaksóknari á hjálp að halda frá Birni eða hvað? Afhverju þarf Björn að verja ríkissaksóknara áður en ríkissaksóknarinn hefur hafið rannsóknina?

Sigmar: Má spyrja? Hefðir þú getað unnið þína vinnu betur?

Ríksisaksóknar og Lögreglan?? Saman í að rannsaka málið? Hver hefur eftirlit með lögreglunni?

Sjálfstæðisflokkurinn?? Er það ekki bara sögusögn eða orðrómur að sá flokkur njósni?

Leyniþjónusta? Er hún til?

Af hverju á maður að trúa Jóni Baldvini umfram aðra? Af því að hann var ráðherra?

Skiptir einhverju máli hverjir vilja halda þessu máli á lofti?

Hvað halda lesendur hér að rannsóknin leiði í ljós? Er þetta vonlaust mál? Hverjum er treystandi hér á landi? Ríkissaksóknar? Lögreglunni? Ríkisstjórninni? Stjórnarandstöðunni? Fréttamönnum? Fréttamiðlum?

1:35 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Tilveran er glötuð eftir að Davíð hætti....nú er Kjartan farinn líka úr Valhöll og samsæri gegn mér í prófkjörinu osvfrv...síðan þarf ég að þola Baugsmiðla sem greinilega eru búnir að kaupa kastljósið því annan eins dónaskap og þessi Zigmar sýndi mér er fáheyrt......alveg eins og hann lét vini sína kalla mig ritvél í öðrum þætti kastljóss um daginn.

Það er alveg ljóst hver verður fyrsta fórnarlamb leynilöggunnar minnar.....og síðan eru þeir sem kalla mig þurs sem eru næstir.


PS: Þoli ekki ágenga fréttamenn sem eru töff....ég vil hafa þá undirförla og auðmjúka frá A-Ö.

1:36 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta var flott viðtal hjá þér. Það sáu allir að Björn fór undan í flæmingi í þessu viðtali. Ég hvet ykkur til að halda áfram á þessarri braut því að stjórnmálamenn hefa komist upp með allt of mikinn moðreyk í viðtölum almennt, og gera enn. Þeir eiga að svara beinum spurningum beint en ekki út í bláinn.

2:18 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

er ég sá eini sem fékk kjánahroll dauðans þegar ég sá æfingu sérsveitar Björn Bjarna í 3 tómum gámum á Akranesi ??? í fréttum í gær....bwwuuaaa

fluttir með þyrlu á akranes....og síðan bang bang í 3 skipagámum.......LOL.......og fréttin reyndist á rökum reist þar sem "hryðjuverkamenn" höfðu einmitt komið sér fyrir þarna.....og það voru rosaleg átök og bardagar að sjá þá labba að gámunum...kíkja þar inn og "ráðast" svo til inngöngu......vávává !!!

Kjááááááánalegt.....

2:41 e.h.  
Blogger Ragga Rokkar said...

Gott viðtal.
Björn er lúði !!!!!!!!!!!

3:11 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Voðalegur sleikjugangur er í fólki í þessum kommentakerfi. Skrifarðu þetta allt sjálfur Simmi?

4:46 e.h.  
Blogger Anna Kristjánsdóttir said...

Þetta er allavega ekki komið frá mér :)

5:39 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sæll Sigmar, ég persónulega horfði á þennann hluta Kastljóssins tvisvar svo gaman hafði ég af því hvernig þú tókst á honum Birni, ég held að hann sé að kveinka sér undan því að hafa ekki fengið sömu meðferð og hann er vanur í svona þáttum. Endilega halda áfram svona þegar þessi labbakútar koma í þáttinn til þín.

6:47 e.h.  
Blogger d said...

Það er skoðun mín að fréttamaður í viðtali við pólitíkusa eða aðra sem hafa með almannahagsmuni að gera eigi alltaf að vera talsmaður andskotans (devils advocate), þ.e. alltaf vera fulltrúi hins sjónarmiðsins og þjarma að viðkomandi viðmælanda um upplýsingar þar til annaðhvort að viðmælandinn svarar spurningunum vel og greinilega á fullnægjandi hátt ellegar missir skítinn í buxurnar.

Þannig getur áhorfandinn einmitt dæmt viðmælandann út frá því sem fram kemur, upplýsingum og viðbrögðum. Fréttamaðurinn heldur hlutleysi sínu með því að gera þetta við ALLA viðmælendur, alltaf. Þetta er t.d. mikið praktíserað hjá fréttamönnum BBC, sem virðast sífellt vera í andstöðu við viðmælanda sinn, til að viðtalið sé krefjandi og kalli á svör.

Þetta er eitthvað sem vantar mikið í íslenska fréttamennsku, allt of oft hefur maður séð pólitíkusa komast upp með madonnuviðtöl þar sem fréttamaðurinn jánkar bara því sem fram kemur athugasemdalaust. Ég bendi á flestöll viðtöl við Þorgerði Katrínu. Það ætti ekki að þurfa mikið til að reka hana á gat en það gerist mjög sjaldan. Þar er spyrlinum um að kenna.

Ég fagna því að Vita að KAstljóssfólk hefur svipaða skoðun og er þétt ánægður með þig Sigmar að svara þessum uppblásnu sjálfselskupúkum hér, því þeir eru greinilega ekki vanir svona meðferð. Megi það breytast í framtíðinni.

7:17 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég er sátt. Pólitíkusar eins og hann eru vanir að geta gengið inn í viðtöl og sagt það sem þeir vilja án þess að vera spurðir óþægilegra spurningar á móti.
En þegar það gerist, þá er ástæða til að blogga um það greinilega!

8:40 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Sæll Sigmar.
Eftir að hafa lesið þessar athugasemdir við bloggið hjá þér, ákvað ég að kíkja á viðtalið fræga. Það var gaman að horfa á fyrri partinn. Hins vegar var grámyglan svo mikil þegar smettið á hæstvirtum ráðherra birtist á tölvuskjánum að mig sundlaði.
Ég gat með engu móti horft á þetta, svo ömurlega leiðinlegur er Björn.
Þú hefur nú samt án vafa staðið þig með ágætum.

10:12 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ekki skrýtið að Svanhildur sé bitur greyið ... þvílík stjörnuhröp!

5:56 e.h.  
Blogger Sprettur said...

Nú ættu allir að gerast sjálfstæðismenn til að geta haft áhrif í prófkjörinu og hent Birni út með stæl.

2:54 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

"Þetta ættu Björn og Guðmundur að vita en báðir hafa gengt ábyrgðarstöðum á ritstjórnum. Auk þess verður að hafa í huga að engin pólitískur andstæðingur var í þættinum til að veita Birni viðnám en það kallar á hvassari tón frá spyrli."

En hvers vegna skyldu þeir þá ekki vita það? Er það vegna þess að vinnubrögðin voru önnur á þeim ritstjórnum?

7:13 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home