mánudagur

Piss 103

Áður en þið lesið lengra vil ég vara ykkur við því að efni þessa pistils er ekki fyrir viðkvæma. Hann fjallar nefnilega um nútímalega list.

Ég hvet ykkur til að skoða þessa frétt sem Baldvin Þór Bergsson gerði. Hún er um nemendur sem gerðu vægast sagt óvenjulegt verkefni í Listaháskólanum. Þrír drengir í læknaslopp klipptu fyrst hárið af nakinni stúlku og verkefnið endaði með því að einn þeirra pissaði yfir stúlkuna.

Nú skal ég fúslega viðurkenna að ég er lítil listaspíra í mér. En úr því að þvaglát eru orðin sjálfsagður hluti námsefnisins í listaháskólanum get ég svosem játað að hafa átt nokkrar unaðsstundir með listagyðjunni inni á salerni. Hingað til hafa þær nú meira verið prívat og ekki hugsaðar sem djúpt innlegg í listasöguna. Í ljósi nýjustu frétta mun ég hinsvegar að sjálfsögðu reyna að fá þessar klósettferðir metnar til eininga í listaháskólanum. Mín akademíska hugsun á salerninu hefur reyndar aldrei ratað á það kúltúrstig að ég hafi klæðst læknaslopp eða migið á heimilisfólkið til menningarauka. En það er nú bara vegna þess að ég er úr Garðabænum og þekki ekki fínustu blæbrigði listarinnar.

Kommon!

Ég ekki hvort er sorglegra, þetta lið sem mígur á hvort annað í kennslustundum, eða skólastjórnendurnir sem þora ekki að koma opinberlega fram og benda fólki á að það sé enn við hæfi að hegða sér á siviliseraðan hátt. Við hvað eru menn hræddir? Að skilja ekki listina? Að vera úthrópaðir plebbar og menningaróvitar af því að þeir samþykkja ekki að nemendur spræni á hvern annan í tíma?

Og í guðanna bænum ekki misskilja mig. Úr því að nemendum listaháskólans er svona mikið mál, þá mega þeir mín vegna reyna það verklega á eigin skinni hvernig tilfinning það er að vera hlandskál eða bekken. En óneitanlega væri það skynsamlegra ef þeir eyddu frímínútunum í þessa vitleysu, því það er hollt í öllu skólastarfi að brúka kennslustundirnar í lærdóm. Þótt það sé kannski gamaldags.

Þetta minnir á listahátíðina fyrir nokkrum misserum sem sett var á Akureyri í beinni útsendingu sjónvarpsins. Þar mátti sjá ógurlega fansí listaverk á skjá þar sem maður skakaði pungnum á sér við drifskaft með lauk standandi útúr rassinum. Þessu metnaðarfulla verki var lýst svona í Mogganum: Greenman er blanda af manni og plöntu, hann er með lauka sem blómstra hægt og sígandi í munni og endaþarmi og lýsir myndbandið á mjög opinskáan hátt hvernig honum rís hold og síðan samræði hans við drifskaft skógvinnsluvélarinnar. Svo mörg voru þau orð.

Ég veit að ég er óttalega púkó en mér finnst gamla ævintýrið hans HC Andersen um nýju fötin keisarans alltaf vera besta listaverkið. Í ævintýrinu var það lítið barn sem benti á að keisarinn var ekki neinum fötum. Í nútímaútgáfunni dugir varla að benda á að keisarinn er ekki bara berrasaður. Því hann er líka hlandblautur og með lauk í rassgatinu!

sunnudagur

sitt lítið...

Orð dagsins á Þorsteinn Pálsson í leiðara fréttablaðsins í dag. Raðrökleysa. Mér finnst þetta orð verulega töff.

Reynir Traustason er öflugur maður og fær ritstjóri. En ég verð ekki beint vitstola af löngun í að lesa tímarit þegar ég sé hann ríðandi á hesti í miðbænum með trefil og hatt í sjónvarpsauglýsingu. Eða er tímaritið kannski nýr Eiðfaxi? Bíð spenntur eftir Ísafold. Af hverju auglýsir Styrmir aldrei moggann á línuskautum?

Sá í fréttum NFS uppúr Ísafold að Unnur Birna ætlar að kveðja sviðsljósið. Það gerir hún í forsíðuviðtali. Meikar sens!

laugardagur

Er Guð uppí hesthúsi?

Hvað á maður eiginlega að segja um sóknarnefndarfarsann í Garðabænum? Þarna hefur allt logað í illdeilum einsog þjóðþekkt er og nú á sóknarnefndin að hafa verið hleruð með spæjaragræjum þar sem hún sat á áríðandi fundi. Uppí hesthúsi!!! Þegar maður veltir fyrir sér hasarnum hjá sóknarnefndinni dettur manni helst í hug að nefndin sé fyrirmynd Stöðumælavarðanna í Fóstbræðrum, sem virka þó full jarðbundnir í samanburðinum.

Annars er aktívitetið í þessu fólki, sem telur sig nær guði en við hin, ekkert ólíkindalegra en spássitúr jesú á vatninu eða brugghæfileikar hans. Og það er væntanlega ekki erfitt að sannfæra fólk sem heldur að örkin hans Nóa sé sönn saga, um að Ríkislögreglustjórinn hafi brennandi áhuga á innri málum sóknarnefndar Garðahrepps. Eða var það kannski leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins sem var að hlusta?

fimmtudagur

yfirlýsing - og fleira

Ég lýsi því hér með yfir að ég styð Sigmar Guðmundsson í annað sætið í prófkjöri sjálfstæðisflokksins um helgina.

Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson,
borgarstjóri

-----

Sirkus tekur viðtal við frægan poppdópista, Ívar Örn Kolbeinsson, sem talar hispurslaust um viðhorf sín til kvenfólks og kókaíns. Viðtalið er afhjúpandi og sláandi. Sirkusblaðið er gagnrýnt fyrir að upphefja neyslu Ívars. Því er mótmælt með þeim rökum að fjölmiðlar eigi að sýna veröldina einsog hún er, en ekki einsog hún ætti að vera. Og í Sirkus blasti dópistinn við í allri sinni eymd og engu var haldið frá lesandanum. Þetta eru góð og gild rök í blaðamennsku.

Síðan birta Kastljós og Mogginn viðtal við móður popparans þar sem hún gagnrýnir bæði neyslu sonarins og umfjöllun fjölmiðla um hann. Þar var engu í hennar óttablöndnu skoðunum á örlögum sonarins haldið frá áhorfendum. En þá ber svo einkennilega við að rökin um að sýna veröldina einsog hún er, virðast ekki lengur góð og gild. Ekki ef marka má leiðara og fjölmiðlapistli Fréttablaðsins í dag.
Lesandinn má bara sjá veröld fársjúks fíkniefnaneytanda sem ramblar áfram í firrtri veröld. Angist móður hans og gagnrýni er lesandanum ekki hollt að sjá vegna þess að hún beinist að hluta til að fjölmiðlum. Hún er á einhvern einkennilegan hátt óæskilegri en firring fíkniefnaneytandans.

Fjölmiðlar eiga að spegla samfélagið segir einn besti penni fréttablaðsins, Jón Kaldal. Og ég er því hjartanlega sammála. En að það sé bara pláss fyrir sjúkan fíkilinn en ekki örvæntingafulla móðurina í spegilmyndinni finnst mér hæpið. Og er vonandi ekki í anda Fréttablaðsins.

Í fjölmiðlapistlinum er Jakob Bjarnar fyndinn að vanda. Gagnrýni móðurinnar er framlenging á skoðun Kastljóss og Moggans sem líta á sig sem góða fjölmiðla og sjá hina sem vonda, segir Jakob. Skoðun viðmælandans er skoðun miðilsins, semsagt. Ef þetta er rétt hjá Jakobi, þá hljóta viðhorf Ívars til kvenna og kókaíns í téðu Sirkusviðtali að vera framlenging á skoðun Sirkuss. Eða gildir þetta bara um “góðu” miðlana?

Svo fer Jakob háðulegum orðum um þessa “góðu” fjölmiðla sem ætlist til að haft sé “vit fyrir viðmælendum og passað uppá lesendur og áhorfendur”. En samt er pistill hans skrifaður í einhverju fúllyndi yfir því að Kastljós og Mogginn höfðu ekki vit fyrir móður Ívars og báru þessa vitleysu úr henni á borð fyrir lesendur og áhorfendur. Þvílík hræsni.

Og það er kvartað undan því hér að ekki hafi verið nægjanlega mikil gagnrýni í viðtölum við móðurina, fremur einhver meðvirkni. En bíðum við. Fangar þetta orð, meðvirkni, ekki ágætlega stemmninguna í Sirkusviðtalinu? Þar var ástandi fíkilsins lýst af blaðamanni með orðunum: “Sjálfur er Ívar illa góður á því”. “Illa góður á því” er einkunn blaðamanns á unglingablaði á kengdópuðum poppara að þusa rúnk og dópsögur í diktafón. Er þetta ekki upphafning og meðvirkni?

Að mínu viti mátti alveg spyrja móðurina með gagnrýnni hætti um hvort hún sé ekki að varpa ábyrgðinni á hegðun og veikindum sonarins yfir á fjölmiðla. Það var full ástæða til þess. Blaðamaður Sirkus mátti einnig vera gagnrýnni á Ívar í viðtalinu í stað þess að segja hann illa góðan á því. En bæði viðtölin áttu fullkomlega rétt á sér. Pennar Fréttablaðs og Blaðsins ættu hinsvegar að leggjast undir feld og skoða vandlega hvort ekki sé ekki örugglega absúrd að gagnrýna aðra miðla fyrir að spegla samfélagið einsog það er.

miðvikudagur

Kurteisislegu hatursbréfin

Það eru margar kurteisisvenjur sem ég skil ekki. Enda er ég almennt talin dónalegur drumbur. Ég hef til að mynda aldrei skilið af hverju bréfritarar enda bréf sín með orðinu “virðingarfyllst” þegar augljóst er að þeir bera ekki nokkra virðingu fyrir viðtakandanum. Dæmi um þetta er bréf Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til Jóns HB Snorrasonar sem birt er hér. Nú ætla ég ekki að hætta mér í það fúla fen að tala um efnisatriði Baugsmálsins, en það dylst engum að litlir kærleikar eru þarna á milli. Samt enda bréfin á milli aðila alltaf á þessu jákvæða orði “virðingarfyllst” sem er yfirleitt í hrópandi mótsögn við efnið. Hvernig væri nú ef Baugsmenn og lögregla þróuðu áfram þennan einkennilega stíl sem er á bréfunum. Það yrði amk skemmtilegra lesefni fyrir almenning, sem vegna langvinnra leiðinda málsins er einnig orðin fórnarlamb. Þá væru kurteisislegu hatursbréfin einhvern veginn svona:

Kæri ofsækjari, Jón HB Snorrason.

Þér eruð bjáni. Embættisfærslur yðar eru ömurlegar og þér eruð hundur í bandi stjórnmálamanna. Ofsóknir yðar eru geðsjúklega hallærislegar og þér eruð blettur á réttarvörslu kerfi voru. Vér erum saklausir.

Virðingarfyllst,
Jón Ásgeir Jóhannesson


Saksóknari svarar:

Æruverðugi glæpon, Jón Ásgeir Jóhannesson

Þér eruð þjófur og skattsvikari. Ef vér náum yður ekki fyrir efnahagsbrot eða skattsvik, þá riggum vér upp stöðumælasektum til að koma yður bak við lás og slá, þarna vínberjaokrarinn yðar. Þér ættuð að skammast yðar. Davíð biður ekki að heilsa. Fífl.

Virðingarfyllst.
Jón HB Snorrason

laugardagur

FRAMBJÓÐANDINN

Mikið er allt fólkið sem núna er í prófkjörum frambærilegt. Svo belgfullt af manngæsku og góðum hugmyndum að það er óhætt að loka þjóðarbúllunni nái það ekki kjöri. Ég er búin að stúdera stefnumálin og hugsjónirnar og hef hér smættað niður í öreindir hinn dæmigerða meðal vísitöluframbjóðanda sem tröllríður fjölmiðlunum um þessar mundir:

Hann vill efla menntun og heilbrigði þjóðarinar á nýrri öld. Þannig sker hann sig úr hópi annara frambjóðenda sem stefna að almennu ólæsi og vilja smita þjóðina af berklum og herpes og koma henni fyrir í moldarkofum.

Hann horfir til framtíðar og ætlar sér að stuðla að nýsköpun. Öfugt við hina lúðana sem vilja búa hér til samfélag steinaldarmanna sem ræktar ber og étur mammúta.

Hann vill efla forvarnir og stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Eins gott að taka þetta fram svo fólk haldi ekki að hann vilji selja krakk í skólum og gera kostnað við framhjáhald og heimilisofbeldi frádráttabæran frá skatti.

Hann leggur áherslu á heiðarleika og umhyggju fyrir samborgurum sínum. Hann ætlar semsagt ekki að drepa gæludýr lítilla barna og hnupla í matinn.

Hann vill nútímalega stjórnunarhætti og efla lýðræðið. Hinir frambjóðendurnir stefna nefnilega að konungsbundnu keisaradæmi þar sem kalífi stjórnar með aðstoð ættbálkaráðs.

Hann vill berjast fyrir efnahagslegum framförum og auka hagvöxt. Hver hefur örbirgð og fátækt á stefnuskránni?

Þessi frambjóðandi leggur gríðarlega áherslu á að allir hafi það alltaf rosalega gott. Og að engin þurfi að þjást neinsstaðar staðar. Allir eiga að fá allt sem þeir vilja, þegar þeir vilja það og án þess að borga krónu fyrir. Enda er ljótt að mismuna fólki.

Þessi vísitöluframbjóðandi býður sig fram í nafni réttlætis og hugsjóna. Flokkur hans er umbótasinnaður framfaraflokkur en ekki síður framfarasinnaður velferðarflokkur. Þá er vel hægt að kalla flokkinn frjálslyndan lýðræðisflokk sem stendur vörð um grundvallargildi samfélagsins og setur manninn og velferð hans í öndvegi. Þetta er til aðgreiningar frá afturhaldssinnuðu einræðisflokkunum sem vilja kúga almenning og pynta og setja velferð Glóbrystingsins í öndvegi.

Ástþór Magnússon má þó eiga það að hann hafði sérstöðu.

föstudagur

Fjöldamótmæli

Ég veit það er stundum erfitt að fylla fréttatímana um helgar með djúsí stöffi, en ætli þessi frétt sé ekki einhverskonar met í tíðindaleysi. Fjórir, segi og skrifa fjórir einstaklingar, voru að mótmæla veru Bandarísks herskips í íslenskri höfn! Mótmælendurnir voru nákvæmlega jafn margir og þarf til að spila bridds. Og of fáir til að fylla einn Toyota Yaris. Mótmælendurnir voru svo fáir við herskipið að það eru fleiri við kvöldverðarborðið hér í Kórsölunum þegar öll börnin eru á svæðinu. Það munar einum. Hvað ætla fréttirnar að gera ef 5 manns mótmæla breyttum opnunartíma Fellahellis? Bein útsending kannski?

miðvikudagur

Blað og Orð

Það er ekki skemmtilegt fyrir fjölmiðla, sem vilja vera frjálsir og óháðir, að sitja undir því að vera handbendi stjórnmálaafla eða auðjöfra. Í mörg ár hefur Mogginn reynt að lemja af sér öll tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Síðustu ár hefur Fréttablaðið þráfaldlega svarið það af sér að vera málgagn Baugs. Blaðið fer hinsvegar þveröfuga leið og opinberar með miklu stolti á forsíðu og baksíðu að það sé málpípa Birgis Ármannssonar.
Auðvitað er það rökrétt hjá Blaðinu að fara þessa leið. SME ritstjóri hefur gerbreytt útliti þess og efnistökum og segir sjálfur í leiðara að Blaðið eigi að vera "alþýðlegt og neytendavænt" og höfða til unga fólksins í auknum mæli. Og er til eitthvað alþýðlegra og neytendavænna stöff fyrir táningana en flennistór forsíðumynd af Bigga Ármanns að hakka í sig prófkjörsgraut með dóttur sinni?
Ekki misskilja mig. Biggi er eðalnáungi og Blaðið er toppmiðill. En auglýsingadeildin í hádegismóum hefur alltof mikil völd. Til að vera kvikindislegur má svo velta vöngum yfir því hvort það sé eftirsóknarvert fyrir Birgi að vera á forsíðu Blaðsins á sömu forsendum og Nóatúnslambahryggurinn sem kostar 999 krónur á tilboði...

Orðið er oft skemmtilegt þótt það eigi til að skúbba röngum fréttum. Í seinni tíð er orðið orðið orðlaust því færslan af Ellerti Schram frá því síðasta föstudag er sú nýjasta. Fyrir nú utan að það er engin sérstök frétt að Ellert íhugi framboð því hann hefur verið að því síðustu 30 árin. Ellert var meira að segja að íhuga framboð þegar kosið var til stjórnar húsfélagsins í Kórsölunum á dögunum, jafnvel þótt hann búi í Sörlaskjóli.

þriðjudagur

Spyrillinn

Björn Bjarnason skrifar um viðtal sem ég átti við hann um hlerunarmálin í gær á vefsíðu sinni. Það sama gerir Guðmundur Magnússon á sinni bloggsíðu. Þeir falla báðir í þá gildru að álykta að spyrill í svona viðtali spyrji bara útfrá eigin skoðunum og viðhorfum, en ekki útfrá umræðu, fullyrðingum og andrúmslofti í samfélaginu. Báðir halda að Sigmar Guðmundsson hafi persónulega mikið vantraust á ríkissaksóknara og lögreglu í hlerunarmálinu og byggja það á spurningum mínum. Báðir hafa rangt fyrir sér. Sigmar Guðmundsson hefur enga sérstaka skoðun á ríkissaksóknara eða lögreglu í þessu máli. Spyrillinn Sigmar spurði hinsvegar útfrá þeirri gagnrýni sem þetta hefur fengið, til að mynda frá Árna Páli Árnasyni. Þá var ástæða til að spyrja þessara spurninga þar sem umræða um sjálfstæði stofnanna frá ráðherravaldinu dúkkar reglulega upp í samfélaginu. Með því að spyrja er ekki verið að slá einu né neinu föstu, heldur er spurningin leið til þess að fá fram skoðanir og svör við þessum fullyrðingum pólitískra andstæðinga. Það er svo áhorfandans að meta hvað er er rétt og hvað ekki. Þetta ættu Björn og Guðmundur að vita en báðir hafa gengt ábyrgðarstöðum á ritstjórnum. Auk þess verður að hafa í huga að engin pólitískur andstæðingur var í þættinum til að veita Birni viðnám en það kallar á hvassari tón frá spyrli. Annars er svona gagnrýni ekki ný af nálinni. Því er reglulega haldið fram að við spyrjum útfrá skoðunum okkar og drögum taum einhverra stjórnmálaafla. Sem betur fer kemur sú gagnrýni úr öllum flokkum og ekkert síður af vinstri væng en þeim hægri. Það finnst mér staðfesting á því að við séum sjálfstæð og gerum skyldu okkar gagnvart almenningi en ekki stjórmálamönnum.

mánudagur

Börn og blogg

Það er ekki tekið út með sældinni að halda úti þessum bloggskrifum. Hér sést hversu gríðarlega mikið ég þarf stundum að hafa fyrir því að þrykkja í færslu. Og meðan ég man, veit einhver um gott tilboð á ófrjósemisaðgerð fyrir karla?

föstudagur

Enn meiri friður

Nú hafa framsýnir og rétthugsandi menn í Reykjavík tekið stórt skref í átt til betra lífs á þessari jörð. Búið er að setja á laggirnar friðarstofnun Reykjavíkur sem á að fjalla um friðarmál á alþjóðlegum vettvangi, auk þess sem heitt verður á könnunni í Höfða fyrir deiluaðila um allan heim. Vonandi er nóg bakkelsi til því þarna verður vafalítið brjáluð traffík af Téttjenskum skæruliðum, Hamasliðum, Ísraelum, Tamíl tígrum, Hishbollum, Bandarískum öfgamönnum og Nasistum. Einhverjir kverúlantar og úrtölumenn munu vafalítið benda á að yfirvöld í borginni hafi ekki ennþá náð að stilla til friðar í miðbænum um helgar og því séu markmiðin um frið í gervöllu sólkerfinu soldið háleit. En ég fer að minnsta kosti pollrólegur í háttinn þegar þessi stofnun verður komin í aksjón og friðarsúlan hennar Yoko farin að loga. Ef svo Kórsalirnir verða gerðir að kjarnorkuvopnalausu svæði einsog að er stefnt hér í blokkinni þá er orðið svo friðvænlegt hér í hverfinu að maður þarf að fara yfir í Garðabæinn í leit að spennu.
.

fimmtudagur

Njósnir

Allt þetta leyniþjónustu og hleranatal hefur gert mig alveg svakalega paranoid. Ég heyri fótatak fyrir utan gluggann minn á nóttunni og ég er ekki frá því að á öll mín símtöl sé hlustað. Þessar spæjaraaðfarir vekja ugg í mínu brjósti og ég er órólegur í hjartanu mínu þegar ég halla höfði á kodda að kveldi. Verst finnst mér þó að vera nakinn og berskjaldaður gagnvart þeirri hrollvekjandi tilfinningu að einhver sé að stelast til að lesa bloggið mitt.

miðvikudagur

Frasar

Það er afar brýnt á kosningavetri að stjórnmálamenn leggist á eitt um að útrýma nokkrum útjöskuðum frösum svo pöpullinn missi ekki svefn og geðheilsu. Hér er yfirlit yfir nokkrar klisjur sem þingmenn nota ótt og títt en mættu gjarnan hverfa úr málinu.

1. “korteri fyrir kosningar”. Þessi lumma hefur verið ákaft notuð af stjórnarandstöðuþingmönnum útaf matarskattslækkunum. Ég legg til að frumlegir þingmenn noti fallegra mál og tali frekar um stundarfjórðung í þessu samhengi.

2. “Vika er langur tími í pólitík”. Þessi klisja er oft notuð. Svo oft að ég held að þingmenn trúi því sjálfir að þessi langa vika sé réttlæting og rökstuðningur fyrir fimm mánaða sumarfríi og tveggja mánaða jólafríi.

3. “að taka umræðu um eitthvað” Þetta er sá þingmannafrasi sem heyrist oftast. Gallinn er bara sá að það er bara einn þingmaður sem notar hann, Guðlaugur Þór Þórðarsson.

4. “Það á engin neitt í pólitík”. Jeræt. Segiði Alfreð Þorsteinssyni það. Hann átti fullt þegar hann var í pólitík.

5. “Við göngum óbundnir til kosninga”. Hvað með kosningaloforðin? Óbundnir af þeim?

Það er of seint að taka umræðu um eitthvað núna korteri fyrir kosningarnar sem við göngum óbundnir til enda er vika langur tími í pólitíkinni sem engin á neitt í...


Að lokum vil ég senda grásprengdum fullorðnum vini mínum batakveðjur vegna aðgerðarinnar sem hann er að fara í. Það er ekkert grín að fá nýjan mjaðmalið á sama tíma og blöðruhálskirtillinn er í skralli. Aldurinn.....

mánudagur

Friður á jörð

Ég get ekki beðið eftir því að Yoko Ono kveiki á friðarsúlunni sinni. Ég er algerlega sannfærður um að þessi eilífðargeisli á Íslenskri eyðieyju verður til þess að fólk láti af öllu hatri í heiminum. Auðvitað fattar Bush að hann á ekkert að vera tuddast þetta í Guantanamo þegar Yoko stingur í samband. Ísraelar fá bullandi móral yfir því að vera pönkast í Palestínumönnum. Jón Ásgeir sendir Davíð fallegt SMS og Þórhallur Gunnarsson tekur mötuneytið í sátt. Allt verður svo rosalega fallegt og gott þegar ljósið kviknar í Viðey að meira að segja kettir hætta að veiða mýs. Það er reyndar ólíklegt að Kristinn H Gunnarsson verði sáttur við þetta brölt í frú Ono, en það er nú meira vegna þess að friðarsúlan er ekki staðsett á landsbyggðinni. Eini praktíski gallinn við þessa frábæru hugmynd er að það verður erfitt að slökkva þetta magnaða friðarljós þegar höfuðborgin verður myrkvuð á næstu kvikmyndahátíð. Þá færi nefnilega heimsfriðurinn fyrir lítið.

sunnudagur

Unga fólkið og stjórnmálamennirnir

Róbert Marshall debúteraði sem frambjóðandi í Silfrinu í dag. Hann verður vafalítið öðrum frambjóðendum skeinuhættur enda orðhákur og öflugur náungi. Hann fór þó pínulítið frammúr sér í þættinum þegar hann í fullri alvöru fagnaði ferskum straumum í Framsókn með því að kalla Bjarna Harðarson fulltrúa unga fólksins. Bjarni er vissulega með ferskari mönnum en hann er hinsvegar fæddur árið 1961! Bjarni er því á svipuðu reki og Þórhallur Gunnarsson og ég þekki það af persónulegri reynslu að það er lífeðlisfræðilega ómögulegt að nota hugtakið ungur yfir Þórhall. Þetta ólæsi Róberts á aldur fólks hefur þó þann kost að það eru sáralitlar líkur á að hann fari að bera brennivín í ólögráða ungmenni á kosningaskrifstofunni sinni...

laugardagur

Risastóra trúar og trúleysideilan

Mér hefur fundist fullrólegt andrúmsloftið á þessu bloggi síðustu daga. Það hefur verið óvenju lítið um skítkast, tuð og kverúlanta í kommentakerfinu mínu og er það ekki gott. Ég hef lesið af athygli umræður um trú og trúleysi á síðu snilldarpennans Davíðs Þórs Jónssonar, en uppúr kommentakerfinu hans flóir tuðið, misskilningurinn og reiðin í slíku magni að unaðslegt er að lesa. Fátt gerir fólk vanstilltara en umræða um trúmál og því eru þessi skrif óborganlega skemmtileg. Afstaða mín í þessari margslungnu deilu er djúp, fordómalaus og óheyrilega vel ígrunduð. Hún rúmast í stuttri setningu og hljóðar svo: trúaðir eru bjánar og trúlausir líka! Kommentakefið er opið, gjöriði svo vel...

föstudagur

Hoho

Ég hef haft mörg orð um þennan ljóta reiðhjólahjálm sem ég þarf að nota til að vera gjaldgengur í umferðinni. Fátt kúl við hann, svona útlitslega séð. Það sættast allir á að hjálmurinn er mikilvægt öryggistæki en auðvitað verður maður fyrir einelti með þessi ósköp á hausnum. En það er skrítið að fá yfir sig einhverjar pillur frá hestafólki, líkt og ég hef upplifið. Ég er nefnilega óskaplega hamingjusamur yfir því að vera ekki með hestadellu því hjálmarnir sem hestamenn nota eru viðbjóður. Buxurnar og stígvélin eru absúrd og svo jaðrar það við ónáttúru að þurfa nota písk við ástundun áhugamáls. Hestamennska er því eitt einkennilegasta sport sem til er, því í raun og veru er fólk að klæða sig einsog fífl til þess eins að lykta einsog tað þegar heim er komið!

þriðjudagur

Lazer Cyclone

Maður lifandi hvað reiðhjólalúkkið hefur slegið í gegn á mínum góða vinnustað. Fólk snýr sér nánast úr hálslið þegar ég spranga framhjá með straumlínulaga Lazer Cyclone hjálminn á hausnum, ennisbandið og reiðhjólateygjuna. Ég fíla mig einsog poppstjörnu þegar glápið fer fram úr hófi, enda skín fölskvalaus aðdáun úr hverju auga. Nema úr glyrnum Þórhalls Gunnarssonar. Úr þeim skín öfund enda á hann ekki svona hátísku höfuðprýði. Öfundina felur hann reyndar undir skikkju fagmennskunnar því hann heldur því blákalt fram að hjálmurinn minn fíni dragi úr trúverðugleika mínum sem fréttamanns og þar með Kastljóssins. Ég er reyndar ósammála þar sem tignarlegra höfuðfat er vandfundið. Þessi harkalegu viðbrögð ritstjórans benda eindregið til þess að ég fái ekki að vera með hjálminn í útsendingu, sem er óskiljanlegt í ljósi þess að umsjónarmenn kastljóssins hafa sést í púkalegri múnderíngum, svona í einlægni sagt. En til að friða ritstjórann, og vernda eigin trúverðugleika, hef ég ákveðið að merkja hjálminn. Á honum mun standa “Ísland í dag”.

sunnudagur

Reiðhjólamaðurinn

Keypti mér hjól um helgina. Þrusugræja sem á að vera fararskjóti minn í vetur þegar ekki er hríðabylur og hraglandi. Vonandi að fleiri feti í mín fótspor og gefi skít í einkabílismann. Í fyrramálið verður jómfrúarferðin í vinnunna og ég vil því biðja ökumenn að sýna aðgæslu og tillitsemi þegar þeir sjá renglulegan reiðhjólamann á ferð með ljótasta hjálm sem fyrirfinnst í gervöllum geiminum. Svo mikil sjónmengun er af þessum hjálmi að ég held að það séu talsverðar líkur á að einhverjir ökumenn freistist til að keyra á mig af fagurfræðilegum ástæðum. Ég verð þó ekki hallærislegasti maðurinn í umferðinni á morgun ef Logi Bergmann asnast til að fara skeggjaður í vinnuna á þessu saumavélavélhjólavannabíi sem hann sýndi þjóðinni á síðum fréttablaðsins á dögunum. Annars má ég ekki vera að því að blogga mikið lengur því ég á eftir að flokka heimilissorpið og brjóta saman fjölnota innkaupapokann minn eftir velheppnaða búðarferð í Yggdrasill. Svo er aldrei að vita nema ég strauji mussuna mína og mótmæli heimsvæðingunni ef tími vinnst til. Pú á Bush.