Piss 103
Ég hvet ykkur til að skoða þessa frétt sem Baldvin Þór Bergsson gerði. Hún er um nemendur sem gerðu vægast sagt óvenjulegt verkefni í Listaháskólanum. Þrír drengir í læknaslopp klipptu fyrst hárið af nakinni stúlku og verkefnið endaði með því að einn þeirra pissaði yfir stúlkuna.
Nú skal ég fúslega viðurkenna að ég er lítil listaspíra í mér. En úr því að þvaglát eru orðin sjálfsagður hluti námsefnisins í listaháskólanum get ég svosem játað að hafa átt nokkrar unaðsstundir með listagyðjunni inni á salerni. Hingað til hafa þær nú meira verið prívat og ekki hugsaðar sem djúpt innlegg í listasöguna. Í ljósi nýjustu frétta mun ég hinsvegar að sjálfsögðu reyna að fá þessar klósettferðir metnar til eininga í listaháskólanum. Mín akademíska hugsun á salerninu hefur reyndar aldrei ratað á það kúltúrstig að ég hafi klæðst læknaslopp eða migið á heimilisfólkið til menningarauka. En það er nú bara vegna þess að ég er úr Garðabænum og þekki ekki fínustu blæbrigði listarinnar.
Kommon!
Ég ekki hvort er sorglegra, þetta lið sem mígur á hvort annað í kennslustundum, eða skólastjórnendurnir sem þora ekki að koma opinberlega fram og benda fólki á að það sé enn við hæfi að hegða sér á siviliseraðan hátt. Við hvað eru menn hræddir? Að skilja ekki listina? Að vera úthrópaðir plebbar og menningaróvitar af því að þeir samþykkja ekki að nemendur spræni á hvern annan í tíma?
Og í guðanna bænum ekki misskilja mig. Úr því að nemendum listaháskólans er svona mikið mál, þá mega þeir mín vegna reyna það verklega á eigin skinni hvernig tilfinning það er að vera hlandskál eða bekken. En óneitanlega væri það skynsamlegra ef þeir eyddu frímínútunum í þessa vitleysu, því það er hollt í öllu skólastarfi að brúka kennslustundirnar í lærdóm. Þótt það sé kannski gamaldags.
Þetta minnir á listahátíðina fyrir nokkrum misserum sem sett var á Akureyri í beinni útsendingu sjónvarpsins. Þar mátti sjá ógurlega fansí listaverk á skjá þar sem maður skakaði pungnum á sér við drifskaft með lauk standandi útúr rassinum. Þessu metnaðarfulla verki var lýst svona í Mogganum: Greenman er blanda af manni og plöntu, hann er með lauka sem blómstra hægt og sígandi í munni og endaþarmi og lýsir myndbandið á mjög opinskáan hátt hvernig honum rís hold og síðan samræði hans við drifskaft skógvinnsluvélarinnar. Svo mörg voru þau orð.
Ég veit að ég er óttalega púkó en mér finnst gamla ævintýrið hans HC Andersen um nýju fötin keisarans alltaf vera besta listaverkið. Í ævintýrinu var það lítið barn sem benti á að keisarinn var ekki neinum fötum. Í nútímaútgáfunni dugir varla að benda á að keisarinn er ekki bara berrasaður. Því hann er líka hlandblautur og með lauk í rassgatinu!