föstudagur

Myrkur og smáauglýsing

Þessi meinta myrkvun höfuðborgarsvæðisins var frómt frá sagt ekkert spes. Vissulega dró úr þessu illkynja fyrirbæri sem ójarðtengdir fagurkerar kalla “ljósmengun”, en venjulegt fólk kallar nauðsynlega götulýsingu. “Mengunin” var samt of mikil þar sem fólk var ekki nógu duglegt að slökkva heimilisljósin og því varð maður ekki fyrir neitt sérstökum hughrifum. Fín tilraun samt, en ég held að það væri líklegra til árangurs ef fólk greiddi ekki rafmagnsreikningana sína í einhvern tíma. Þá er algert garantí fyrir því að ljósin slökkna á endanum. Og fyrirgefiði, hvað var með alla bjánana sem ruku útí garð og sprengdu flugelda á meðan á myrkvuninni stóð? Skildi þetta lið ekki konseptið eða heldur það í alvöru að það sé gott að skoða stjörnur í gegnum brennandi púður? “Þarna er Karlsvagninn, austan við tívólíbombuna og gott ef glittir ekki í Pólstjörnuna í gegnum Gold Fan 150 skota risatertuna sem puðrast þarna útí loftið”.

Og svona rétt í lokin. Þóra er mjög skyndilega orðin heimilislaus og vantar íbúð til leigu strax. Hún er þrifaleg, en ekkert sérstaklega heiðarleg. GSM - 8634455

miðvikudagur

Hakk

Simmi grenjar af öfund í færslunni hér að neðan og kvartar sáran undan tölvunni minni sem er gjörsamlega óaðfinnanleg.
Pc tölvan hans sökkar svo feitt að án nokkurrar fyrirhafnar gat ég hakkað mig inn á bloggsíðuna hans og sagt öllum hans dyggu lesendum að það er ekki sannleikskorn í nokkurri færslu sem fjallar um mig á þessu ágæta vefsetri. Ég tók mig líka til og lappaði aðeins uppá lúkkið.

Tölvan hans Simma er nokkurra vikna gömul en hefur þegar farið tvisvar á verkstæði.
Simmi sjálfur er hins vegar kominn á þann aldur að hann er hættur að geta tileinkað sér nýjungar. Þeir notuðu pc-tölvur til að spila Guns n Roses á X-inu í gamla daga og því er stórmál fyrir hann að skilja hvernig á að flakka á milli bloggsíðna í appletölvu þar sem leturgerðin er ekki sú sama og hann er vanur.

kossar, Þóra.

Heimiliserjur

Það er velþekkt í samböndum að upp kemur ágreiningur sem virðist léttvægur í fyrstu, en hleður svo utan á sig þangað til allt er komið á heljarþröm. Hjá okkur Þóru hefur smám saman skapast ástand sem verður ekki liðið lengur. Nú verður konan að fara henda þessari Makkintosstölvudruslu sinni á haugana. Þetta er svo lélegt tæki að hún þarf alltaf að fá lánaða PC tölvuna mína í öll minni háttar rafræn viðvik. Fyrir vikið er ég tölvulaus löngum stundum því ekki get ég snert á þessu Makkaóbermi þar sem tækið liggur yfirleitt bilað eða frosið útí horni.

Þessi blindi átrúnaður fólks á Makkintoss er mér sífellt undrunarefni. Þrátt fyrir endalaus óþægindi er þessari meintu tölvu hampað sem einhverju tækniafreki hér á mínu heimili. Ég get alveg tekið undir með fólki að hún lúkkar vel og er flott hönnuð og rennileg. En það sama má segja um Pamelu Anderson og ekki dettur nokkrum heilvita manni að trúa henni fyrir heimabankanum, tölvupóstinum og vinnuskjölunum sínum. Makkintoss er fyrir sérvitringa, grafíska hönnuði og þá sem halda að þeir séu kúl en eru það ekki.

Og já, tölvuvírusar eru töff og heimilislegir.

Og nú fyllist kommentakerfið mitt af nördum sem í heilagri vandlætingu vilja halda uppi vörnum fyrir Makkann. Nafnlaust, að sjálfsögðu!

mánudagur

SVARTI LISTINN

Síðustu daga hefur verið mikið rætt um öryggisþjónustu sem var víst starfrækt hér á íslandi um áratugaskeið. Þessi vísir að leyniþjónustu njósnaði bara um kommúnista og vilja margir fá öll smáatriði varðandi starfsemina fram í dagsljósið. Allt þetta tal um njósnir, gagnnjósnir, símhleranir, umsátur og annað leynistöff er góðra gjalda vert. En það er ekki síður brýnt hagsmunamál fyrir borgara þessa lands að allri leynd verði svipt af SVARTA LISTANUM ógurlega. Þessi listi er velþekktur í ýmsum kreðsum þjóðlífsins og ekki laust við að kalt vatn renni milli skinns og hörunds á fólki þegar það hvískrar sín á milli í skúmaskotum um þá sem lent hafa á þessum skuggalista. Enda hefur hann umturnað lífi svo margra. Engin veit með vissu hvernig þessi listi varð upphaflega til, en hitt er alkunna að sá sem hlýtur þau sársaukafullu örlög að fara á listann losnar aldrei af honum aftur. Aldrei. Hann er hulinn dulúðlegum leyndarhjúp og svo andstyggilega laus við allt sem kallast mannúð að helst má jafna við dauðalista KGB og SS sveita nasista. Ég er að sjálfsögðu að tala um SVARTA LISTA myndbandaleiganna. Þessi helvítis listi hefur gert það að verkum að Þóra fer aldrei útá leigu, bara ég. Stöðvum þetta óréttlæti, strax!

laugardagur

Arsenal - Grindavík

Hverskonar rugl er það að banna útsendingar frá enska fótboltanum af því það er verið að spila lokaumferðina á íslandsmótinu? Halda menn virkilega að þeim fjölmörgu sem er slétt sama um íslenska boltann, en eru gallharðir aðdáendur þess enska, þyrpist á völlinn í nepjunni til að góna á Grindavík eða Breiðablik, af því að það er skrúfað fyrir Arsenal og Liverpool? Ætli æðstu strumpar KSÍ yrðu hressir ef þeim væri bannað að sjá Rolling Stones tónleika með þeim orðum að þeir gætu nú bara allt eins haskað sér á Savannatríóið í Fellahelli.
Með fullri virðingu fyrir leikmönnum ÍBV, þá eru þeir ekkert söbbstitjút fyrir Henrý og Gerrard. Þetta er sama forræðishyggjusteypan og sjónvarpslaus fimmtudagskvöld og maður veltir því fyrir sér hvort bráðlega komi ekki fram krafa um að kvikmyndahúsum og sundlaugum verði lokað í því skyni að flæma fólk á völlinn. KSÍ er ekki að auka virðingu fólks fyrir íslenskum fótbolta með svona vanhugsuðum þvingunaraðgerðum.

föstudagur

Sitt lítið...

Í morgun var mikið að gera hjá mér. Ég var fundarstjóri á fjölmennu málþingi, átti tvo vinnufundi útí bæ og að auki samskipti við fjölmarga vinnufélaga. Það var því svolítið óþægilegt að fatta strax eftir hádegið að ef þessu fólki átti að finnast ég töff og smart, þá þyrfti hárvöxtur úr nefi og eyrum að vera í tísku!

Hvaða asni var það sem fann upp kvefið? Drepum hann.

Róberti Marshall vini mínum sendi ég góðar kveðjur. Hann rís fljótt upp aftur þótt hann hafi verið drekinn frá NFS. Róbert er toppnáungi, mikill húmoristi og góður vinur, en hefur þann leiða galla að skrifa of mikið af bréfum.

miðvikudagur

Kæri Páll..... Part 2.

Þú verður að fyrirgefa mér þessi sífelldu bréfaskrif til þín, kæri Páll. Erindið er hinsvegar brýnt og varðar starfsumhverfi okkar í Kastljósinu. Í mestu vinsemd spyr ég þig; hvaða ídíót ákvað að blanda saman uppöldum Rúvurum, “aðkeyptu fólki” og “gullmolum” í þessum þætti? Hvaða hálviti er svo skyni skroppinn að halda að eitthvað kreatíft geti komið útúr slíkum hrærigraut? Nú er ég ekki fordómafullur maður en það vita allir að “aðkeypt fólk” á enga samleið með hinum hreina kynstofni Rúvara einsog félag fréttamanna hefur nú þegar bent á. Þessar misráðnu kynbætur, sem ég vil leyfa mér að kalla svo, eru gjörsamlega mislukkaðar og til þess fallnar að ala á sundrungu, fordómum, einelti og almennum fjandskap. Þá hefur þetta skapað ómæld vandræði í mötuneytinu því ekki borðar þetta lið sama matinn. En svo að þetta bréfkorn hafi ekki bara yfirbragð tuðs, vil ég að lokum koma með tillögur til úrbóta. Ég tel brýnt að “gullmolunum” og “aðkeypta fólkinu” verði gert kleyft að laga sig betur að hinum sanna Rúv anda með því sækja námskeið þar sem farið verður yfir helstu undirstöðuatriði. Björg Eva Erlendsdóttir, fréttamaður, yrði prýðilegur leiðbeinandi á þessu námskeiði, enda hefur hún umtalsverða reynslu af því að kalla eftir samstöðu í stéttinni með því að kasta hnútum í samstarfsmenn. Að lokum er hér listi, kæri Páll, yfir það fólk sem hefði gott af því að sækja þetta námskeið. Listinn er ekki tæmandi.

Þórhallur Gunnarsson
Ingólfur Bjarni Sigfússon
Elín Hirst
Jóhanna Vilhjálmsdóttir
Helgi Seljan
Katrín Pálsdóttir
Eva María Jónsdóttir
Páll Magnússon
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Geir Magnússon
Þóra Tómasdóttir
Guðfinnur Sigurvinsson
Sigmar Guðmundsson
Gísli Einarsson

Ég tel það vænlegast til árangurs að leiðbeinandinn fari hægt og rólega yfir námsefnið því þetta fólk hefur starfað á öðrum fjölmiðlum og reiðir því hvorki vit né athyglisgáfur í þverpokum.

Þinn pennavinur,

Sigmar Guðmundsson

mánudagur

Kæri Páll...

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum vinn ég bara 12 daga í mánuði á fullum launum eins og aðrir á Ruv. Var bara að spegúlera hvort ekki væri í lagi þín vegna ef ég ynni fyrstu 12 dagana í mánuðinum og væri svo í fríi næstu 18 dagana. Núverandi fyrirkomulag gerir það nefnilega að verkum að vinnan slítur svo helvíti mikið í sundur fyrir mér fríið. Ekki er laust við að ég hafi heyrt fleiri starfsmenn Ruv taka í sama streng. Svo væri ekki úr vegi, kæri Páll, að bæta tómstundaaðstöðuna á kaffistofunni þar sem starfmenn þínir sitja löngum stundum á meðan fréttamenn annara sjónvarpstöðva styrkja grunnstoðir lýðræðisins. Kæri Páll, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur.

kveðja,

Sigmar Guðmundsson

Frábær helgi

Átti tvær tryllingslega góðar stundir um helgina og var í báðum tilfellum njótandi þess besta sem innihaldsrík afþreying hefur uppá að bjóða. Í raun má kalla þessa viðburði tveggja tíma risastóra raðfullnægingu þótt það sé vissulega vafasamt af streitara einsog mér að nota þá líkingu í ljósi þess að það voru eintómir karlmenn sem vöktu með mér þennan unaðshroll. En skítt með það. Að sjálfsögðu er ég að tala um tónleika Nick Cave og sigur Arsenal á Manchester United. Það er til marks um fegurð lífsins og sanngirni æðri máttarvalda að á einni helgi varð ég vitni að mörgum atvikum sem heilinn minn hefur nú þegar vistað í favorites:

1. lappalengsti leikmaður í heimi skorar gegn júnæted á 86 mínútu og tryggir þannig Arsenal sigur. Við Sindri dönsuðum lengi um íbúðina með slíkum hávaðaöskrum að Þóra, Katla og Salka fóru allar að grenja. Schniillld...

2. Nick Cave og Warren Ellis fara á kostum undir lok venjulegs leiktíma. Henry Lee, The Mercy Seat, Hiding All Away, God Is In The House og Tupelo voru síðustu lög fyrir uppklapp...og maður lifandi, þvílíkur performanns.

3. Jens Lehmann ver boltann með því að teygja líkamann og fetta út fingurna einsog Barbapabbi þegar norski súbersöbbinn gerði sig líklegan í blálokinn. Ein besta markvarsla sem ég hef séð. Ef Lehmann léki með öðru liði en Arsenal þá myndi ég hata hann meira en mígrenið mitt.

4. Nick Cave rennir sér í Stagger Lee í melankólískri útgáfu með slíkum kraftendi að líkja má við hnefahögg í smettið. Tár féllu í stúkunni, ekki af sársauka heldur gleði.

5. Ekkert upphitunarband fyrir Nick Cave. Ekkert uppgerðar kurteisisklapp. Þvílíkur unaður, því upphitunarbönd eru almennt ofmetin og til leiðinda. Nema Queens of the stoneage náttúrulega...

6. Gilberto klúðrar víti með því að renna í forinni einsog einhver Beckhamlúði. Það var reyndar ekkert sérstakt á meðan á því stóð en hreint unaðslegt eftirá að hafa klúðrað víti gegn júnæted en unnið samt. Múahhhahhaaaa.

Einnig fór ég í Kolaportið um helgina. Þangað fer ég aldrei aftur edrú.


Vek athygli á því að ég er búin að uppdeita linkana einsog sjá má hægra megin á síðunni. Rétt er að halda því til haga að vel hefði mátt nota orðin “uppfæra hlekkina” í setningunni hér á undan. Þar er bara ekki næstum því jafn kúl.

föstudagur

Plebbi

Í matarboði í gærkvöldi þurfti ég að sæta stöðugum árásum frá óvönduðu fólki sem vill meina að ég sé úthverfaplebbi. Ojæja. Ég bjó svosem lengi í Garðabænum og er núna í Kórsölum í Kópavogi, þannig að ég er ekki alveg ókunnugur úthverfunum. Fullyrt var í matarboðinu að heimili mitt væri slíkur útnári að lítill munur væri á Kórsölum og Uppsölum – Simmi í Kórsölum og Gísli á Uppsölum væru í raun býsna líkir. Hahahahahahah. Allt var þetta óheyrilega fyndið og mér fannst gaman að sitja undir flissinu enda hafði ég sterkt á tilfinningunni að ég sæti til borðs með upperklassliði frá París, Róm eða Manhattan og allir sem þekkja mig vita hvað ég er veikur fyrir fínu fólki. En það rann upp fyrir mér ljós þegar ég sá ullarlagðinn og lopann lafa úr rassinum á sessunautum mínum sem önguðu af súrheyslykt og komu með ábrysti í mjólkurbrúsa í partíið í stað rauðvíns. Þetta lið sem sat til borðs hefur mestanpart alið manninn á Akureyri, Borgarnesi, Grundarfirði, Vestmannaeyjum og Ármúlanum og hefur tæpast efni á að kalla þá plebba sem búa í Kórsölunum. Ég gengst reyndar glaður við því að vera vaðandi plebbi en það hefur ekkert með búsetu að gera. Er frekar lífstíll.


Jæja gott fólk. Nick Cave annað kvöld í höllinni. Ég er nánast með steinsmugu af spenningi. Cave er listamaður sem hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér í 15 ár. Engin semur fallegri lög en hann og ef hann verður í sama formi og á Broadway fyrir fjórum árum þá verða þetta tónleikar ársins. Vonandi verður strompreykjandi pínulitla gamalmennið á bassanum einsog síðast.

miðvikudagur

YouTube

Youtube.com er svalasta síðan innan í gervöllu internetinu sem Al Gore var svo vinsamlegur að finna upp. Það er hægt að týnast þarna tímunum saman. Síðustu nótt hékk ég yfir síðunni til hálf fjögur. Var ég að horfa á eitthvað uppbyggilegt? Hell, nei. Tónleikaupptökur, grínsketsar og alskyns froða er fyrirferðamest en einnig getur vefurinn verið stórfróðlegur og gagnlegur. Hér eru nokkur gullkorn:

Þessi djókari nær rödd Brian Johnson úr ACDC fáránlega vel. Hreyfingar Angus Young gítarleikar getur hann líka kóperað listilega.

Þessi skets frá Monty Python er klassík. John Cleese er fyndnastur.

Raddirnar úr simpson þáttunum. Snilld.

þriðjudagur

Myndir frá Lanzaranum...

Dvölin á Lanzarote var snilld. Í tvær vikur dormuðum við og lékum okkur á sundlaugarbakka á hinu mjög svo barnvæna hóteli Prinsessa Yaisa. Við hirtum hvorki um GSM síma né internet og fylgdumst varla með fréttum að heiman. Ótrúlega ljúft að kúpla sig svona algerlega út og þessa stundina líður mér einsog fullhlaðinni Mótóróla BA256 rafhlöðu. Fyrsta myndin ber vinnuheitið “Fjölskyldan með fávitabrosið”og sýnir hún fólk sem í sælli fávisku hefur meiri áhyggjur af skorti á snakki og sólarvörn en þrasi um leynilegar Kárahnjúkaskýrslur.


Við Salka vorum dugleg í sundinu. Fyrri vikuna var svamlað í grunnu barnalauginni en síðan var stóra laugin tekin með trompi. Þessi aðlögun var meira fyrir mig en barnið, því ég er ámóta lipur í sundinu og steypustyrktarjárn.



Salka fór á kostum alla ferðina og skemmti sér best af öllum. Það kom fyrir að ég þurfti að leggja henni lífsreglurnar af föðurlegri hlýju og á slíkum stundum nærði ég sál hennar varfærnislega með þeirri visku sem fullorðna fólkið býr yfir. Á myndinni hér fyrir neðan er ég að útskýra fyrir Sölku gildi þess að næra sig vel á fyrirfram greiddu morgunverðarhlaðborði. Salka lét sér fátt um finnast en til allrar guðslukku borðaði Þóra á við 400 kílóa súmóglímukall í kappáti.


Það var líka farið á hestbak. Hér fyrir neðan sést Salka á spænsku útgáfunni af Orra frá Þúfu en einsog sjá má hefur þetta hross óvart verið sett í þurrkarann. Takið eftir fallegum og stæltum fótaburði sem þarna blasir við. Synd hvað lappirnar á hrossinu er ljótar í samanburðinum.

Katla var ótrúlega góð í hitanum og tók virkan þátt í sundferðunum á milli þess sem hún svaf....ja, einsog lítið barn.



Salka fann til mikillar ábyrgðar gagnvart kötlu og sá sig knúna til að gefa henni vatn að drekka með reglulegu millibili – Einkum og sérílagi þegar Katla svaf!

mánudagur

9/11

Rosalega var heimildarmyndin góð sem sýnd var í sjónvarpinu í gær um manninn sem féll/stökk/hrapaði úr world trade center ellefta september og ljósmyndina sem náðist af atvikinu. Merkilegt að sjá viðtöl við fólk sem gat ekki hugsað þá hugsun til enda að ættingi þeirra hafi mögulega stokkið úr turninum þennan örlagaríka dag. Það hefði nefnilega verið sjálfsmorð og andstætt trú þeirra! Nú hefur maður að sjálfsögðu mikla samúð með fólki sem missir ættingja svo sviplega, en er ekki algerlega útí bláin að tala um sjálfsmorð þegar fólk stekkur úr turni undan kæfandi reyk og brennandi hita? Sá sem stekkur útúr svona víti undan logum og reyk hefur ekkert val um líf eða dauða, bara val um mismunandi dauðdaga. Allt tal um sjálfsmorð við þessar aðstæður og tilheyrandi vist í helvíti er því langsótt finnst mér.

Einnig fannst mér merkileg sú harða gagnrýni sem fjölmiðlarnir fengu sem birtu þessa mynd af hrapandi manninum. Fyrirfram myndi maður kannski halda að á degi þar sem flugvélar sjást fljúga inní turna sem síðan hrynja til grunna og þúsundir deyja, þætti mynd af einum og nánast óþekkjanlegum manni að hrapa ekki of grótesk. En það eru einmitt svona vafaatriði sem gera fréttamennskuna oft flókna. Hvað á að birta og hvenær? Klárlega ekki allt, alltaf.

Svo hvet ég áhugafólk um góðar sannsögulegar myndir að sjá United 93. Hrikalega góð ræma.

Einhverjir misingar kvarta í kommentakerfinu mínu yfir því að síðasta færsla hafi fjallað um fótbolta en ekki eitthvað annað. Þar fer Eyrún vinkona mín fremst í flokki og er reyndar með þá greindarlegu athugasemd að færslan, sem skrifuð var á laugardag, hefði frekar átt að fjalla um partíið sem við vorum í þá um kvöldið!!!!! Nú er ég engin sérstakur snillingur í að sjá inní framtíðina einsog hún virðist halda, en ég get fullvissað Eyrúnu um að ef ég byggi yfir slíkum hæfileika þá myndi ég ekki spandera honum í eitthvað bloggrugl heldur miklu fremur kaup á lottómiðum.

laugardagur

Vondur dagur

Mikið er þetta leiðinlegur dagur. Arsenal að merja enn eitt jafnteflið á heimavelli gegn einhverju skítaliði og ekki hægt að segja annað en að byrjun tímabilsins sé ömurleg. Á sama tíma má lesa yfirlýsingu frá Ashley Cole þar sem hann segist fyrirgefa Arsenal!!! Þótt Cole sé frábær leikmaður er ég dauðfeginn því að hann sé farinn því það er erfitt að vera með mann í liðinu sem á í ólöglegum samningaviðræðum við helsta andstæðinginn. En að hann fyrirgefi Arsenal er ámóta heimskulegur viðsnúningur á hlutverkum og ef nauðgari segðist fyrirgefa fórnarlambi sínu fyrir að vilja ekki þýðast sig. Bjáni.

Annars er bara fínt að vera komin úr bloggfríi!