þriðjudagur

Zyggi á Lanzarann!

Vegna strandakætis er óvíst hvort Zyggi nenni að skrifa mikið inná þessa síðu á næstunni. Við Þóra verðum með Sölku og Kötlu á Lanzarote næstu tvær vikurnar og ég sé það fyrir mér að ég verði of upptekin við sólbruna, leti og almennt óhóf til nenna að þrykkja í færslu. Og þó, kannski að maður dúndri í eina eða jafnvel tvær ef vel stendur á. Tekið skal fram að ég er prúður piltur og það er ekki inní myndinni að ég liggi berbrjósta í sólbaði.

sunnudagur

Veðjað á hross

Eftirfarandi símtal átti sér stað á dögunum á milli mín og StígamótaRúnu sem er tengdamóðir mín.

Simmi : Já halló.

StígamótaRúna : Sæll vertu Simmi.

Simmi : Nei sæl vertu og indælt að heyra í þér nú sem endranær. Ég var einmitt að hafa orð á því við hana Þóru dóttur þína hvað þú leist ljómandi huggulega út síðast þegar við hittumst. Hvað get ég nú gert fyrir þig á þessum fagra degi?


StígamótaRúna : Heyrðu ég var að spá... Ég er að elda svo mikið lamb, tandorí, þú veist. Viljið þið ekki bara koma í mat.

Simmi: Þetta er nú höfðinglega boðið StígamótaRúna mín, ekki síst í ljósi þess að ilmurinn í þínu eldhúsi er svo lokkandi. Við hinsvegar erum sjálf með kjúkling í ofninum sem er langt komin. Það væri kannski bara heppilegra ef við gætum fengið að eiga þetta inni hjá ykkur, StígamótaRúna mín, þótt það sé óneitanlega sárt að fá ekki að bragða þá himnesku sælu sem tandorílambið þitt er.

StígamótaRúna : Okei, ekkert mál, ég hringi þá bara í Hrossið.

Click (svona hljóð sem heyrist þegar símtali er slitið)

Hrossið sem um er rætt er Kristín Tómasdóttir, yngsta dóttir StígamótaRúnu. Í framhaldi af þessu hef ég velt því soldið fyrir mér hvaða viðurnefnum hún klínir á nýja tengdasyni, úr því hún kallar dóttur sína hófdýr?

Meira af Hrossinu. Kristín var einsog frægt er orðið númer 407 af 525 hlaupurum í sínum flokki í maraþoninu. Hún og elsta spandexsystirin, Sóley Tómasdóttir, voru í mikilli innbyrðiskeppni í maraþoninu, svo heiftúðugri að kærastar þeirra veðjuðu uppá plasmasjónvarp hvor systirin yrði á undan í mark. Hrossið vann og nú kallar kærastinn hennar hana veðhlaupahrossið.

Eðlilegasta fólk, fólkið hennar Þóru!!!!!

Þóra og Sindri

Fyrir nákvæmlega fimm mánuðum lá Þóra á fæðingardeildinni og eignaðist Kötlu. Hún fór í fyrsta göngutúrinn eftir fæðinguna þann fyrsta mai . Í dag hljóp hún 10 kílómetrana í Reykjavíkurmaraþoninu á rúmum 55 mínútum. Frábær tími, líka fyrir þá sem eru ekki með fimm mánaða barn á brjósti. Þóra er nagli og töffari og ef það rignir ekki hrósinu yfir hana í kommentakerfinu hér að neðan þá tattúvera ég lógó hagstofunnar á ennið á ykkur. Það lítur svona út:Sindri minn er 10 ára og hefur aldrei áður tekið þátt í langhlaupi. Hann kláraði 10 kílómetrana á rúmum 53 mínútum, þrátt fyrir að hafa fengið blöðrur á fæturna snemma í hlaupinu og stoppað einu sinni til að gá eftir vini sínum. Þeir sem hafa fengið blöðrur snemma í 10 kílómetrahlaupi vita að það er auðvelt að fara að grenja af eymslum og labba í mark. En Sindri minn er nagli og töffari og hljóp áfram. Ef það rignir ekki hrósinu yfir hann í kommentakerfinu hér að neðan þá rispa ég bílana ykkar með naglaþjöl.

Sindri var sá þriðji í sínum árgangi og þessi frammúrskarandi árangur hans fær mig til að trúa að maraþonseta fyrir framan Playstation og Game boy leikjatölvur sé ljómandi góður undirbúningur fyrir svona hlaup. Hef samið æfingaplan fyrir sjálfan mig með hliðsjón af þessari uppgötvun og er reyndar þegar byrjaður að æfa af ákefð. Þess má svo geta að Benni, vinur Sindra, var fyrstur af 10 ára drengjunum í hlaupinu og fór 10 kílómetrana á undir 50 mínútum.

Almar bróðir minn, Glitnisstarfsmaður, fór einnig 10 kílómetrana. Þegar arfaslakur tími hans er skoðaður og metnaðarleysi hans í hlaupinu krufið, kemst maður ekki hjá því að velta því fyrir sér af hverju hann fór þetta ekki bara á bílnum! Yfirmaður Almars náði hinsvegar prýðilegum árangri í hlaupinu, þrátt fyrir að vera fyrst og fremst þekktur fyrir feminíska handverksiðn.

Sjálfur er ég meiddur á mjöðm og hef ekkert getað hlaupið síðari part sumars. Við Katla fórum bara í góðan göngutúr á meðan fólkið okkar hljóp, sendum því góða strauma og veittum móralskan og háværan stuðning síðustu metrana. Þess má geta að Katla er rígmontin af mömmu sinni. Hér sjást Sindri og Þóra fagna afrekinu í Reykjavíkurmaraþoninu.


Sindri að koma í mark.

föstudagur

Chippendales....og ég.


Í dag öfunda ég íslenskar konur. Hér á landi er nefnilega staddur Chippendalesflokkurinn víðfrægi og ef marka má ummæli fulltrúa hópsins í Kastljósinu vinna þeir gríðarlega fórnfúst og hugsjónaríkt starf í þágu kvenna um víða veröld. Ég beinlínis táraðist þegar ég heyrði þá ítrekað lýsa drenglyndi sínu á þann veg að þeir “þjóni konum um allan heim af þeirri virðingu sem þær eiga skilið” – berir að ofan og með slaufu!

Viðtalið vakti mig líka til umhugsunar um samskipti mín við hitt kynið. Alkunna er að mig hefur alltaf skort þann internasjónal sjarma og rómans sem þarf til að heilla konur og “þjóna þeim af þeirri virðingu sem þær eiga skilið”. Enda er ég sveitamaður úr Garðabænum. Getur verið að augu kvenna opnist fyrir því hversu mikill happapungur og foli ég er, þegar ég fer að skaka mér einsog órangúti í leðurbuxum? Og að kynjöfurinn í mér komi í ljós þegar ég fer að ástunda alla þá greindarlegu og fáguðu framkomu sem einkennir þessa kjarneðlisfræðinga í Chippendaleshópnum? Getur einhver lánað mér svarta slaufu fyrir menningarnótt?

fimmtudagur

Bréf

Þar sem svo mikil vinna hefur verið lögð í þetta bréf sem birtist í kommentunum við síðustu færslu minni, finnst mér tilvalið að gera því hærra undir höfði og birta það hér. Hef ekki hugmynd um hver skrifaði, en sá fær prik fyrir að nenna að lúslesa biblíuna til að benda á þversagnir í málflutningi þeirra sem fordæma samkynhneigð með tilvísun í guðsorð. Öll bókstafstrú er nefnilega ákaflega varasöm þar sem hún rænir fólki heilbrigðri skynsemi.

Opið bréf til Gunnars í Krossinum, Jón Vals Jenssonar, Snorra í Betel sem og
annarra bókstafstrúarmanna sem hafa “Sannleikann” sín megin og birtu m.a.
auglýsingu í Morgunblaðinu sl.Sunnudag varðandi “lækningu” við samkynhneigð:


Kæru bókstafstrúarmenn,
Kærar þakkir fyrir upplýsa fáfróðan almenning á Íslandi varðandi “Guðs lög” sem
og um “sannleikann”. Það er ljóst að það er mjög margt sem maður getur lært
frá ykkur – vitrari mönnum – og við reynum t.d. að miðla ykkar fróðleik eins
víða og við getum þar sem við teljum ykkur vera eins og þið segið – boðberar
sannleikans í einu og öllu.
Það eru hinsvegar nokkur atriði sem við þurfum aðstoð við varðandi “Guðs orð”
því eins og þið bentið alltaf á, er sannleikann að finna í guðs orði og orð
Guðs er óbreytanlegt og eilíft.
Eftir að hafa lesið Guðs orð undanfarið vakna nokkrar spurningar varðandi
óbreytanleika guðs orðs sem og þeirrar fullyrðingar að guðs orð sé eilíft og
hinn eini sannleikur:

1. Mig langar að selja dóttur mína í þrældóm eins og leyft er í guðs orði,
Exodus 21:7 – hvað teljið þið eðlilegt markaðsverð fyrir hana þar sem þið eruð
jú sérfræðingarnir hérna, er 18 ára og gullfalleg.
2. Ég veit að ég má ekki hafa neitt samband af neinu tagi við konu á meðan hún
er ´”túr” sbr. guðs orð Lev 15:19-24....hvernig fer ég að því að hafa ekkert
samband að neinu tagi við konu mína svo dögum skiptir ? Ber mér að flytja út úr
húsinu okkar ?
3. Í guðs orði, Lev 25:44 segir skýrt að ég megi hafa þræla – bæði karlmenn
sem og konur, svo framarlega sem þeir eru keyptir frá nágrannalöndum okkar.
Vandamálið er að ég er mjög hrifinn af Þjóðverjum og því langar mig að spyrja
af hverju ég megi ekki eiga þræla frá Þýskalandi þótt það sé ekki nágrannaland
okkar ?
4. Ég á vin sem krefst þess að vinna á “Sabbath” deginum. Í Guðs orði, Exodus
35:2 segir skýrt að hann skuli tekinn af lífi fyrir slíkan óhæfuverknað. Er ég
skyldugur til að drepa hann sjálfur eða get ég látið öðrum það eftir ?
5. Í guðs orði, Lev 21:20 segir skýrt að ég megi ekki nálgast altari guðs ef ég
hafi sjónskekkju , þ.e. ekki fullkomna sýn. Ég verð að viðurkenna að ég nota
lesgleraugu – er ekki eitthvad svigrúm hérna svo ég geti nálgast altari guðs ?
6. Flestir karlkyns vinir mínir fara í klippingu og snyrta nefhár osvfrv.,þrátt
fyrir að þetta sé stranglega bannað skv.guðs orði, Lev 19:27. Á hvaða hátt
ber að taka þessa menn af lífi ? Kitlar mig soldið að keyra yfir þá á nýja
jeppanum mínum ?
7. Frændi minn er bóndi. Því miður brýtur hann guðs orð, Lev 19:19 þar sem hann
er með 2 uppskerur á sömu jörð. Kona hans brýtur einnig sama ákvæði Guðs orðs
með því að nota 2 mismunandi efni í fötin sín (Cotton/Polyester). Hann blótar
einnig og rífur kjaft. Er það virkilega nauðsynlegt að safna öllum bæjarbúum
til að grýta þau til dauða eins og segir í guðs orði (Lev 24:10-16) ? Er ekki
bara hægt að brenna þau til dauða innan fjölskyldunnar, eins og við gerum með
fólk sem sefur hjá ættingjum sínum ?

Ég veit að þið hafið skoðað og lært þessar kenningar í einu og öllu svo ég er
sannfærður að þið getið hjálpað. Og síðast en ekki síst – bestu þakkir fyrir
að benda okkur á að Guðs orðs er ÓBREYTANLEGT og EILÍFT.
Bestu kveður,
Hinir fáfróðu

mánudagur

Þegar stórt er spurt...

Ég las vandlega yfir auglýsinguna í mogganum um helgina þar sem því er haldið fram að hægt sé að "lækna" homma og lesbíur af samkynhneigð! Þessi auglýsing vakti mig heldur betur til umhugsunar um mátt læknavísindanna og nú velti ég því mikið fyrir mér hvort hægt sé að lækna fólk af heimsku.

Tiktúrur

Ég hef alveg óskaplega gaman af sérvisku. Órökrétt skringilegheit hjá annars skynsömu fólki er krydd í tilveruna. Sérviskan í Þóru er stundum yfirgengilega skemmtileg. Sérstaklega þær tiktúrur að geta ekki sofið á nóttinni nema allar skápahurðir í svefnherberginu séu örugglega lokaðar. Rétt fyrir beðmál stormar hún einsog öryggisfasisti um svefnherbergið og lokar skápunum af vélrænni samviskusemi. Hún fellur oft í trans við þetta ritúal sitt en hirðir ekki neitt um útidyrnar, opna glugga eða svaladyr. Oft hef ég spurt hversvegna? Heldur hún að ljót skrýmsli eigi náttstað innan um nærbuxurnar okkar? Eða bíða kannski vitstola nauðgarar færis með sveðju í sokkaskúffunni? Um tíma hélt ég að fataskápurinn minn mætti ekki vera opin af fagurfræðilegum ástæðum þar sem ég þyki eiga eitt metnaðarfyllsta safn af ljótum fötum sem fyrirfinnst í álfunni. Í þeim efnum skáka ég jafnvel Bödda hárgreiðslumanni, jafnvel þótt mín föt séu ögn látlausari! En svo fattaði ég að skápurinn hennar Þóru má heldur ekki vera opin þannig að ráðgátan er enn óleyst. Eina svarið sem hún hefur gefið mér á þessu einkennilega háttalagi, er að hún óttist í það minnsta ekki að ljóti kallinn feli sig í skápunum. Sá ljóti komi sér nefnilega alltaf notalega fyrir á nóttinni í rúminu við hliðina á sér.

föstudagur

Útúr skápnum...

Ég er ekki að ljóstra upp neinum stórasannleik þegar ég játa það á mig að vera óttaleg lumma. Hálfgerður lúði, satt best að segja. Samt hef alla tíð þráð að tolla í tískunni og vera svalur. Töff. Ég hef flett tískublöðum af áfergju og stúderað trendsettera í bak og fyrir. En þrátt fyrir mikla fyrirhöfn og einbeittan vilja hefur mér aldrei tekist að verða neitt annað en hlægileg eftirlíking. Einhverskonar töff light. Það gæti hinsvegar breyst. Í vikunni las ég nefnilega stutt viðtal í einu dagblaðanna við Snorra Óskarsson í Betel, þann mikla og víðsýna hugsuð. Snorri fullyrðir í viðtalinu að samkynhneigð sé í tísku! Þetta er náttúrulega hrein opinberun fyrir okkur amlóðana sem höfum þurft að þola hí og spé sökum hallærisgangs og afdalaháttar alla tíð. Nú þarf ég bara að dömpa henni Þóru minni og byrja að hommast af krafti útum borg og bí. Þar með er ég dottinn í tísku um stundarsakir. Orðin svalur gaur. Töff. Þegar svo tískubólan springur þá fer kynhneigðin bara sömu leið og Millet úlpan mín, Buffaló skórnir og töfrateningurinn. Beint í ruslið.

Þótt Snorri í Betel sé ekki samkynhneigður, og þar af leiðandi ekki í tísku samkvæmt eigin skilgreiningu, þá eru aðrar ástæður fyrir því hve yfirmáta hallærislegur hann er. Hann er fyrst og fremst púkó vegna þess að hann felur fordómana sína og umburðarleysi á bak við Guðsorð. Og það er aumt.

fimmtudagur

Sitt lítið...

Ég er með eina ósk. Ef stjórnmálamenn ætla að breyta lífeyrissjóðum landsins þannig að þeir hætti að hámarka inneign mína og fari þess í stað að fjárfesta útfrá einhverjum félagslegum markiðum, - veri þeir þá svo vænir að afnema skylduaðildina fyrst. Ef það stendur til að sparka í punginn á hálaunaofurforstjórum þessa lands, þá vinsamlegast notið eitthvað annað barefli en lífeyrissparnaðinn minn.

Magni er á beinu brautinni í Súpernóvunni. Hann þarf að klúðra biggtæm til að komast ekki í þriggja manna úrslit. Hann á næga inneign hjá súpernóvugaurunum til að komast áfram, þótt honum fatist flugið eitt kvöld. Stelpan með rauða/græna/bláa hárið vinnur þetta samt. Mér finnst hún ekkert spes enda var ég aldrei hrifin af Marianne Faithful, sem hún stælir ákaft í söngnum. Tommy Lee og Navarro þurfa amk að klæðast öðruvísi ef þeir ætla að leyna hrifningu sinni á henni. Sá sem er með svalasta hugarfarið og attitjúdið í þetta jobb er samt Lúkas Rossi. Töffaralegt kæruleysið fleytir honum langt.

Ég má til með að benda á innblásinn pistil um Blönduóslögguna eftir meistara Howser. Hjörtur er með skemmtilegri mönnum og honum fer best að halda á penna þegar hann er hæfilega pirraður. Þessi reiða BA ritgerð um lögguna er skyldulesning. Og enn betri er pistill Hjartar um ofnotkun á bókstafnum N í íslensku máli. Brilljant blogg.

þriðjudagur

Gekk vel fyrir sig!!!

Hátíðarhöld um verslunarmannahelgina gengu vel fyrir sig á Akureyri, sögðu sumir fréttamenn eftir helgina. Bæjarstjórinn á Akureyri var sama sinnis. Ekki nema 65 fíkniefnamál komu upp, grunsemdir um tvær nauðganir, höfuðkúpubrot, á annan tug bíla skemmdir og líkamsárásir í tugatali að sögn lækna á slysadeild. Og þetta var fjölskylduhátíð! Hvernig skyldu ættarmót fara fram hjá bæjarstjóranum og fréttamönnunum sem telja þessi ósköp til marks um vel heppnuð fjölskylduhátíðarhöld?

Ég var einn þeirra sem kom að Uxa hátíðinni árið 1995, enda tengdist hún útvarpsstöðinni Xinu en þar var ég dagskrárstjóri. Sú hátíð var eftirá nefnd eiturlyfjahátíð,enda var mikið sukkað þar. Eiturlyfjamálin sem þar komu upp voru innan við 30. Þau voru 65 á Akureyri. Auðvitað voru fleiri á Akureyri en Uxa, en á fyrrnefndu hátíðinni var fjölskyldufólk fyrirferðamest. Hlutina á að kalla sínum réttu nöfnum. Svallið verður ekkert skárra þótt fjölskylduforskeyti sé klínt á það og bæjarstjórinn skemmti sér vel.

Hér áður fyrr lagði ég mitt af mörkum - svikalaust - til að svallhátíðir bæru nafn með rentu. En ég varð sem betur fer lítið var við þessa ljúfu stemmningu sem sveif yfir vötnum á Akureyri, þar sem ég var ekki viðstaddur hátíðina sjálfa. Enn síður tók ég eftir vöruskortinum í bænum sem sagt var frá í fréttum um helgina. Þar sem ég kom voru allar búðir fullar. Og þótt kannski hafi vantað indverskt krydd í eina búð, steinseljurót í aðra og Lucky Charms í þá þriðju, þá er fulllangt gengið að tala um vöruskort.

föstudagur

Hlaðbakur

Að fara með þrjú börn útúr bænum yfir eina helgi er mikil fyrirhöfn. Ekki síst þegar eitt barnanna er ungabarn og annað er þriggja ára. Þetta er nánast einsog að flytja til útlanda. Sem stendur er bílakostur fjölskyldunnar þannig samansettur að brandararnir um fílana og Volkswagen bílana eru að öðlast nýrri og dýpri merkingu. Í það minnsta er nógu mikið vesen að koma einum fjandans barnavagni fyrir í skottinu á Corollu station. Endar sennilegast með því að einu barninu verður komið fyrir í tengdamömmuboxinu. Einsgott það verði stöööð á Akureyri um helgina. Og að veðurfréttamaðurinn úberhressi hafi nú klankast á rétta spá, mitt í öllu fjörinu.

Þar sem hin afskekkti höfuðstaður norðurlands er ekki tengdur við alnetið/víðnetið/internetið/netið, þá blogga ég lítið næstu daga. Nást GSM símar þarna? Hvað með heit vatn? Sundlaug?

fimmtudagur

Hnegg

Hestaferðin var svona lala. Það þarf amk verulega skreytni til að kalla þetta gandreið á glæstum fáki. Þetta var meira svona lull á ólseigri truntu í hópi barna og erlendra ferðamanna. En veðrið var æðislegt, náttúran falleg og svo mátti náttúrulega ekki ofgera Þóru og Kristínu Ölmu.

Hesturinn sem ég var á hét Komma. Mér finnst það bera vott um ákveðin frumlegheit að skíra truntu í höfuðið á greinamerki. Ég hef því lagt drög að því að ríða út á Gæsalöppum í næstu ferð. Eða Sviga. Þar sem Komma var frekar slöpp til útreiðar var hún á heimleiðinni kölluð semikomma. En það var ekki fyrr en ég var búin að lesa aulabrandarabókina upp til agna.

Ekki held ég að þessi túr verði til þess að Kórsalafamilian taki hestabakteríuna einsog sumir voru að vona. Guði sé lof fyrir það.

Ég finn ekki fyrir rasssæri einsog sést á þessari mynd:

miðvikudagur

Aktívismi og afturendi

Mikið hefur súsurum tekist vel upp við að vekja athygli á álagningaskránum. Þeir hljóta að vera vel sáttir. Með ekkert annað en þokkalega ígrundaðan aktívisma að vopni tókst þeim að fá fáránlega mikil viðbrögð og umtal um þetta einkabeibí sitt. Einkum hafa pólitískir andstæðingar þeirra borið uppi umræðuna, yfirleitt pirraðir yfir því að aðrir en vinstri menn leyfi sér að ástunda aktivisma. Hef samúð með því sjónarmiði því í mínum huga er aktívismi tengdur lopapeysum og úfnu hári órjúfanlegum böndum. Auk þess á bindisklætt fólk hvorki að hlekkja sig við jarðýtur né skattaskrár. Annars virðist mér að langflestum sé nákvæmlega sama þótt þessar upplýsingar liggi úti á torgum. Helst heyrist kvein í þeim sem eru í úrtaki tekjublaðs frjálsrar verslunar. Þeir eru reyndar líka til sem hafa samband við blaðið að fyrra bragði til að komast í það. Því fólki vorkenni ég óskaplega mikið.

Er að fara í hestaferð í dag. Því verða nákvæmar lýsingar á rassi mínum í næstu færslu. Með grafískum hætti og latneskum heitum verða þjóhnapparnir krufðir með tilliti til ástands og útlits eftir gandreið á glæstum fák. Vel má vera að ljósmyndir í lit, auk listrænna svarthvítra mynda, fylgi færslunni. Ef ekki af mér, þá að minnsta kosti af Þóru.

þriðjudagur

Lifi skattmann...eða hvað!

Ég vil bara nota tækifærið og þakka Indriða H Þorlákssyni, ríkisskattstjóra, kærlega fyrir aurinn. Það virðist vera metnaðarmál hjá skattinum að ég sé sómasamlegur klæddur, í það minnsta gat ég ekki skilið þessa rausnarlegu gjöf öðruvísi en að ég ætti að kaupa mér mikið af fötum. Til að eyða öllum misskilningi skal hér skýrt tekið fram að þótt Indriði hafi reddað aurnum, fékk hann ekki að velja fötin. Ef gjöfin hefði verið skilyrt með þeim hætti, þá hefði verið skárra að skulda skattinum.

Sá einhversstaðar að Sigurður Bollason og Magnús Ármann, athafnamenn, eru ekki með nema um hundrað þúsund krónur á mánuði samkvæmt opinberum tölum. Það er augljóst á öllu að það er ekki tekið út með sældinni að eiga stóran hlut í arðsömu flugfélagi sem metið er á milljarða. Til að vera nú heiðarlegur þá verður maður auðvitað að geta þess að þeir gætu hafa þurft að borga fjármagnstekjuskatt. En það er skattur sem er sérstaklega settur á til að illa staddir milljarðamæringar þurfi bara að greiða 10 prósent af tekjum sínum í skatt, á meðan venjulegt fólk borgar meira en 35 prósent af tekjum sínum í skatt. Góður guð gefi Sigga Bolla og Magnúsi Ármann styrk á þessum erfiðu tímum.

Nú er ég farin að blogga einsog Ögmundur Jónasson. Þá er komin til til að setja punkt.