Af vígvöllum og krúttum
Í kvöldfréttum útvarps voru svo miklar bollaleggingar um hvort slagsmálin í miðbænum væru einkenni á þjóðarsálinni. Nú á fólk auðvitað að reyna að forðast að rífa eyrun af samborgurum sínum og engin ástæða til að gera lítið úr slíkum óþverraskap. En fanta og fautaskapur fárra vitleysinga verður ekki þjóðareinkenni á meðan slík hegðun er fordæmd af þorra landsmanna. Og til allrar blessunar sváfu langflestir íslendingar á sínu græna eyra þessa nótt en voru ekki með það lafandi útá kinn.
Annars á Ófeigur Þorgeirsson, yfirlæknir á slysadeild, sterka innkomu í þessum málum. Í útvarpinu sagði hann ástandið ekki minna á miðborgarlíf í evrópskri höfuðborg hjá menntaðri þjóð, heldur líkist atgangurinn fremur átökum á hafnarsvæði í stórborg í Bandaríkjunum. Menntuðu Evrópubúarnir slást ekki, það gera bara bullurnar í bandaríkjunum segir þessi víðsýni yfirlæknir sem augljóslega þekkir ekki fordóma nema bara af afspurn . Hann ætti að ganga nokkrar ferðir í gegnum slömmin í London, París og Madrid. Þar er þá væntanlega engin fátækt, slagsmál, vændi og eiturlyfjaeymd. Þar yrkja allir menntuðu Evrópubúarnir ljóð og mála landslag á milli þess sem þeir kryfja Hegel og Kant. En kaninn boxar!
Sigurrós var snilld. Jaðrar samt við föðurlandssvik að taka ekki Flugufrelsarann á svona giggi. Hápunktarnir voru fyrsta uppklappslagið og lokalagið. Hef alltaf þráð að vera hluti af krúttkynslóðinni og fór í sigurrósargallanum á giggið.
