mánudagur

Af vígvöllum og krúttum

Orðin “blóðugur vígvöllur” komu einu sinni fyrir í fréttunum á sunnudagskvöld. Ekki útaf fjöldamorðum á börnum í Líbanon, heldur í tengslum við áflog einhverra lúsera í miðborg Reykjavíkur þar sem einn missti næstum eyra. Símon Birgisson á NFS á heiðurinn af þessari orðanotkun og ég legg til að stöðin flytji hann yfir í erlendu fréttirnar. Úr því að stympingar í bænum eru “blóðugur vígvöllur” þá hlýtur hann að finna eitthvað krassandi yfir viðbjóðin í Líbanon.

Í kvöldfréttum útvarps voru svo miklar bollaleggingar um hvort slagsmálin í miðbænum væru einkenni á þjóðarsálinni. Nú á fólk auðvitað að reyna að forðast að rífa eyrun af samborgurum sínum og engin ástæða til að gera lítið úr slíkum óþverraskap. En fanta og fautaskapur fárra vitleysinga verður ekki þjóðareinkenni á meðan slík hegðun er fordæmd af þorra landsmanna. Og til allrar blessunar sváfu langflestir íslendingar á sínu græna eyra þessa nótt en voru ekki með það lafandi útá kinn.

Annars á Ófeigur Þorgeirsson, yfirlæknir á slysadeild, sterka innkomu í þessum málum. Í útvarpinu sagði hann ástandið ekki minna á miðborgarlíf í evrópskri höfuðborg hjá menntaðri þjóð, heldur líkist atgangurinn fremur átökum á hafnarsvæði í stórborg í Bandaríkjunum. Menntuðu Evrópubúarnir slást ekki, það gera bara bullurnar í bandaríkjunum segir þessi víðsýni yfirlæknir sem augljóslega þekkir ekki fordóma nema bara af afspurn . Hann ætti að ganga nokkrar ferðir í gegnum slömmin í London, París og Madrid. Þar er þá væntanlega engin fátækt, slagsmál, vændi og eiturlyfjaeymd. Þar yrkja allir menntuðu Evrópubúarnir ljóð og mála landslag á milli þess sem þeir kryfja Hegel og Kant. En kaninn boxar!

Sigurrós var snilld. Jaðrar samt við föðurlandssvik að taka ekki Flugufrelsarann á svona giggi. Hápunktarnir voru fyrsta uppklappslagið og lokalagið. Hef alltaf þráð að vera hluti af krúttkynslóðinni og fór í sigurrósargallanum á giggið.

laugardagur

Veðurskip Líma

Hvað er Sigga stormi gefið áður en hann þylur upp veðurfréttirnar á NFS? E töflur? Hann er nánast að fara yfirum af hressi. Hann er óneitanlega öðruvísi en flestir kollegar hans sem segja veðurfréttir nánast með trúarlegum áherslum. Stundum er svipuð stemmning í veðurfréttunum hér á landi og góðri messu. Frekar döll semsagt. Siggi kýs að poppa þetta hressilega upp og ég kann vel við Sigga. En hann þarf að passa sig á að breyta ekki gigginu í eitthvað standupp. Ég vil nefnilega gjarnan trúa því þegar Siggi segir okkur að von sé á fárviðri í Kórsölunum en geri það síður ef hann er flissandi með trúðshatt. Á góðum degi er Haraldur Ólafsson samt bestur í veðrinu. Skemmtilega háðskur stundum. En hvað er ég að blogga um veðurfréttir? Þekki ekki mun á háþrýstisvæði og vanilludropum.

föstudagur

Fótbolti, framhjáhald, fjölmiðlar og Loghildur

Nú er Arsenal að selja Ashley Cole . Sjónarsviptir af þeim bakverði, enda er hann frábær í sinni stöðu. Ég set hinsvegar spurningamerki við gáfnafar mannsins. Hann er í takmarkalausri fýlu útí Arsenal af því að félagið bakkaði hann ekki upp þegar hann átti í ólöglegum viðræðum við helsta keppinautinn, Chelsea . Djöfull ætla ég að vona að kona Ashley Cole haldi framhjá honum með mesta óvini hans. Og að hún sæki svo um skilnað á þeirri forsendu að eiginmaðurinn hafi ekki veitt henni nægan stuðning við framhjáhaldið!!! Það væri sama siðleysið. Nú er bara að fá nógu mikið fyrir Júdas.

Fjölmiðlapistlar Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Blaðinu eru ótrúlega fjölbreyttir. Þessi hárbeitta rýni hennar nær yfir ótrúlega vítt svið. Henni er ekkert óviðkomandi í fjölmiðlapistlum sínum, nema þá helst fjölmiðlar. Hún skrifar ekkert um þá.

Logi og Svanhildur fá æðislegar stuðkveðjur með von um gleðilegt uppeldi. Nú er bara að vona að barnið slefi minna en pabbi sinn og hjali ekki með norðlenskum framburði einsog mamman.

mánudagur

Salka

Fór vestur á Snæfellsnes um helgina og lá þar í tjaldi ásamt Þóru og slatta af barnaskaranum. Það var stórfínt enda Arnarstapi fallegur staður. Ég komst að því þessa helgi að Salka er búin að fullkomna samskiptatæknina sem hún hefur verið að þróa frá því hún byrjaði að tala. Þetta er háþróuð tækni sem þriggja ára barnið notar til að vefja fullorðnu fólki um fingur sér af svo mikilli leikni að hrein unun er að fylgjast með. Í göngutúr um svæðið sagði hún uppúr einsmanns hljóði, greinilega orðin þreytt á labbinu: “Pabbi, ég elska þig, viltu halda á mér”. Barnið þurfti ekki að ganga neitt það sem eftir lifði helgarinnar.

fimmtudagur

Meðganga

Nú er í gangi merkileg tilraun hér á Íslandi. Einsog allir vita er venjuleg meðganga 9 mánuðir og hefur svo verið um langa hríð. Flest venjulegt fólk hefur sætt sig við þennan gang náttúrunnar og eignast börnin sín á tilsettum tíma enda umtalsvert hagræði sem felst í þessari stöðluðu meðgöngulengd. Logi og Svanhildur, stórvinir mínir, þurfa hinsvegar alltaf að vera öðruvísi. Flippaðari en við hin. Þau stefna nú ótrauð á að setja einhverskonar meðgöngumet þarna fyrir norðan. Stefnir í 10 mánaða meðgöngu. Með sama áframhaldi fæðist barnið altalandi og með tennur. Jafnvel fermt. Svanhildur, koma svooohhh........

miðvikudagur

Hvað er í gangi?

Shit hvað mér brá þegar ég vaknaði í morgun. Ég opnaði augun og nánast æpti af undrun. Og hræðslu, því ég er alltaf skíthræddur við hið óþekkta. Það var nánast einsog ókunnugur maður væri komin inní íbúðina og það er ekki skemmtilegt að vakna undir þeim kringumstæðum. Ekki gat ég annað gert en að taka á mig rögg og kanna málið. Hvað var eiginlega í gangi? Var hætta á ferðum? Á nærbuxunum, svefndrukkinn og með stírur í augum, klöngraðist ég frammúr. Þrátt fyrir miklar vangaveltur, bollalengingar og spekúlasjónir er þetta enn mikill leyndardómur. Áköf leit á netinu og spjall við sérfræðinga hefur heldur ekki skýrt málið. Hvað er þetta stóra, gula og heita á himninum?


Magni er með þeim flottari í súpernóvunni. Flott lag sem hann valdi og hann söng það frammúrskarandi vel. Ef hann heldur áfram á sömu braut og lagar aðeins sviðsframkomuna þá nær hann býsna langt. Annars er ég kominn á þá skoðun að það sé best fyrir Magna að lenda í öðru sæti í Rock star Súpernova. Þá fær hann hámarksathygli, án þess að þurfa að fara í tónleikaferð með Tommy Lee. Að keppast um að komast í hljómsveitina hans, er einsog að æfa sig markvisst fyrir kviðslit.

mánudagur

Fíkn

Sorglegt þegar efnilegt fólk missir tökin á lífi sínu. Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá hana Þóru þessa dagana berjast við fíknina. Fíkn sem rænir hana getunni til að stjórna eigin lífi. Mynstrið þekki ég og óttast, því allir fíklar skemma útfrá sér. Þeir vanrækja fjölskylduna. Sinna vinnunni illa. Verða viðskotaillir. Þeir missa þá reisn sem fylgir því að vera frjáls. Og í verstu tilfellum hættir fíkillinn að vera manneskja. Sem betur fer er hún Þóra mín ekki komin á botninn. En hún nálgast hann hratt. Neitar að horfast í augu við vandann og taka á honum. Afneitunin er svo sterk. Ótrúlegt hvað japanskar talnaþrautir á netinu geta leikið fólk grátt. Veit einhver hvar Sodukofíklar geta leitað sér hjálpar? Kannski er 12 spora kerfið málið.

sunnudagur

Starfsheiti og piparkökusöngurinn

Ég hef ákveðið fetish fyrir góðum starfsheitum. Því lengri starfsheiti, því flottara er fólkið sem gegnir starfinu. Ég ber því óendanlega virðingu fyrir manneskjunni sem er sviðsstjóri þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands -Háskólabókasafns. Hvað er nafnspjaldið stórt? Ef þið vitið um flottari titil þá er tuðskjóðan opin!


Nááár dú pepperkager bager
kake machermannen tager
erst am immer steikarpottinn
únd æn kíló....PEEPPPPEEER!!!

Hver þýddi og af hvaða tilefni?

miðvikudagur

Sá Magna í nótt í Súpernóvunni. Hann var hundrað sinnum betri en í fyrsta þættinum og reyndar miklu betri en flestir aðrir keppendur í gærkvöldi. Gangi honum vel. En óttalega finnst mér þessir Súpernóvumenn miklir aular. Jason Newsted sem var í Metalica, er eini maðurinn sem segir þarna eitthvað af viti. Gilby Clarke er froða og svo er það sjónvarpáhorfendum sífellt undrunarefni að Tommy Lee skuli yfirhöfuð geta haldið á trommukjuða, jafn greindarskertur og hann er. Satt best að segja er ég spenntari fyrir næsta valentínusardegi en plötu með þessu rokkbandi. En þetta er skemmtilegt sjónvarp. Hvað gerist svo ef Magni vinnur? Er ekki borðleggjandi að skjár einn býr til íslenskan raunveruleikaþátt þar sem hljómsveitin Á móti sól finnur sér söngvara? Pant ekki horfa á það!

þriðjudagur

Ég er smásál.

Þrár vikur af sumarfríi búnar og ég er mættur til vinnu á ný. Ekki sá til sólar í fríinu að neinu ráði. Það kom þó sólarglenna einn dag á meðan ég var uppí bústað, en þá var jafnframt svo köld norðanátt að það kom hrím á sólgleraugun mín. Að auki fékk ég kalbletti á upphandleggina eftir að hafa í takmarkalausu bjartsýniskasti klæðst stuttermabol þennan sólardag uppúr miðjum júní. Um helgina skein hinsvegar gula fíflið af áður óþekktu kappi. Ég var sannfærður um að í hönd færi hitabylgja sem stæði út Júlí, eða nákvæmlega þann tíma sem verð fastur í vinnunni. Ekki virðist þetta ætla að rætast því úti er rok, rigning og drulla. Litla smásálarhjartað mitt tekur aukaslög af fögnuði yfir þessari ömurlegu veðráttu því á meðan ég er sjálfur fastur í vinnu, verður helst að rigna eldi og brennisteini. Skítt með fólkið sem er í fríi á sama tíma. Gott veður er nefnilega takmörkuð gæði. En sanniði til, hitametin eiga eftir að falla í hrönnum frammað næstu mánaðarmótum. Og ég þori að veðja efrigómnum mínum uppá að ágústmánuður verður svo kaldur að keisaramörgæsir verpa í tjarnarhólmanum uppúr miðjum mánuði. Enda verð ég í frí þá.

sunnudagur

Ballið búið.

Frakkar miklu betri en Ítalía vann. Svona er fótboltinn grimmur. Ekki ætla ég samt að amast mikið við sigri Ítala, því þeir eru með frábært fótboltalið. Og leikurinn var hrein snilldarskemmtun. En svo sannarlega hefðu frakkar verðskuldað sigurinn í kvöld.

Nokkrar pælingar:

Hvað var Zidane að pæla? Þetta var hallærislegra en pungssparkið hans Rooney? Óréttlætanlegt með öllu.

Af hverju þorði dómarinn ekki að dæma víti í seinni hálfleik? Var það vegna þess að Frakkar fengu víti fyrr í leiknum?

Af hverju var Arnar Björnsson alltaf við það að fá fullnægingu í hvert sinn sem Ítalskir varnarmenn hreinsuðu uppí stúku?

Hvernig líður Henrý? Tapar úrslitaleik á HM og í meistaradeildinni með nokkurra vikna millibili.

Hingað til hafa ítalskir knattspyrnumenn verið ámóta miklir harðjaxlar og dverghamstrar í bleikum pífuskyrtum. Hvaðan koma þá Gattusó og Cannavaro? Þeir eru úbersvalir. Sömuleiðis fíla ég þennan Grossó vel.

Ef marka má Arnar Björns þá var það Tresequet sem skoraði úrslitamarkið í úrslitaleiknum á evrópumótinu fyrir tveimur árum. Það sagði hann ítrekað í lýsingunni. Soldið gaman fyrir þennan franska landsliðsmann að hafa náð að skora í leik á milli Grikkja og Portúgala!! Annars var Arnar góður að venju og ég hef mikla samúð með svona meinlokum í hita leiksins í beinni lýsingu. Kemur fyrir á bestu bæjum.

Sýn hefur afgreitt þetta heimsmeistaramót frábærlega. Tek ofan fyrir þeim. Rúv er með mótið næst. Vonandi verður þetta ekki síðra þá. Takk fyrir mig.

fimmtudagur

Súpernóva og aukatekjur.

Horfði á rokkstar súpernóva í nótt, en get ekki sagt að ég hafi heillast. Ég horfði hinsvegar á rokkstar INXS með miklum áhuga síðasta vetur, sem er skrítið í ljósi þess að mér finnst INXS ömurlegt band. En vafalitið dettur maður inní Súpernóvuna líka, enda hafa tónlistarmennirnir þar spilað með skárri böndum en INXS. Þar undanskil ég reyndar Tommy Lee sem er óþroskaður getuleysingi frá vangeflingalandi.

Ég held að Magni geti nú gert talsvert betur en hann gerði í gær. Mér fannst hann óöruggur á sviðinu og á köflum öskraði hann alltof mikið. Lagavalið hans var glatað. Ekki troða upp með ofnotuðustu rokklummu allra tíma í svona þætti, þar sem þú færð tvær mínútur til að heilla áhorfendur og bandið! Væntanlega var það gert til að fá salinn strax með, en drottinn minn dýri, þetta er þreyttasta rokklag allra tíma. Aðeins meiri frumlegheit næst, Magni.


Ég sá í fréttunum að kunningi minn, Stefán Kjernested, gerir það gott sem leigusali. Hann leigir tæplega 100 fermetra íbúð á 250 þúsund kall á mánuði til nokkurra Pólverja. Sjálfur á ég 12 fermetra geymslu sem fylgir íbúðinni minni í Kórsölum og er lítið notuð. Hún er gluggalaus, en hlý. Hér með býð ég Stefáni að búa í geymslunni minni fyrir 30 þúsund krónur á mánuði. Hann hlýtur að taka þessu kostaboði, enda er þetta nærri þeim standard og verði sem hann býður sjálfur uppá. Hann fær að skjótast á klóið hjá mér að auki ef hann bætir 5 þúsundkalli við.

Um gildi leikrænnar tjáningar.

Nú ætla ég að játa soldið. Ég fer ákaflega sjaldan í leikhús. Og ég þekki fáa leikara. Af því leiðir að ég hef mjög lítið vit á leiklist. Mér er sagt að með leikrænni tjáningu sé nánast hægt að gera allt mögulegt, meðal annars yfirvinna tilfinningalegar og líkamlegar hömlur. Og að sjálfsögðu blekkja fólk. En hvað er drama? Hvað er kómedí? Hvað er spuni? Hvað er látbragðsleikur? Ekki er ég viss um að ég geti svarað þessum spurningum af neinni dýpt eða vissu. Þetta yfirgripsmikla þekkingarleysi mitt á leiklist þýðir að ég get ekki tjáð mig um frammistöðu knattspyrnuliðs Portúgals í leiknum í kvöld. Hef þó lúmskan grun um að orðið harmleikur nái ágætlega yfir þessa wannabe leikaraskratta sem hrundu einsog flugur í hvert sinn sem komið var við þá. Ömurlegt fótboltalið sem komst alltof langt í þessari keppni.

miðvikudagur

Í dag ég stoltur af henni Kristínu Ölmu minni. Hún náði bóklega hluta bílprófsins með glans og því stutt í að hún hrelli ökumenn með leikni sinni úti í umferðinni. Til hamingju.

Ítalía vann. Af því dreg ég þá ályktun að guð almáttugur lesi ekki bloggið mitt á þriðjudögum, sbr síðustu færslu. Ekki græt ég þó tap þjóðverjanna neitt sérstaklega. Ítalir voru þeim einfaldlega fremri í kvöld. Fyrir nú utan að ég fíla þennan Gattúsó gaur í botn, enda er hann ekki dæmigerður ítalskur leikmaður sem hrynur gólandi til jarðar ef hóstað er inná vellinum. Annars ætla ég að halda áfram að hatast við suður Evrópuþjóðir í fótbolta. Og ef slímugar geimverur sem nærast á litlum börnum fengju þáttökurétt á HM, þá héldi ég með þeim gegn Portúgal. Ef ég verð ekki bænheyrður á morgun, þá tek ég til í geymslunni frekar en að eyða tíma mínum í úrslitaleikinn. Svo einfalt er það. Tottí á móti C. Ronaldo er ámóta heillandi konsept og mynd með Söndru Bullock og Keanu Reeves í aðalhlutverkum.

þriðjudagur

Bæn

Góði guð. Ég leita ekki oft til þín. Skammarlega sjaldan reyndar. Það þýðir samt ekki að ég trúi ekki á náðina, mátt þinn og hlýju. Ég hef bara verið upptekin við að skara eld að eigin köku, syndga og sigra í lífsgæðakapphlaupinu. Ekki haft tíma til að vera í sambandi. Sorry. En kæri guð, núna eru slíkir atburðir að gerast að inngrip frá æðri máttarvöldum eru brýn, já ef ekki lífsnauðsynleg. Til að sálarheill mannkyns verði ekki stefnt í voða verður þú, sem allt getur, að grípa inní mannlífið líkt og þú hefur svo oft gert, okkur til heilla. Í mestu einlægni og frá innstu hjartarótum bið ég þig, kæri guð minn góður, að forða oss frá þeirri hneisu og leiðindum, að þurfa að horfa á Portúgal – Ítalíu í úrslitaleik HM. Plís.