fimmtudagur

Ekki afi enn!

Ekki er laust við að mér sé nokkuð létt eftir atburði dagsins. Dóttir mín, hún Kristín Alma, sem er 18 ára gömul, hefur þráfaldlega sagt mér að ég sé örugglega að verða afi. Svo ég sé alveg hreinskilinn þá hefur þessi tími verið svolítið skrítinn því ég er ekki tilbúinn í þennan pakka alveg strax enda ekki nema 37 ára gamall. Á nóg með mín fjögur börn hér á heimilinu. Dóttir mín hefur staðið fast á sínu þótt augljóslega hafi hún nú verið leið yfir þessu. Ég fann til með Kristínu Ölmu enda erfitt fyrir 18 ára ungling að sjá fram á fjölgun í fjölskyldunni. Við þráuðumst við í nokkurn tíma en á endanum varð ekki undan því vikist að kanna hvort storkurinn væri á leiðinni. Við völdum þá leið að leita bara beint til læknis. Okkur fannst það skynsamlegast þar sem hún átti að vera gengin þetta langt með. En eftir að læknirinn hafði þreifað á kviðnum hennar kom í ljós að ég þarf ekki að óttast afahlutverkið enn um sinn. Kötturinn okkar hún Ronja er semsagt ekki kettlingafull. Og verður ekki úr þessu, því hún var tekin úr sambandi.

miðvikudagur

Hjálp

Bloggerhelvítið hefur einhverra hluta vegna fært linkana neðst á síðuna sem mér finnst ekki gott. Hver kann að laga svona? Vegleg verðlaun í boði fyrir rétt svar.

þriðjudagur

Myndavélar strax, takk fyrir!

Frakkarnir áfram. Gott mál. Það þýðir að ég hef einhverjar taugar til tveggja liða af þeim átta sem eftir eru. Vonandi hrökkva Englendingar í gír og kála Portúgal, og það væri verulega sætt ef Frakkarnir lækkuðu rostann í þessum leiðinda Brössum. Er þó efins um að mér verði að ósk minni. Ætli fjögurra liða úrslitin verði ekki leiðindi dauðans, Portúgal, Brasilía, Ítalía og svo Argentína eða Þýskaland.

Hef verið gagnrýndur í kommentakerfinu fyrir að sýna ekki leik Sviss og Úkraínu áhuga. Láir mér það einhver í dag? Þessum liðum tókst ekki einu sinni að gera vítaspyrnukeppni áhugaverða!

Nú er orðið tímabært að nota myndavélar sem hluta af dómgæslu á HM og EM. Rangstæðumarkið sem brassarnir skoruðu í dag var náttúrulega hreint djók. Maðurinn var rangstæður í hlaupi frá miðjunni að markteig, án þess að línuvörðurinn sæi ástæðu til að veifa þegar loks sendingin kom. Í endursýningunni sést að hann hlýtur að hafa verið í lyfjarússi, vesalings fánaberinn á hliðarlínunni. “Vítið” sem ítalir fengu í gær er af sama meiði. Rauða spjaldið sem þeir fengu á sig í sama leik er enn eitt málið. Og hægt er að telja til tugi atriða til viðbótar, bara á þessu móti. Þeir sem vilja ekki myndavélar nota auðhrekjanleg rök. Förum yfir nokkur þeirra:

Ef við notum myndavélar þá fækkar vafaatriðum og það verður minna að tala um eftir leikina: Skiptir sanngirni og réttlæti í dómgæslu á HM minna mál en réttur kjaftaska í sjónvarpssal??? Með þessum rökum er hægt að tala sig inná að enn verri dómgæsla sé af hinu góða, því þá verður enn skemmtilegra að kjafta um leikina. Nema náttúrulega fyrir þá sem falla úr keppni útaf einum lélegum dómi.

Leikmenn gera mistök líkt og dómarar. Hluti af leiknum. Auðvitað eru mistök hluti af leiknum. En mistök Rónaldós bitna á honum sjálfum og hans eigin liði. Mistök dómarans bitna á öðru liðinu, ekki honum sjálfum. Fyrir nú utan að með þessari röksemd eru menn að segja að ósanngjörn og röng dómgæsla sé af sama meiði og að hitta ekki boltann fyrir opnu marki! Klúður dómara er verra, því það er hans að gæta að réttlætinu inná vellinum.

Það hægist á leiknum: Í leik Portúgals og Hollands var spilaður fótbolti í 30 mínútur af 45 í seinni hálfleik. Dómarinn þurfti ekki myndavélar til að hægja á þeim leik. Engin vill nota myndavélar í öllum vafaatriðum. En má ekki nota þau í umdeildum mörkum, þegar vafi leikur á hvort bolti fari yfir marklínu, í rauðum spjöldum svo dæmi séu nefnd? Varla fleiri en fjögur atriði í leik. Tekur aðstoðardómara með nútímatækni svipaðan tíma og fyrir þjálfara að skipta um leikmann. Einnig mætti hugsa sér að lið mættu áfrýja til myndavélanna tvisvar í leik, hvort lið, frekar en að dómari ráði hvenær upptaka er skoðuð. Punkturinn minn er þessi : það er ekkert mál að útfæra þetta þannig að leikurinn fái að flæða og bara afdrifaríkustu atriðin fái skoðun, en ekki hvert einast innkast í leiknum.

mánudagur

Staðreyndir lífsins.

Það rignir á íslandi á sumrin!

Ítalir komast áfram á HM með svindli á lokamínútunum!

Kjánar tjá sig um málið á Sýn!

sunnudagur

HM leiðindin

Jæja. Það var tiltekt á mettíma og brjáluð læti uppí bústað til að ná heim í tæka tíð. Hvorki fyrr né síðar hef ég haft meira fyrir því að horfa á fótboltaleik. Pungsveittur og andlega búin á því eftir bíltúrinn settist ég fyrir framan sjónvarpið og horfði á leik Englendinga og Ekvador. Skemmst er frá því að segja að leikurinn var ámóta heillandi og gott mígreniskast. Þvílík og önnur eins leiðindi. Englendingarnir voru ámóta ferskir og úldið kattahland en unnu samt. Kannski að Þýska heilkennið, sem þróast hefur á undanförnum áratugum, hafi skotið sér niður í Enska landsliðinu! Frábær mannskapur, leiðinlegt lið, lélegir leikir og sigur. Þýska heilkennið er amk ekki hjá Þjóðverjum að þessu sinni því þeir eru frábærlega skemmtilegt lið, aldrei þessu vant.

Um leik Hollands og Portúgal hef ég fátt að segja. Þetta var skrípaleikur en ekki fótboltaleikur. Bæði lið gróf og dómarinn ömurlegur. Hollenska liðið er ekki nógu gott, svo einfalt er það og ég vil ekki sjá mína menn svona grófa. Brotið á rónaldó var td vibbi. Fígó var hinsvegar mesti asni leiksins og verður vonandi í banni næst. Megi Portúgalar detta út í næstu umferð með miklum bravúr. Annað stórmótið í röð ná þeir þeim stórkostlega árangri að vera leiðinlegri vælukjóar en Ítalir. Ótrúlegt afrek það.

Ég ætla að horfa á Ástrali slá út Ítali á morgun. Ástralir eru óvænta þjóðin að þessu sinni. Svo er Sviss – Úkraína annað kvöld. Ég vökva garðinn frekar en að eyða tíma í slíkar leiðindaþjóðir.

laugardagur

Eureka!

Það er ekki gott að hlaupa langhlaup tveimur klukkutímum eftir að maður hefur gúffað í sig stórum hamborgara, helling af frönskum, kokteilsósu og skolað því niður með hálfum lítra af kók. Það er heldur ekki gott að hlaupa langhlaup mjög dúðaður því þá verður manni of heitt. Og ef maður fækkar fötum of skarpt í nepjunni, þá verður of kalt. Þessar ótrúlegu uppgötvanir gerði ég í kvöld.
Kær kveðja,
Albert Einstein.

P.S.

Á morgun ætla ég að kenna ykkur að kljúfa atóm.

föstudagur

Í dag er ég í klemmu. Mig langar að búa til súrrealískt blogg, en ég nenni því ekki. Mörður Árnason má því eiga sviðið, enda ekki nokkur leið að toppa hann.

þriðjudagur

MEEEEEEEH!!!!!!!!!!!!!!

Notalegt að vera í sveitinni. Vaknaði klukkan 6:30 við síendurtekið, hávært og átakanlega leiðinlegt jarm í rollu sem greinilega var í mikilli geðshræringu fyrir utan svefnherbergisgluggann minn. Voljúmið á kindinni var stillt á 11, því nístandi óhljóðin glumdu um herbergið líkt og úr fínasta surrándkerfi frá bose. Velti því alvarlega fyrir mér að sálga kvikindinu með bitlausum ostaskera en tók frekar til þess bragðs að fara útí glugga og biðja skjátuna kurteisislega um að færa söngæfingar sínar yfir að næsta bústað. Litlu munaði að rollan dræpist úr hjartaáfalli þegar hún sá morðglampann í svefndrukknum augum mínum og hún hefur ekki sést hér í sveitinni síðan. Sem betur fer náði ég að sofna aftur og dreymdi þá fallegan draum um duglegt fólk við störf í fullkomnu sláturhúsi.

Sá leik Englendinga og Svía á HM. Flottur leikur! Úrslitin þýða að Svíar mæta Þjóðverjum í 16 liða úrslitum. Að velja lið til að halda með í þeim leik, er líkt og ákveða hvort maður vilji kafna í ælu eða drukkna í rotþró.

mánudagur

Riders on the storm

Á íslensku eru til ótrúlega mörg orð yfir veðurfar. Mörg orð má nota um rigningu. Votviðri, úrkoma, skýfall, úrfelli, suddi, væta, hraglandi og svo mætti lengi telja. Núna er ég búin að vera í sumarfríi í þrjá daga án þess að stytt hafi upp að viti. Hef því komist að þeirri niðurstöðu að það skiptir ekki nokkru einasta máli hve mörg orð eru á íslensku til yfir rigningarsuddann. Þau eru öllu ómöguleg því þau fanga ekki á nokkurn hátt þau hughrif sem flestir verða fyrir þegar droparnir falla í milljónatali til jarðar, sólahringum saman. Legg því til að orðinu viðbjóður verði bætt við flóruna. Þá er hægt að tala um rigningarviðbjóð, vætuviðbjóð, suddaviðbjóð, úrhellisviðbjóð eða þessvegna hraglandaviðbjóð. Þá gætu allir talað um helvítis viðbjóðinn þegar vísað er almennt til votviðris. Veðurfræðingar sem hallir eru undir popúlisma – og þá á ég helst við Sigga Storm – ættu að taka þessa orðanotkun upp hið snarasta.

P.s.

Þeir sem ætluðu að láta einhverja speki falla í kommentakerfinu mínu um hversu helvítis viðbjóðurinn fer nú vel með blessaðan gróðurinn, eru vinsamlegast beðnir um leita til sálfræðings. Slíkt bjartsýnis og rólyndishugarfar er nefnilega merki um alvarlega geðveilu. Sumarið hér á klakanum er 8-10 vikur forkræingátlát. Sól, takk fyrir. Strax. Annars er bara voða fínt hjá okkur uppí bústað.

laugardagur

17. Júní

Dagurinn var svona hjá mér: Keyrði á japönskum smábíl, til að horfa á Nylon eftir að hafa fengið mér candy floss. Fór heim til að horfa á leik Gana og Tékka. Fór síðan og fékk mér kentucy fried og leit svo á leik USA og Ítalíu. Keypti Toblerone og Coka cola til að borða yfir myndinni Walk the line um Johnny Cash.

Ekta íslensk þjóðhátíð hefði hinsvegar litið svona út: Fór á íslenskum hesti til að horfa á þjóðdansa og hlusta á rímur í félagsheimilinu. Bruddi harðfisk og súrt slátur og kíkti svo á bændaglímuna. Orti hringhendu um lélega sláturtíð, áður en ég þambaði mysu yfir svart hvítri heimildarmynd um golsóttar lambær með mæðuveiki.

Niðurstaða: Þökk sé góðum guði fyrir alþjóðavæðinguna.

Gleðilega þjóðhátíð og áfram Holland.

föstudagur

Grátur

Í gærkvöldi var mikið rætt um karlmennsku og tilfinningar á heimili mínu. Dóttir mín og Þóra vilja meina að ég sé tilfinningalaus hrotti af því að ég fór ekki að skæla yfir ömurlega illa leiknu og asnalegu atriði í Desperate housewives. Í framhaldinu kviknaði ófrjó umræða um að karlmenn sýndu aldrei tilfinningar, þyrðu ekki að gráta og byrgðu allt inni. Um tíma hékk sú fullyrðing í loftinu að flest sjálfsmorð ungra drengja mætti rekja til þess að ég felldi ekki tár þegar Eva Longoria reyndi af veikum mætti að leika örvæntingafulla móður að missa barnið sitt. Fullyrt var að eitthvað karlmennskuegó hefði stíflað tárakirtla mína. Ég væri bara karlpungur, holur að innan; tilfinningalaust macho skrímsli sem þekkti ekki fínustu blæbrigði lífsins og skynjaði hvorki gleði né sorg.

Mikið sárnaði mér að heyra þetta allt. Ég trúi því nefnilega að ég sé hlýr og tilfinningaríkur strákur. Ég hef grátið. Fellt tár og sýnt trega. Ég er nú ekki meira karlmenni en svo að fyrir skemmstu lagði ég höfuð mitt á öxl ókunnugs manns og grenjaði hátt. Með þungum ekka þuldi ég faðirvorið, aðframkomin af tilfinningaríkri og djúpri sorg. Ekki saka mig um karlmennskupungatilfinningaleysi, því ég grét sárar en lítið barn þegar Arsenal tapaði fyrir Barcelona í meistaradeildinni á dögunum.

fimmtudagur

Ellismellur

Eftir situr ráðherralið Sjálfstæðisflokksins og minnir mann einna helst á Kastljósið í Sjónvarpinu. Þar má finna bæði ungar konur og eldri menn en ekki hið gagnstæða, eftir einhverju náttúrulögmáli sem bæði sjónvarp og flokkur virðast trúa á.

Ármann Jakobsson, snilldarpenni á Múrnum og besservisser, virðist vera með aldursskilgreiningar á hreinu. Það vinna bara yngri konur og eldri menn í Kastljósinu! Ekki ætla ég nú að leggjast í vörn fyrir Þórhall Gunnarsson, Kristján Kristjánsson og Jónatan Garðarsson. Ef marka má Ármann eru þeir fullir bjartsýni á framtíðina vegna fyrirheita stjórnmálamanna um að hlúa betur að eldri borgurum. Bjartsýnir, en hrumir.

Ekki verður því heldur á móti mælt að Ragnhildur Steinunn, Þóra og Eyrun eru ungar konur, allar undir þrítugu, og þessi hnífskarpa greining Ármanns hárrétt hvað þær varðar.

En útfrá þessum orðum hans er ég soldið hugsi yfir stöðu minni, svona sem eldri maður samkvæmt skilgreiningu. Ég er fæddur árið 1969 og hef ekki lagt mikið til hliðar til elliáranna sem brustu svona óforsvarendis á þegar ég fletti í vinstrisinnuðu veftímariti. Það er hinsvegar spurning hvort ég ætti að smella í eina hárálitahræru til að vinna gegn öldruninni.

Samkvæmt þessari skilgreiningu ætti Jóhanna Vilhjálms að nýta tímann vel því sú góða vinkona mín er fædd árið 1970 og telst því gömul kona eftir ár eða þarumbil. Og vonandi lendir Ármann Jakobsson, jafnaldri Jóhönnu, ekki í teljandi vandræðum með blöðruhálskirtilinn þegar hann kemst í hóp okkar gamalmennanna eftir áramót. Og drottinn minn dýri, við skulum ekki nefna risvandamálin.

Svo er talað um æskudýrkun í sjónvarpinu!

miðvikudagur

Hér vantar góða fyrirsögn!!!

Þegar á móti blæs er gott að geta haldið kúlinu. Það er reyndar ekki öllum gefið og fátt veit maður leiðinlegra en þegar fólk gefst upp. Við eigum alltaf að berjast áfram – þrauka – ef ekki vill betur, því mótlætið getur hert okkur. Mér þótti því leiðinlegt fyrr í kvöld að sjá dóttur mína og Þóru, þrjóta öreindi í erfiðri baráttu . Lyppast niður einsog aumingja, vegna þess að aðstæður voru þeim ekki hagfelldar. Að rjúka í panikki í ljósatíma, þótt hann rigni nokkra daga í sumarbyrjun, er uppgjöf. Megi góður guð vaka yfir þeim á erfiðum tímum.

Ég verð víst að teljast aum fótboltabulla. Hef séð einn heilan leik á HM það sem af er, einn fyrri hálfleik og svo bara brot úr leik hér og þar. Hef þó náð flestum mörkum í þættinum 4-4-2. Ástæðan er skrambans vinnan sem slítur ekki bara í sundur fyrir manni daginn, heldur eyðileggur einnig HM. Nú er þriggja vikna sumarfrí framundan og þá togast á leikirnir og fjölskyldan. Af hverju á ég ekki fjölskyldu sem er að keppa á HM? Af hverju er ég ekki í sambúð með Jurgen Klinsmann? Þá væri lífið talsvert auðveldara.

Vinur minn Þorsteinn J fer á kostum í þættinum 4-4-2. Hann hefur alltaf verið frábær í þessum fótboltaþáttum að mínu mati. Lifandi spyrill og frjór í efnistökum. Í dag skaut hann hinsvegar langt yfir markið í efnisvali. Auglýsingaviðtalið við framkvæmdastjóra Jóa Útherja um HM peysurnar sem eru búnar en ný sending sem betur fer væntanleg, var vandræðalega aumt. Koss Ingólfs Hannessonar á kinn Guðjóns Þórðarsonar um árið var hreinlega kúl í samanburðinum, þótt sá íþróttaatburður hafi framkallað aumingjahroll alla leið ofan í nára! En takk fyrir þáttinn samt, Þorsteinn og Heimir.

þriðjudagur

Roger Waters

Roger Waters var flottur. Þetta var allt voða fagmannlegt hjá honum og ekki útá neitt að setja nema þá helst hvað þetta var langt prógramm. Að standa á sviðinu í tvo og hálfan tíma er bara bull og skiptir þá engu hvort þú heitir Roger Waters, Bubbi Mortens, Geir Ólafs eða Bananarama. 15 mínútna pissupása i miðju giggi breytir þar engu. Þetta var þrískipt, fyrst slagarar í klukkutíma eða svo, pása, síðan dark side of the moon og svo uppklapp sem samanstóð af þremur lögum af the Wall.

Hápunktar kvöldsins:

Wish you where here, frábært lag sem framkallaði gæsahúð á fleirum en mér í Egilshöll í kvöld.

Leaving Beirut: Magnaður texti, magnað lag. Frábært samspil tónlistarinnar, textans og teiknimyndarinnar sem sýnd var á tjaldinu á meðan á fluttningi stóð.

Time: Gæsahúðarmóment af dark side of the moon. Intróið í þessu lagi er með þeim flottari í tónlistarsögunni og þarna naut Nick Mason sín sérlega vel. Klassalag.

Comfortably numb. Lokalag tónleikanna. Eitt flottasta lagið af the wall. Að mínu mati er viðlagið eitt það besta í gervöllum geiminum.

Leiðindi kvöldsins:

Money: Þetta lag er náttúrulega nánast orðið þreyttara en I cant get no satisfaction með Stones. Flott lag í upphafi, en búið að nauðga úr því öllu lífi í gegnum tíðina. Slakasta lagið á dark side of the moon.

Another brick in the wall: Þetta er sömuleiðis orðið útjaskað, var þó skemmtilegra en Money. Salurinn tók eðlilega vel við sér þegar þetta var flutt. Leiðindi kvöldsins voru nauðsynleg leiðindi sem máttu ekki missa sín.

Hvað vantaði:

Goodbye blue sky. Flottasta Pink floyd lag allra tíma. Punktur.

Athyglisvert:

Roger Waters og Nick Mason eru forríkir menn og vita ekki aura sinna tal. Af hverju skyldu þeir alltaf ganga í sömu fötunum?

sunnudagur

Tommís vs Biggís

Vaknaði á óguðlegum tíma í morgun til að taka þátt í knattspyrnumóti sem ættingjar Þóru halda árlega. Þar mættust lið Biggís og Tommís. Skemmst er frá því að segja að Tommís unnu sannfærandi sigur og voru betri á öllum sviðum knattspyrnunnar. Með sigri Tommís má segja að íþróttin sjálf hafi sigrað því bola og óþokkabrögð Biggís settu ljótan svip á leikinn. Á meðan fótabúnaður Tommís voru hefðbundnir fiðurmjúkir íþróttaskór mættu Biggís í klossum með stáltá, auk þess sem átta tommu oddhvassir stáltakkar sáust á nokkrum leikmönnum. Þá kom það mér talsvert á óvart að sumir leikmenn Biggís skyldu mæta vopnaðir til leiks. Rýtingar og karatestjörnur eiga ekki neitt erindi inná knattspyrnuvöll.

Síðustu vikur hefur verið stríðsástand á heimilinu því Þóra hefur lagt mikið á sig við að koma mér í skilning um alvöru leiksins, baráttu uppá líf og dauða, þar sem ekki er tomma gefin eftir. Mér þótti því skrítið að Þóra þurfti að blása á sér hárið klukkustund fyrir leik, úða yfir sig hárspreyi og troða framan í sig maskara, ásamt öðru kvennadedúi sem ég kann ekki að nefna. Þá hafði ég enn frekari ástæðu til að efast um alvöru leiksins þegar ég mætti á leikvanginn og sá að keppnisliðin voru nánast eingöngu skipuð gamalmennum og börnum.

Til að auka ekki á niðurlægingu Biggís er rétt að rekja ekki einstök atriði leiksins frekar.

Nokkur ágreiningur reis eftir leik um það hvort liðið hefði í raun skorað fleiri mörk. Til að eyða allri óvissu fylgir hér stutt samantekt: Hver leikmaður Tommís skoraði að meðaltali eitt mark í leiknum. Hver leikmaður Biggís skoraði ekki nema 0,7 mörk í leiknum. Augljóst er því að Tommís sigruðu með nokkrum yfirburðum. Ja, ekki þá nema leikmenn Biggís hafi verið fleiri inná vellinum, en það væri nátturulega svindl og ljóst að Biggís viðurkennir ekkert slíkt

Þá að einkunnagjöf:

Flottasti búningurinn: Sóley Tómasdóttir. Hörð samkeppni var um flottasta búninginn því ræpurauði 30 ára gamli fishergalli Tómasar kom líka sterklega til greina.

Besti miðjumaðurinn: Þóra, Kristín og Sóley. Svo sannfærandi í hlutverkinu að þær hreyfðu sig ekki út fyrir miðjan völlinn.

Besti þjálfarinn: Auðvitað Þóra. Hún veit hvorki hvað sveeper eða bakvörður er og telst því algjört júník í þjálfarastéttinni.

Tuddi leiksins: Ekki er hægt að gera upp á milli Skarpa, Árna, Arnars og Snjólaugar. Útsjónarsemi þeirra í fautaskap, fláræði og svindli jaðrar við snilligáfu.

Tilgangslausasti leikmaðurinn: Guðrún Jónsdóttir. Hún toppaði Kötlu léttilega í tilgangsleysinu þótt sú yngri hafi sofið útí vagni allan leikinn.

Flottasta markið: Mjög erfitt að gera upp á milli fyrsta, annars, þriðja, fjórða og fimmta mark Zygmarrs. Hin fjögur mörkin hans voru einnig mjög glæsileg.

laugardagur

Röng forgangsröð ríkisstjórnarinnar

Auðvitað tókst Halldóri Ásgríms og Geir Hilmari að eyðileggja fyrir manni leik Englendinga og Paragvæ í dag. Var alsæll að fylgjast með fyrri hálfleik þegar Þórhallur ræsir mig út til að taka viðtal við stjórnarandstöðuna um ráðherraskiptin, en formenn stjórnarflokkanna voru svo smekklegir að gera þetta í seinni hálfleik. Svo missti ég af leik Svía og Trínidad af því ég þurfti að taka viðtal við nýjan forsætisráðherra. Ekki má svo gleyma því að Halldór hélt miðstjórnarfund sem hófst á sama tíma og opnunarleikurinn. Að mér læðist sá grunur – ja gott ef ég er ekki orðin þess fullviss, að þessu fólki finnist landstjórnin eitthvað merkilegri en heimsmeistaramótið í fóbó! Ég ætla að vona að þetta sé misskilningur hjá mér því fólk með svona brenglaða forgangsröðun á ekki að stjórna svo miklu sem húsfélagi í meðalstórri blokk, hvað þá öllu lýðveldinu.

Er reyndar hissa á því að Framsókn flýtti ekki flokkstjórnarfundinum sínum einsog rætt var um. Það hefði verið í takt við annað að halda hann á sama tíma og úrslitaleikurinn fer fram í Þýskalandi.

Ef eitthvað vit er í þessum nýju ráðherrum láta þeir það verða sitt fyrsta verk að smíða frumvarp sem bannar stjórnmálamönnum að sprikla stjórnlaust á meðan HM er í gangi.

Reyndar mætti ganga lengra og fá smá páskafíling í þetta á meðan á mótinu stendur. Loka bara öllu. Með lögum!

Forrest Gump

Hef verið að velta einu fyrir mér. Þegar ég klæðist nýmóðins hlaupaátfitti, alvöru hlaupaskóm og spandexgalla, þá lít ég út einsog forljót geimvera í kafarabúning. Þegar Þóra klæðist samskonar átfitti þá lítur hún út einsog afreksmaður á Olympíuleikum. Hvernig stendur eiginlega á þessu?

Svo hef ég verið að velta öðru fyrir mér. Þegar ég er búin að hlaupa mína 10 kílómetra þá lít ég út einsog afrekmaður á Olympiuleikum. Þegar Þóra er hinsvegar búin með sinn hring þá lítur hún út einsog langlegusjúklingur í andnauð í súrefniskassa á Vífilstöðum. Kannski skiptir lúkkið ekki öllu máli?!?

Nú er ég að komast í almennilega í gang aftur í hlaupunum eftir fremur brösótta tíð síðustu mánuði. Þarf að fara 40 – 50 kílómetra á viku ef markmið sumarsins eiga að nást. Einsog staðan er núna er ég að fara 10 kílómetrana fullhægt, svona miðað við síðasta sumar amk.

Hálft maraþon í ágúst, það er stefnan. Þóra ætlar 10 kílómetrana og úr því að ég er búin að klína þessu á netið þá verður ekki aftur snúið hjá okkur. Helvíti mikið púl framundan með óheyrilegum kaloríubruna. Maður lifandi hvað ég get étið mikið af nammi og viðbjóði næstu vikur án þess að hafa áhyggjur.

Kær kveðja,

Lassi Viren

fimmtudagur

Árekstrar

Árekstrar strax byrjaðir í fameilíunni vegna HM, sem hefst á föstudag. Var víst búin að melda mig í eitthvað ættarfótboltamót á laugardaginn, en fattaði síðan að á sama tíma er MJÖG áríðandi leikur á HM. Það þarf ekki mikla hugarleikfimi til að velja á milli fyrsta leik Englands á mótinu og þess að hópast útá óslétt tún í rigningu með ættingjum Þóru, til að leggja stund á eitthvað sem gæti ekki einusinni kallast fótboltaígildi með góðum vilja. Enda er Þóra og allt hennar slekti ævintýralega hæfileikalaust í knattspyrnu og þekkir varla muninn á takkaskóm og Kínakáli. Þetta lið heldur að rangstaða sé gangtegund hjá íslenska hestinum og að leikkerfið 4-4-2 sé flókið afbrigði af Soduko og ætti því frekar að fá útrás fyrir takmarkaða hreyfigetu sína í brennó á einhverju huggulegu bílastæði í úthverfunum. Þannig að ég segi pass með stóru Péi. Þótt Wayne Rooney sé meiddur hjá Englendingum er ekki þar með sagt að enska liðið sé orðið svo vonlaust að ég fylgist frekar með Sóleyju, Kristínu, Þóru og þeirra ættmennum, hengslast með kauðahreyfingum um völl í aumkunarverðri tilraun til að slæma tá í bolta. Færi frekar ódeyfður í góða ristilspeglun.

Ef nærveru minnar er óskað einhversstaðar á meðan á HM stendur er rétt að benda á miðvikudaginn 21 Júní, klukkan 14. Þá hefst stórleikur Angóla og Iran. Gæti hugsað mér að fórna fyrri hálfleik fyrir einhvern góðan málstað. Kannski!

Það er stríð í Framsókn. Nánast klofinn flokkurinn logar stafna á milli. Stórmenni senda hver öðru tóninn, vantraustsyfirlýsingar fljúga á milli manna og deilt er hart um formann, varaformann, ritara, stefnu, ráðherrastóla og hvenær halda skuli flokksþing. Allir sem vettlingi geta valdið innan framsóknar deila. Nema Kristinn H Gunnarsson! Skyndilega lítur hann út fyrir að vera helsti boðberi friðar, samlyndis og sáttfýsi innan flokksins. Merkilegt.

miðvikudagur

PR og OR

Getur verið:

Að sá sem hannaði útgöngu Halldórs Ásgrímssonar úr pólitík

og

sá sem hannaði útgöngu Ingibjargar sólrúnar úr R listanum

og

skipstjórinn á Titanic

sé einn og sami maðurinn?

----

Verð á hita og rafmagni er óþarflega hátt. Fáir botnuðu nokkuð í Línu net og blessað risarækjueldið er mikil ráðgáta. Orkuveituhúsið fór skvilljónir fram úr áætlun og Alfreð hækkað orkuverð þegar hann átti að lækka það. En hverju er ekki sama! Fimm mínútna orkuveituauglýsingin, þar sem allir líta út fyrir að vera útúrstónd af gleði og taumlausri lyfjaneyslu, strokar út allar syndir. Það hefði verið hægt að hvítþvo Enron með þessari snilld.

þriðjudagur

Og ræðumaður kvöldsins er.....

Sá að JC var að velja Steingrím J besta ræðumann eldhúsdagsumræðna. Þrátt fyrir að ég sé mikill áhugamaður um pólitík, lagði ég ekki í það fyrir mitt litla líf að horfa á eldhúsdaginn. Einfaldlega vegna þess að þar sameinast menn um að gera áhugavert efni, sem stjórnmál eiga að vera, að einhverjum mestu leiðindum sem um getur. En Steingrímur er væntanlega vel að titlinum komin, því á slæmum degi flytur hann mál sitt sköruglegar en flestir aðrir þingmenn. Ég velti því oft fyrir mér hvernig á því standi að fólk sem hefur atvinnu af því að rökræða hugmyndir og þarf að tjá sig nær daglega um öll hugsanleg mál, skuli vart geta haldið stutta ræðu skammlaust. Hversu oft sér maður ekki þingmenn í ræðustól alþingis, stamandi og tafsandi, eða lesandi illskiljanlegan texta af blaði. Fullkomlega blæbrigðalaust. Á meðan restin af þingheimi sefur. Hreint út sagt eru sumir þingmenn ámóta mælskir og skólakrakkar.

Steingrímur flytur mál sitt af sannfæringu og ástríðu. Hann er tilfinningaríkur ræðumaður sem fær fólk til að hlusta. Aðrir mjög góðir eru Össur, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún og Ögmundur. Einnig má nefna Sigurð Kára, Mörð, Bjarna Ben og Þórunni Sveinbjarnardóttur. Davíð Oddsson var svo af sama kaliberi og Steingrímur J.

Hvort þetta ágæta fólk er svo að segja eitthvað af viti er svo annað mál.

sunnudagur

Dr Gunna syndrómið, part II

Hressileg voru viðbrögðin við síðustu færslu í kommentakerfinu. Greinileg að flestir kannast við heilkennið sem ég skrifa um og kenni við dr Gunna - með réttu eða röngu. Doktorinn sjálfur og Arnar Eggert músíkskríbent sverja reyndar af sér sjúkdóminn í svari til mín. Svo ákaft vísa þeir syndróminu á bug að halda mætti að þar færu upprennandi útvarpsstjörnur af Bylgjunni sem í hjáverkum sinntu störfum í aðdáendaklúbbi Dumbó og Steina og Boney M. Og dyttu inní tilfallandi bakraddarsöng hjá Álftagerðisbræðrum. Kommon drengir, Steely Dan og Paul boring bítillinn McCartney!! Ekki tapa öllu kúlinu á einu bretti:-)

Og þar sem einhverjir fattleysingjar hafa tekið þessu sem dissi á meistarana er rétt að taka fram að þessir tveir menn eru í miklum metum hjá Zygmarri. Flest það sem Arnar Eggert skrifar um tónlist í mogga les ég. Einfaldlega vegna þess að hann veit og kann allt um músík, þótt eðlilega sé ég ekkert alltaf sammála honum. Ástríða fyrir tónlistinni skín í gegn í skrifum hans, sem er tilbreyting frá flatneskju margra annarra skríbenta. Og dr Gunni er náttúrulega maðurinn sem gaf mér margar ánægjustundir með lögum á borð við Grænir frostpinnar, Sóli, Bimbirimbirimbam, Sýrubælið brennur og Öxnadalsheiði. Þá er popppunktur frábært tíví og bloggið hans afburðagott. Auðmjúkur hneigi ég mig í duftið, sest síðan við fótskör meistarans, kyssi tær hans og leggst flatur fyrir allri snilldinni. Takk.

Prumpulagsleiðindin færa honum reyndar gommu af mínusstigum þar sem sonur minn afrekaði að spila laghelvítið tuttuguþúsundsinnum eina útileguhelgina. Og hér nefnum við ekki á nafn sjóræningjann Systu sem mín vegna má rotna í rotþró af sömu ástæðu. Rétt að taka fram, svona til að stilla svívirðingum í kommentakerfinu í hóf, að hér er átt við sögupersónu lagsins en ekki Heiðu sem túlkar hana.

En aftur að dr Gunna heilkenninu. Maður að nafni Óskar Pétur á skemmtilegasta og vandaðasta kommentið. Hann tekur upp þykkjuna fyrir doktorinn, sjálfan sig, Árna Zúra, Andra Frey og fleiri snillinga, og notar meðal annars orðið árás um skrif mín. Hann er í svo mikilli vörn fyrir málstaðinn að hann er komin inní markið, rétt einsog skrif mín hafi verið alvörugefin og djúpþenkjandi ádeila á firringu heilkennishafanna en ekki meinlaus og þreytuleg bloggskrif eftir miðnættið. Ekki er hann nú beint fámáll maður hann Óskar, því hann skrifar heila BA ritgerð um efnið í kommentakerfið mitt í stað þess að segja bara Fuck You, Zygmarr! Auðvitað þykir mér vænt um slíka fyrirhöfn, því manngarmurinn virðist hafa skrifað niður 17 þúsund hljómsveitir í stafrófsröð til að færa sönnur á mál sitt. Drottinn allsherjar gefi að listinn sé kópípeistaður einhverstaðar frá!!! Listinn er reyndar úbersvalur á köflum, því þar má sjá gömul goð á borð við Young goods, Pavement, Wedding present, Television og Jesus and the mary chain. Restin er svo eitthvað popprúnk sem engin fílar:-)

Best að taka frá 15 gígabæt fyrir svörin hér að neðan.

Dr Gunna syndrómið

Í dag langar mig að fræða ykkur um drGunna heilkennið. DrGunnasyndrómið er velþekkt fyrirbæri og bráðsmitandi. Karlar á aldursbilinu 18-40 ára eru í sérlegum áhættuhópi, einkum ef þeir stjórna útvarpsþáttum. Einkennin eru nokkur og þessi helst:

1. Smituðum einstaklingi finnst hallærislegt að hlusta á tónlist sem aðrir hlusta á. Hún er óæðri.

2. Ef fleiri en þrír kaupa disk með einhverri hljómsveit, þá kveikir smitaður einstaklingur í sínu eintaki opinberlega og í votta viðurvist.

3. Smitaður einstaklingur hefur þörf fyrir að hlusta á óæðri tónlist og gerir það iðulega en... í felum.

4. Rík þörf fyrir að tala illa um tónlist sem aðrir hlusta á, er sameiginlegt einkenni allra smitaðra einstaklinga.

5. Smitaður einstaklingur “namedroppar” í sífellu óskiljanlegum og óþekktum hljómsveitarnöfnum. Því skrítnari nöfn sem hann nefnir, því öflugri verður fullnægingin sem hann fær. (sjá lista neðar í þessari bloggfærslu.)

6. Allir smitaðir einstaklingar eiga bol með áletruninni I hate Radiohead.


Þekktir einstaklingar með þetta heilkenni eru Gunnar Lárus Hjálmarsson, Arnar Eggert á mogganum, Árni Matt á mogganum, Þossi, Bibbi Curver, Þorgrímur Þráinsson og Ívar Guðmunds á Bylgjunni.

Rétt er að taka fram að ég var sjálfur þungt haldin af þessum kvilla um árabil. Mikil samskipti við bindisklætt fólk í sjónvarpi hefur smám saman læknað mig. 10 daga stórskemmtileg dvöl í Evróvisjónlandi á dögunum, nánast eingöngu með samkynhneigðum körlum, virðist svo endanlega hafa bælt niður þessa tendensa. Enda hlusta hommar ekki á rokk, bara á Barböru Streisand, svo alhæft sé hressilega án allra fordóma að sjálfsögðu.

Ástæðan fyrir því að ég finn fyrir þeirri knýjandi þörf að skrifa um þetta heilkenni, er sú að rokkþátturinn minn á Rás tvö er að fara í frí frammá haustið. Djéskoti hefur mér þótt gaman að sitja inní stúdíó rásar á sunnudögum í vetur og spila þá tónlist sem mér þykir skemmtileg. Rokk frá öllum tímum, af allri gerð og sort - þungt og létt. Tónlist sem allir doktorar Gunnarar þessa heims segjast fyrirlíta, en hlusta á í laumi.

Eftirtaldar sveitir hafa verið fastagestir í þættinum mínum eða því sem næst:

Led Zeppelin
Queens of the stoneage
System of a down
Bítlarnir
Wedding present
Rolling stones
Korn
Nirvana
Nick Cave
AC-DC
Alice in chains
Smiths

Eftirtaldar sveitir hafa ekki heyrst í þættinum, en hefðu gert það ef drGunnaheilkennið hefði ráðið för:

Billy Monkeyface and the blowjobs.
Grænmetisgúrkan slefar
To hell with the statistics
Sporjárn
The old armchair
Dildó and the dodos
Ungfrú hnífskarpur og gamla brýnið
Revenge of the whores outside the old factory with no more paint on it!
Þolli og þjóhnapparnir

Hvorn þáttinn hefðuð þið hlustað á?

laugardagur

Gáfuð börn

Vil bara deila því með lesendum að hér í Kórsölunum búa afburðargreind börn. Undrabörn sennilegast. Að mati Þóru er stutt í að Katla verði altalandi
en barnið er rúmlega tveggja mánaða. Þetta metur hún útfrá hljóðum sem barnið gefur stundum frá sér. Að hennar mati kann barnið að greina á milli ábendingarfornafna og framsöguháttar. Þá eru sum hljóðin glettilega lík afturbeygðum fornöfnum með viðskeyttum greini að því er Þóra segir. Mér heyrist þetta reyndar bara vera ungbarnahjal, en í hvert sinn sem ég brydda uppá þeirri kenningu er ég slegin kaldur með þeirri óhrekjanlegu staðreynd að ég kann ekkert í málfræði. Skák og mát.

Engin þarf hinsvegar að velkjast í vafa um að Salka er undrabarn. Hún væri fyrir löngu orðin eldflaugaverkfræðingur með sérþekkingu á fljótandi eldsneyti, ef leikskólinn héldi ekki þessum litabókum og kubbadóti að henni alla daga. Flókin burðarvirkjagreining innan mannvirkjagerðar væri líklega við hennar hæfi, en nei nei, syngjum frekar um tröllskessur og álfamær í álögum. Og sullum soldið í keri líka. Barnalegt.

Í ljósi þess hversu mikil snilligáfa er fólgin í ungviði heimilisins, er nöturlegt til þess að vita að við foreldrarnir erum með greind á við útskorið skóhorn.

fimmtudagur

Þrjár hugleiðingar

Er það boðlegt að helsta sönnunargagn í afar alvarlegum ásökunum manns á hendur stjórnmálaflokki sé tölvupóstur frá konu þar sem fram kemur að hún hafi heyrt einhverju fleygt í heita pottinum?

Geta Bubbi Morthens og Eiríkur Jónsson, fyrrum dv blaðamaður, setið saman í 12 mínútna sjónvarpsspjalli án þess að uppúr sjóði? Semja þeir varanlegan frið? Af hverju vill Bubbi ekki bjóða Eiríki á tónleikana sína? Svar sést í Kastljósi föstudagskvöldið 2. júní.

Og það mikilvægasta:

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem get breytt,
og vit til að greina þar á milli.

Amen