miðvikudagur

Krútt, eða ekki.

Á mínu heimili er nú deilt um hugtakið krúttlegt. Tvö ung börn eru á heimilinu, Salka sem er þriggja ára og Katla sem er ríflega tveggja mánaða. Þær eru mestanpart óskapleg krútt, einstaklega miklar dúllur og alger rassgöt. Deilan á heimilinu snýst svo um það hvort allt sem þessi blessuðu börn gera, sé krúttlegt eða ekki. Að mínum dómi eiga krúttilegheitin sér takmörk, en hér taka ekki allir undir það.

Katla litla liggur oft hér í stofusófanum eða uppí rúmi og skoðar heiminn, skríkir, grenjar eða brosir sínu blíðasta til allra. Á síðasta sólahring hefur hún legið bleyjulaus í stutta stund á báðum stöðum með býsna fyrirsjáanlegum afleiðingum. Afrakstur bleyjuleysisins hefur verið ákaflega sýnilegur, bæði í sófa og rúmi. (Og reyndar tíma og rúmi líka, því bletturinn er stór og lengi að þorna!)

Móðurinni finnst þetta bara sætt og hlær. En hún hlær ein. Þar sem nýbakaðar mæður geta verið óskaplega árásargjarnar þegar þeim finnst vegið að afkvæmum sínum, þori ég ekki fyrir mitt litla líf að nota orðið ógeðslegt yfir það sem gengið hefur á í sófanum mínum. Orðið viðurstyggð fangar hinsvegar prýðilega hughrif mín þegar heilinn vinnur úr upplýsingum af vettvangi, sjónrænt og ekki síður í gegnum þefskynið. Svonalagað á ekkert erindi í stofusófann minn og skiptir engu hvort stykkin koma frá kettinum, Kötlu eða Kölska sjálfum. Þetta er ekki krúttlegt fyrir fimmaura!

Sé fyrir mér að eftirfarandi samskipti eigi sér oft stað á næstu mánuðum:

Þóra: “Simmi, nennirðu að skipta á barninu?”
Simmi: “Nei gerð þú það, þér finnst þetta krúttlegt, ekki mér!”

þriðjudagur

Ritdómur

Í dag lauk langri bið. Loksins fékk ég bókina í hendur sem ég hef beðið óþreyjufullur eftir. Þetta er stór og mikil bók sem ég mæli óhikað með, enda er hún gagnleg, stórfróðleg og á köflum ákaflega spennandi. Spennan er að mestu tilkomin vegna óvæntra ættartengsla sumra söguhetjanna, en einnig spilar inní einkennileg búseta margra þeirra persóna sem um er fjallað. Söguþráðurinn er einfaldur, barnalegur jafnvel, og höfundar verða seint sakaðir um að flíka beittu stílvopni. Áhugafólk um bókmenntalegt kruðerí og flókin stílbrögð verður því vafalítið fyrir vonbrigðum og þeir sem lesa Thor Vilhjálmsson að staðaldri ættu að forðast þessa bók einsog pestina. En þótt stíllinn sé einfaldur er hann þróttmikill. Samhengi textans liggur ljóst fyrir frá fyrstu síðu og komið er beint að kjarna málsins, án málalenginga sem er mikill kostur í svona verki. Áþreifanlegur skortur á einni ákveðinni söguhetju kemur ekki að sök og er það þvert á móti stærsti kostur bókarinnar hversu margar persónur koma fyrir, þótt ekki sé mikið gert til að glæða þær lífi. En einsog svo oft í svona bókmenntaverkum er helsti kosturinn jafnframt einn mesti veikleikinn. Á köflum er nefnilega erfitt að muna öll þessi nöfn, auk þess sem innbyrðis tengsl söguhetjanna eru ekki alltaf ljós. Mikill fjöldi tölustafa er í bókinni og þegar lesandinn hefur áttað sig á innbyrðissamhengi talnanna er sem ný veröld opnist. Símaskráin 2006 fær fimm stjörnur, alveg hiklaust.

mánudagur

Uppboð

Ég á inni gríðarlegt magn lítið notaðra sumarfrísdaga. Vegna þess að í nærumhverfi mínu er talsverð andstaða við að ég taki allt það sumarfrí sem ég á rétt á, þá hef ég ákveðið að bjóða þessa daga til sölu. Um er að ræða 15 virka sumarfrísdaga. 10 þeirra eru í gríðargóðu veðri, sól og blíðu, fínir í sumarbústaðinn. Þrír daganna eru sólarlausir en hlýjir. Þeir henta vel til frjálsra ásta og allskyns mótmæla og því eru sérkjör möguleg fyrir flokksbundið fólk í vinstri grænum. Tveir daganna eru svo rigningadagar og fást þeir á hálfvirði, fínir fyrir fluguhnýtingamenn, módelsmiði eða hasshausa svo dæmi séu tekin. (Minnið mig á að kvarta til BSRB vegna rigningardaganna þar sem sumarfrí á undir öllum kringumstæðum að vera í sól.)

Tilboðum hæstbjóðenda tekið án frekari skilyrða.


Að lokum þrjár spurningar:

1. Ræða athafnastjórnmálamenn aldrei um málin sem þeir framkvæma?

2. Gera umræðustjórnmálamenn aldrei neitt nema tala saman?

3. Hvor orðaleppurinn er þreyttari, athafnastjórnmál eða umræðustjórnmál?

sunnudagur

Farsinn eftir kosningar.

Staður: Ruv
Tími: Eftir kosningavöku.

“Djöfull var þetta flott hjá okkur. Við vorum miklu betri. Shit hvað grafíkin hjá NFS var vond, var þetta hannað á bangsadeildinni? Hvað voru þau að pæla? Það nennti engin að horfa á þetta krapp hjá þeim. Af hverju voru þau ekki bara með Halla og Ladda í stjórnmálaskýringunum? Eða lásu bara uppúr brandarablaðinu? Þetta eru stjórnmál forkræingátlád. Og þetta sett, var það hannað af Sylvíu Nótt? Rúv rúlar. Langbest. Logi er væntanlega á þvílíkum bömmer þarna uppfrá.”

Staður: NFS.
Tími: Eftir kosningavöku.

“Glæsilega gert hjá okkur. Við rúlluðum yfir Rúvarana. Miklu betri grafík, innihaldsríkari stjórnmálskýring og allt miklu líflegra. Flottara settið hjá okkur, þeirra var einsog útfarastofa. Rosalega var þetta þungt og kerfiskallalegt í efstaleitinu. Við tókum þau í nefið. Langflottust. Ætli Þórhallur, Jóhanna og Palli sjái ekki eftir að hafa farið yfir?”

Staður: Valhöll
Tími: Þegar úrslit urðu ljós.

“Við erum klárlega sigurvegarar þessar kosninga. Augljóst að fólk vill sjálfstæðisflokkinn til áhrifa og hafnaði R listanum. Samfylkingin skíttapaði þessum kosninum. Rosalega var þetta slappt hjá þeim. Það er í raun og veru bara gott að hafa ekki náð hreinum meirihluta. Sjö menn er eiginlega miklu betra, því það er svo gaman að kynnast nýju fólki í meirihlutasamstarfi. Gæti ekki verið ánægðari”

Staður: heimili Dags B Eggertssonar
Tími: þegar úrslit urðu ljós.

“Þetta gekk bara flott hjá okkur. Aumingja Sjallarnir með allt niðrum sig. R listaflokkarnir komu bara vel útúr þessu. Við erum klárlega sigurvegarar, enda miklu betra að fá fjóra borgarfulltrúa, heldur en fimm eða sex. Þekkingarhátæknisamfélagsþorpið svínvirkaði.”

Staður: Heimili Svandísar Svavarsdóttur.
Tími: Þegar úrslit urðu ljós.

“Vá hvað við getum sátt við unað. Vinstri sveiflan er heldur betur sterk í þessum kosningum. Pú á einkabílinn og herinn burt.”

Staður: Heimili Ólafs F Magnússonar.
Tími: Þegar úrslit urðu ljós

“Við erum sigurvegararnir, engin spurning. Fólk var greinilega að kjósa kvótann burt. Vá hvað ég er miklu meiri umhverfissinni en vinstri grænir.”

Staður: Heimili Björns Inga.
Tími: Þegar úrslit urðu ljós.
“Klárlega varnarsigur. Auðvita er algerlega brilljant að hafa fengið færri atkvæði en nokkru sinni fyrr í Reykjavík. Hvernig á að vera hægt að túlka slíkt sem tap fyrir Framsókn? Og kommon, við settum íslandsmet í peningaaustri sem varð til þess að sex af hverjum hundrað kjósa okkur! Sagði ég varnarsigur, fyrirgefiði, þetta er nátturulega stórsigur. Halldór hlýtur að verða næsti aðalritari sameinuðu þjóðanna”

Allir unnu að sjálfsögðu. Varðandi einvígi sjónvarpsstöðvanna á kosninganótt hef ég eitt að segja. Stöðin sem flaggar Ingva Hrafni tapar alltaf.

laugardagur

Flott sjónvarpsefni!

Ætli það taki ekki við hressileg gúrka að loknum kosningum og meirihlutaþreifingum. Og standi út sumarið. Eftir þrjár vikur af sumarfríi mæti ég aftur til vinnu í júlí, sem undir venjulegum kringumstæðum er gúrkumánuður dauðans. Þá fara skemmtileg og skrýtin mál að ná flugi í fjölmiðlum, vegna þess að stærri málin liggja gjarnan í dvala yfir hásumarið. Hér er topp 7 listi yfir mál sem ég vil sjá í Kastljósi í júlí.

1. Karl á fertugsaldri týnir derhúfu í Kringlunni. Dramaviðtal með vettvangsferð og rætt við aðstandendur. Við þetta þarf að semja mjög áhrifaríka tónlist til að angist mannsins skili sér betur heim í stofu.

2. Brúnkuklútar, með og á móti. Katrín Anna feministi og Ásdís Rán, æðsti prestur íslenskra nærbuxnamódela, klóra augun hvor úr annari á 12 mínútum sléttum í þrusu debatti. Bannað börnum.

3. Neytendamál ferðamanns í umferðinni. Jóhannes Gunnarsson frá neytendasamtökunum, Magnús Oddsson frá ferðamálastofu og Óli H. Þórðar frá umferðarráði í léttu, skemmtilegu og fræðandi spjalli. Rakið sunnudagsefni fyrir Jóhönnu Vilhjálms. Eina málið sem hún er ekki vanhæf í á þessu ári.

4. Tvær rollur sleppa úr girðingu í Grafningnum. Ýtarleg fréttaskýring með mikilli grafíkvinnslu.

5. Keppni í hver getur haldið orðinu lengst, með því að segja sem minnst. Ögmundur Jónasson og Dagur B Eggertsson keppa til úrslita.

6. Uppgjör í illu. Arnþrúður Karls og Jónína Ben verða læstar inní myndveri í sólarhring. Kveikt á öllum vélum allan tímann. Blóðugt raunveruleikasjónvarp einsog það gerist best.

7. Hvar eru þau nú? Logi Bergmann í ítarlegu spjalli.

Úrtölumenn og amlóðar reyna væntanlega að blása þetta fyrirtakssjónvarpsefni af. Ef svo Sigmundur Ernir kommenterar á þessa færslu með frasann sinn, "það er ekki til gúrka, bara latir fréttamenn" þá verður gubbað í Kórsölum. Hef unnið undir vaktstjórn Sigmundar í gúrku og það var nákvæmlega jafnlítið í fréttum hjá honum og öðrum. En kannski er þetta ekki frasi hjá Sigmundi. Frekar prósi!

föstudagur

Sumarfríið

Á inni ævintýralega mikið sumarfrí sem ég tek í nokkrum hollum. Fyrsta hollið er þrjár vikur og er ég búin að plana það í drep. Um er að ræða þrjár vikur frá miðjum júní og fram til tíunda Júlí. Þegar hef ég ráðstafað tíma mínum þessar vikur í uppbyggilegar og gefandi stundir, svo sem einsog vera ber í sumarfríi. Ég ætla nefnilega að rækta áhuga minn á framandi þjóðum og menningu með tvennum hætti. Í fyrsta lagi ætla ég að fylgjast með hollenska landsliðinu á HM af alúð og natni. Í öðru lagi ætla ég að fylgjast með enska landsliðinu á HM af ræktarsemi og ákefð.

Ætli restin af sumarfríinu fari ekki í einhver leiðindi!

fimmtudagur

Fuglaskoðari tapar kúlinu!

Hristi af mér slenið í dag og fór í flottan göngutúr. Þóra var með í för og svo náttúrulega Katla í vagninum. GPS græjan sem ég nota í hlaupin mældi 11,5 km vegalengd á klukkutíma og 45 mínútum. Við löbbuðum frá Ránargötu í kringum Seltjarnarnesið og skoðuðum fuglalífið á meðan við skeiðuðum í kringum tjörnina á Gróttu. Er ég efni í fuglaskoðara?

Getur verið að alvarlegar pælingar um varp bókfinkunnar eigi vel við mig? Er glóbrystingurinn að koma upp ungum í ár? Er jaðraki fallegri fugl en austræna blésgæsin? Af hverju sést álmkraki ekki oftar hér á landi? Og gaman væri ef setrustoppan gerði sér hreiður á svölunum heima! Er þetta lyngstelkur sem flögrar þarna við hlið vepjunnar, rétt ofan við flórgoðann? Bara að skrofan fæli ekki steindepilinn í burtu! Eða var þetta kannski dómpápi eða jafnvel turnfálki?

Neeiii, varla! En álmkraki væri reyndar töff nafn á þungarokkshljómsveit.

Á heimleiðinni áðum við á kaffihúsi. Þar sat fólk innandyra og sagði uppí opið geðið á mér “Nei, er þetta ekki Júróvisjónkallinn”. JÚRÓVISJÓNKALLINN! Kúlið lekur greinilega af mér á ógnarhraða úr því að þetta er orðið viðeigandi ávarp. Er þetta ekki viðurnefnið hans Björgvins Halldórssonar? Eða Eyjólfs Kristjánssonar? Dánarvottorð Simma á Xinu er greinilega útgefið og stimplað af viðeigandi yfirvöldum. En úr því svo er, má ég þá frekar biðja um að vera kallaður JÚRÓVISJÓNHNOKKINN! Hæfir aldrinum betur, finnst mér.

Djöfull skal ég spila mikið Pönk í útvarpinu á sunnudaginn til að vinna gegn þessu.

miðvikudagur

Cave til Íslands

Þetta eru gleðitíðindi. Kallinn hélt tvenna tónleika á Broadway fyrir nokkrum árum og eru það bestu tónleikar sem ég hef séð hér á landi, ásamt tónleikum Korn í höllinni. Á síðari tónleikunum á Broadway sat ég nánast á píanóstólnum við hliðina á Nick. Ég var á fremsta bekk, svo nærri meistaranum að ég fann úr honum andremmuna þegar hann söng og jók það bara á ánægjuna, enda er ég einsog hysterísk smástelpa þegar svona stórmenni eru í minni návist. Ég hefði hirt uppúr gólfinu tyggjóið hans, rammað inn og sett á vegg, ef hann bara hefði skyrpt því útúr sér. Þvílíkir tónleikar! Hann hefur verið minn uppáhaldstónlistarmaður í mörg ár, varla stigið feilspor ef undan er skilin platan Nocturama sem var vond. Gott ef hann er ekki fremri tónlistarmaður en Júróvisjónslektið einsog það leggur sig. Og þó!

Mánudagur á miðvikudegi!

Nokkrar spurningar:

Af hverju fara allir í taugarnar á mér í dag?

Af hverju er alltaf 20 stiga gaddur þegar maður kemur heim frá hlýrri löndum?

Af hverju er ég svona þreyttur?

Af hverju finnst mér kosningabaráttan leiðinleg?

Af hverju sofnaði ég yfir Prison break í gær?

Af hverju nenni ég ekki á æfingu?

Af hverju nenni ég ekki að blogga í dag?

Er nokkuð hættulegt að vera svona jákvæður?

þriðjudagur

Lordi og Simmi. Simmi er þriðji frá vinstri á myndinni

sunnudagur

Búið - bless

Lordi unnu. Frábært mál. Þeir möluðu þetta, sem er óvænt. Ég giskaði á 5-8 sæti. Eina svekkelsið var að Tina Carol, sá stórbrotni listamaður, átti að vera ofar. Sömuleiðis Króatía.

Ísland varð í 13 sæti í undankeppninni, og það vantaði ekki mörg stig uppá. Fengum langmest af stigum frá nágrönnum okkar. 7 frá Danmörku, finnlandi, Noregi og Litháen. 6 frá Svíþjóð, 5 frá uk og Eistlandi, 3 frá svíþjóð, 2 frá portúgal og serbíu, 1 frá Bosníu, króatíu, Frakklandi, Lettlandi og monakó. Vonandi gleymi ég engu, er þreyttur þegar þetta er skrifað.

Úrvinda er reyndar réttara orð eftir þessa törn. Þetta er klepparavinna. Þeir bjánar sem halda því fram að Ruv sé að bruðla þegar kemur að því að senda fólk út, hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala. Við erum þvert á móti of fá hér úti, og þá tala ég um Ruvcrewið, ekki Sylvíu gengið. En þótt það væri unnið frá morgni til kvölds, þá var þetta skemmtileg vinna. Öðruvísi vissulega, því ég hef aldrei áður pælt í skóm, danssporum, kjólum, búningum og þessu glingri og glimmeri sem fylgir þessari keppni. Og það merkilega við þetta allt saman er að ég er ennþá bara mátulega gagnkynhneigður. Held ég. Nú nenni ég ekki að pæla meira í Evróvisjón í bili, þetta er orðið gott.

Lenti í stórslysi skömmu fyrir beina útsendingu í fréttunum í gær. Var að labba útúr þessari blessuðu höll þegar fugl dritaði á mig. Og þetta var ekki eitt lítið snjótittlingsdrit, heldur fjórar stórar skellur. Ein á vinstri öxlina, önnur neðst á skyrtuna hægra megin og svo á sitthvora buxnaskálmina. Hvaða helvítis fuglakvikindi búa í rjáfrinu í Olympíuhöllinni? Greinilega suður amerískir kondórar með magakveisu. Ég lyktaði einsog gúanópoki það sem eftir var kvöldsins.

laugardagur

Ruglið heldur áfram

Aðalumræðuefnið hér í íslenska hópnum er frétt Aftonblaðsins sænska um meint kynlífshneykli í Evróvisjón. Fréttin er sú að Carola á að hafa sofið hjá Svante Stockselius, yfirmanni keppninnar hér, og þannig komist í úrslitin. Aftonbladet byggir þetta á fullyrðingum Sylvíu. Svante neitar þessu og Carola vill ekki tjá sig. HAAAALLLLLÓÓÓÓ. Hverskonar blaðamennska er þetta eiginlega!? Af hverju var ekki talað við Prúðuleikarana líka? Svona til að ljá fréttinni trúverðugleika! Að flytja svona ruglfrétt um jafnalvarlegt mál, sem byggð er á frásögn Sylvíu Nætur, er með ólíkindum og afar léleg blaðamennska. Hún er leikin persóna og ekki beint áreiðanleg heimild í svona málum.

En hverjir vinna í kvöld? Ætla að leyfa mér að velja nokkrar sigurstranglegar þjóðir, en hvet ykkur til að taka ekki mikið mark á listanum. Það hefur nefnilega sannast hér í veðmálum að ég og Evrópa erum ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut. Sem er kannski bara fínt.

Grikkir verða ofarlega.
Úkraína verður ofarlega. Tina Carol er bara svo mikið krútt.
Þýska kántrýið verður ofarlega.
Svíar verða ofarlega.
Finnar verða ofarlega, en vinna ekki.
Rússland verður ofarlega.
Norðmenn verða ofarleg.

föstudagur

Góða Nótt!

Þá er sirkusinn hættur. Sylvía dottin úr keppni og allir þekkja þá sögu. Það var rosalegt að sitja inní höllinni og heyra allt baulið þegar hún fór á svið. Og þegar hún kláraði lagið. Enn og aftur, hvernig getur fólk látið leikna týpu fara svona með sig? Ef Dame Edna segði að hljóðmennirnir í Egilshöll væru fávitar, myndum við brenna breska sendiráðið og hætta að halda með Arsenal? Tæpast. Það var svo óborgarlega fyndið að fylgjast með látunum baksviðs eftir þetta allt saman. Drottningin hrækjandi á fólk, gargandi svívírðingar og grenjandi. Og allt fullt af einhverjum blaðamönnum og liði sem hló kvikindislega af óförum hennar, rétt einsog Sylvía nótt væri persóna af holdi og blóði. Hvað gerir svona fólk þegar Jenni þjarmar að Tomma á Cartoon Network? Hringir á lögguna? Skerst í leikinn?

Menn mega náttúrulega hafa allar þær skoðanir sem menn vilja á þessu. En ef þetta Evróvisjóndæmi hefur sagt manni eitthvað, þá er það þetta: Ágústa Eva Erlendsdóttir er fáránlega frábær leikkona. Að búa til svona týpu sem fær þessi sterku viðbrögð, og að geta brugðist svona við aðstæðum einsog hún hefur gert í Aþenu, er bara á færi snillinga. Hatiði Sylvíu ef þið viljið. En beriði virðingu fyrir leikkonunni og fólkinu sem skóp hana.

Við tökum þetta á næsta ári! Er Geir Ólafs ekki bara málið?

fimmtudagur

Stutt í stuðið

Jæja. Þá er síðasta rennslinu lokið hér í Evróvisjónlandi og stutt í stóru stundina. Þetta gekk fínt að mörgu leyti í morgun. Ágústa er samt augljóslega að spara röddina, eða það vona ég amk því hún virkaði ekki nógu sannfærandi í morgun, öfugt við gærkvöldið þar sem allt small. En atriðið er smart og mér finnst þetta líta mjög vel út. Hér á eftir fara nokkur atriði sem þið ættuð að fylgjast með í kvöld:

1. Segir Sylvía Fokking eða ekki.

2. Lifir Armennski flytjandin keppnina eða kyrkist hann til bana í reipum fylgdarmeyja sinna, líkt og gerðist næstum á æfingu.

3. Gleypir söngkona frá Kýpur sviðið?

4. Stendur Caróla af sér vindkviðurnar.

5. Þurfa Finnarnir að hætta við vegna latexofnæmis?


Við sem höfum verið hér í Evróvisjónlandi að undanförnu ætlum svo sérstaklega að taka eftir hlutfallinu á milli homma, gagnkynhneigðra karla og fallegra kvenna meðal áhorfenda. Okkur reiknast nefnilega til að hér á svæðinu, meðal blaðamanna og aðdáenda, séu hommar um 70 prósent, fallegar konur um 25 prósent, ljótar konur um 4 prósent og gagnkynhneigðir karlar um eitt prósent. Hér er ég minnihlutahópur.

miðvikudagur

Pú og fagn

Því miður komst ég ekki á annað rennsli Evróvisjónkeppninnar sem var í kvöld. Ég þurfti að fara á gríðarlega mikilvægan fund sem var á sama tíma. Fundurinn endaði því miður 2-1 fyrir Barcelóna. En það var víst mikið púað á Sylvíu nótt á rennslinu í kvöld - og líka mikið fagnað. Það er engu ofaukið með það að Grikkir skiptast algerlega í tvo hópa með álit sitt á sylvíu nótt. Merkilegt hvað margir láta þessa leiknu persónu fara fyrir brjóstið á sér. Ámóta gáfulegt og að fara í fýlu þegar Emil í Kattholti gerir skammastrik, eða móðgast þegar Eiríkur Fjalar segir lélegan brandara. Hér eru heilu sjónvarpsþættirnir sem fjalla um hegðun hennar! Af hverju er engin með mótmælaspjöld fyrir framan leikhúsið þar sem úlfurinn reynir að éta Rauðhettu? Fullkomlega húmorslaust lið. Og fattlaust. En rennslið í kvöld gekk víst glimmrandi vel. Allir sem ég hef heyrt í eru sammála um að þetta hafi verið bomba. Bé o bé a. Fylgist með á morgun.

Annars er allt tíðindalítið úr Júróvisjónlandi. Reyndar gæti ég skrifað langt mál um Grikki og þeirra skipulagsgáfur. Hér gæti margt verið betur planað, maður segir nú ekki annað. Ég hefði haldið að þeir væri nú í ágætri æfingu við að skipuleggja svona gigg eftir ólympíuleikana en svo virðist ekki vera. Skipulagið hér er einsog í frjálsum tíma í leikskólanum Minniborg.

Annars vil ég ekki tala illa um Grikki. Mér er nefnilega sagt að Aþenubúar séu eitt og Grikkir annað.

þriðjudagur

Simmi á Xinu, R.I.P

Þegar ég var yngri vann ég á Xinu með honum Þossa. Frábærri útvarpsstöð sem spilað hart rokk. Júróvisjónlög heyrðust á þeirri stöð í mjög afmörkuðum dagskrárlið. Sem hét vondulagakeppnin. Júróvisjónlögum gekk alltaf vel í vondulagakeppninni okkar Þossa. Segja má að á þeim árum hafi það verið í starfslýsingu minni að hallmæla þessari keppni. Það fór ekki saman að vinna á Xinu og hlusta á Júróvisjón.

Hér er topp 7 listi dagsins:

Getur verið að Simmi á Xinu sé dauður þegar:

1. Hann eyðir hálftíma á opnunarhátið Júróvisjón í alvörugefið rabb við blaðamann um mögulegt gengi Albanska framlagsins í ár.

2. Honum finnst það fréttnæmt að hafa séð Carólu hina sænsku í gymminu.

3. Hann stillir sér upp í myndatöku með Tinu Carol, úkraínska flytjandanum. (þið skiljið reyndar hversvegna þegar þið sjáið hana)

4. Hann hefur áhyggjur af því að Finnsku hryllingsrokkararnir séu að eyðileggja keppnina.

5. Hann hefur skoðun á því hvort klæðaburður Belgíska beibsins sé “too much”.

6. Hann eyðir löngum tíma í að skoða hvernig lönd frá Balkanskaga hafa greitt atkvæði í gegnum tíðina.

7. Það hvarflar að honum að rokkið sé dautt!

Blessuð sé minning Simma á Xinu. Hann gengur aftur eftir helgi!

sunnudagur

Amambanda

Frábær dagur í Evróvisjónlandi. Blaðamannafundurinn hennar Sylvíu tóks með afbrigðum vel. Enn og aftur tek ég fram að þetta er ekki hefðbundin “öllumfinnstviðfrábærminnimáttarkennd”, heldur er hún einfaldlega eftirlæti langflestra blaðamanna og Júróaðdáenda sem hér eru. Talsvert fleiri blaðamenn voru á hennar blaðamannafundi heldur en hjá Finnunum og Carólu, svo dæmi séu tekin.

Atriðið veldur mér ákveðnum áhyggjum. Samhæfing er ekki nógu góð og mikil vinna framundan hjá þeim við að fínpússa þetta. Af þeim atriðum sem ég hef séð hér þessa síðustu daga, og ég hef séð flest, er íslenski hópurinn komin skemmst á veg. Þeim hefur einfaldlega gefist of lítill tími til að fara í gegnum þetta, þótt ég reyndar þykist vita að Selma lemji þau áfram næstu daga. Ef þau æfa vel þá verður þetta brill.

Fékk fínt viðtal við hina finnsku Lordi. Smá tungumálamisskilningur olli því að herra Lordi hélt um tíma að ég væri að spyrja hann hvort hann vildi sofa hjá sylvíu! Þá skildi hann orðið dúett, í hörðum íslenskum framburði mínum, sem do it. Þannig varð “dúett with Sylvia” að “do it with Sylvía” í eyrum ljóta mannsins. Annars er fyndið að þessi fígúra sem á að vera ógnvekjandi missir allt kúl þegar hún opnar munninn. Hann talar nefnilega einsog hjáróma barn með hálsbólgu. Meira krúttið!

Önnur skemmtileg uppákoma varð þegar ég tók viðtal við eina af Hollensku stelpunum en ég snéri mikrafóninum öfugt í byrjun viðtalsins. Stúlkugreyið var líka fremur vandræðaleg í upphafinu en Helgi tökumaður fékk úr flogakast úr hlátri og er ennþá flissandi. Hollensku stelpurnar eru ekki í fýlu útí Sylvíu þótt hún hafi kallað þær "sluts" og "cunts" i beinni útsendingu í sjónvarpinu í Litháen.

Talandi um Holland. Ég er búin að vera með lagið þeirra á heilanum í allan dag.

Amambanda amambanda
Amambanda gwena amambanda
Amambanda amambanda
Gwena mamba gwena mamba


Manilov heilkennið! Hjálp, einhver....

Meiri Sylvía

Gærdagurinn var tíðindalítill hér í Evróvisjónlandi. Flytjendurnir sem áttu æfingasviðið og blaðamannafundi í gær eru talsvert hefðbundnari en Sylvía og Finnarnir sem létu ljós sitt skína í fyrradag. Sylvía er með blaðamannafund síðdegis og æfingu og þar gerist væntanlega eitthvað. Frá því ég man eftir mér hefur fréttafluttningur úr Evróvisjónlandi verið eftirfarandi: “Íslensku flytjendurnir hafa vakið verulega athygli hér í blablabla”. Oftar en ekki hefur þetta verið hálfsannleikur og jafnvel lygi. Í ár er þetta hinsvegar satt. Sylvía hefur hrist heldur betur uppí blaðamönnum og mótshöldurum og ég spái því að það verði vel fylgst með henni í dag á sviðinu og blaðamannafundinum. Gríska sjónvarpið hefur fjallað talsvert um þetta blessaða Fokkorðamál, enda eru margir grískir starfsmenn hér og blaðamenn brjálaðir útí hana. Þeim er slétt sama þótt þetta sé leikin persóna og grín frá upphafi til enda, svona framkomu vilja margir þeirra ekki líða. Kannski skiljanlega því á köflum var hún býsna ruddaleg við fólk sem var að aðstoða hana. Ég heyrði af einum sem varð brjálaður af því hún rétti honum sígarettuna sína og bað hana að drepa í fyrir sig. Svona atriði, smáatriði kannski, vilja vinda uppá sig í spjalli milli manna. En flestir hér fíla hana í tætlur.

Sylvía hvíldi sig í gær og í fyrst sinn sást í Ágústu Evu Erlendsdóttur. Að mínu mati er gríðarlegt álag á Ágústu sem er í karakter heilu og hálfu dagana. Ekki fæ ég reyndar betur séð en að hún hafi brjálæðislega gaman af þessu.

Fór í ræktina í gærmorgun á hótelinu. Salurinn er lítill og ljótur og þar var engin nema Caróla hin sænska. Við Caróla svitnuðum þarna í sameiningu á meðan lífvörðurinn hennar horfði á. Kinkí

föstudagur

Aþena, dagur 1.

Dagurinn í dag hefur farið í að skoða aðstæður hér í olympíuhöllinni Oaka í Aþenu. Hér er allt til alls fyrir blaða og sjónvarpssnápa og virkilega gaman að sjá hvernig þetta fer fram. Vel fer um mig í þularklefanum sem er lengst uppí rjáfri, en þaðan hef ég gott útsýni yfir sviðið, auk þess sem ég hef sjónvarpsskjái til að sjá útsenda mynd frá æfingum og keppni. Alla daga eru æfingar á sviðinu, hver keppandi fær 40 mínútur í senn og heldur síðan blaðamannafund. Allt rennur þetta vel í gegn þótt það verði nú að segjast einsog er að þetta er misáhugavert fólk sem treður upp, svona einsog gengur. Finnarnir voru brilliant og eru margir heitir fyrir þeim. Það virkar alltaf vel þegar miðaldra karlmenn klæðast grímubúningum og þykjast vera rokkarar. Fyndið að júrópoppararnir á svæðinu tala alltaf um þetta sem svakalegast þungarokk sem til er í geiminum, en sannleikurinn er sá að þetta er ekkert voðalega hart rokk. Sannfærandi hryllingsbúningarnir hafa hinsvegar þau áhrif að fólki finnst þetta svakalega gratt. Hvað yrði sagt ef KORN eða System of a down mættu á svæðið?

Sylvía Nótt er heldur betur að slá í gegn hér á svæðinu. Hún er mjög umtöluð og fóru nokkrir blaðamenn útaf útaf æfingunni hennar í fússi þegar hún sagði fuck-orðið skelfilega. Flestir fíla hana reyndar ákaflega vel og ná gríninu. Ég er handviss um að henni verður vel fylgt eftir af pressunni hér, þótt ekki sé reyndar víst að það hafi mikil áhrif í atkvæðagreiðslunni á fimmtudaginn, því flestir áhorfendur berja hana þar augum í fyrsta sinn. Atriði með risasleikjó, tveggja metra háum bleikum skó og Rúnari Gíslasyni í hlutverki greindarskerts hnakka frá sólarlöndum hlýtur að vekja athygli.

Eitt enn. Þvílík óskapleg gomma af hommum hérna á keppninni. Þeir eru fleiri hér en á stórri útíhátið með Barböru Streisand.

Aþena beibí, jejei

Eitt sinn var hringt í mig frá Fréttablaðinu og ég beðin um að svara einni spurningu í smádálki í aukablaði. Ég afþakkaði þar sem ég átti að svara því hver uppáhaldsflugvöllurinn minn er. Allir flugvellir í heiminum eru rými satans í helvíti, sem sjúga orku og alla frjóa hugsun úr heilabúi fólks. Að nefna einhvern uppáhaldsflugvöll er einsog að útnefna flippaðasta fjöldamorðingjann, skemmtilegasta líkið eða eftirlætis kynsjúkdóminn sinn. Eftir fjögurra tíma bið á Heathrow flugvelli eftir tengiflugi í dag hefur álit mitt á flugvöllum heldur versnað. Þvílíkt leiðindahangs. Það tók 16 tíma að komast frá Ruv inná hótel í Aþenu og liðið hér er gjörsamlega búið á því. Nema Sylvía Nótt sem söng lagið á skíðum skemmti ég mér trallallala, í rútunni á leiðinni á hótelið. Dagurinn verður tekin snemma á morgun. Það eru æfingar og blaðamannafundur eftir hádegið sem við sýnum vonandi frá í Kastljósi og fréttum sjónvarps annað kvöld. Rosalega ætla ég að hrjóta hrikalega í nótt.

miðvikudagur

Bla bla

Snemma í fyrramálið fer ég til Aþenu útaf Júróvisjón, eða Evróvisjón einsog það heitir á ákaflega einkennilegri íslensku svo ekki sé meira sagt. Ég hef aldrei skilið útaf hverju fyrri hluti orðsins Eurovision er þýddur en ekki síðari hlutinn. Af hverju má ekki segja Euro, heldur bara vision? Þetta gæti valdið mér erfiðleikum í Aþenu, því einsog lesendur þessa bloggs vita vel þá er ég með greindavísitölu á við lélega rakvél, og gæti því tekið uppá því að þýða rangt orð. Eurosýn, hljómar ekki vel, en er kannski jafnlógískt og hitt?

Sylvía Nótt mætti ekki á bensínstöð til að árita diska einsog auglýst hafði verið. Börn og foreldrar urðu eðlilega fúl, en þegar þetta er skrifað hefur ekki verið greint frá því hvað olli fjarveru dívunnar. Kannski var hún löglega afsökuð. En hverjum datt í hug að fá Ingvar E Sigurðsson og Ólafíu hrönn í staðinn, í gervi Rómaríós og Sylvíu? Átti að plata börnin? Eða héldu menn að þau yrðu sátt? Ekki yrði ég sáttur á tónleikum með U2 ef Geir ólafsson mætti í staðin fyrri Bono.

Reyni að vera duglegur að blogga frá Aþenu, þrátt fyrir annir.

þriðjudagur

Yfirlýsing

Einhverra hluta vegna er þessa stundina nokkur áhugi fyrir bátsferðum og siglingum umsjónarmanna Kastljóssins. Í því ljósi er rétt að taka fram að einu siglingarnar sem ég hef farið í á lífsleiðinni voru ekki með Thee Viking á Florida, heldur með Akraborginni á áttunda áratugnum. Jón Gerald Sullenberger fór ekki með mér í þessar ferðir, heldur amma Ragga. Vonandi að þetta valdi ekki ruglingi.

mánudagur

Liggaliggalái, nananananaaana

Afsakið orðbragðið! En stundum er haft á orði þegar einhverjum gengur illa í einhverju verkefni, að viðkomandi hafi gert í buxurnar. Skitið á sig. Aldrei hefur þessi orðanotkun verið jafnlifandi og þrungin merkingu og í gær, þegar Tottenham klúðraði meistaradeildarsætinu yfir til Arsenal. Leikmenn Tottenham, sem hafa ekki spilað mikilvægan knattspyrnuleik í áraraðir, kviðu svo fyrir úrslitaleiknum í gær að þeir fengu heiftarlega í magann í orðsins fyllstu. Samkvæmt þessari frétt er hafin rannsókn á málinu. Mun þetta vera í fyrsta sinn í mannkynssögunni sem knattspyrnufélag leggur fram saursýni til að afsaka lélegan árangur á knattspyrnuvellinum. Lifi Arsenal.

sunnudagur

Tuð um örtröð

Sá á dögunum að Eiríkur Jónsson er hættur að vinna á dv. Eiríkur er merkilegur blaðamaður, sem á það til að poppa upp fyrirsagnir og fréttir meira en aðrir. Hann getur búið til senseisjón úr engu sem er stundum skemmtilegt en þegar verst lætur er það skáldskapur en ekki fréttir. Eiríkur er mögulega farin að vinna á mbl.is, eða hvað? Samkvæmt þessari frétt var hvorki meira né minna en örtröð þegar Bubbi fór að selja miða á tónleikana sína. Meira ruglið. Það er örtröð í kringlunni á þorláksmessu, það er örtröð þegar Pearl Jam spilar á Hróarskeldu og það var örtröð þegar Khomeni var borin til grafar. Þegar tæplega hundrað spakir bubba aðdáendur bíða pollrólegir í blíðviðri í 5 mínútur eftir að símabúð opnar, er miklu nær að tala um huggulegt chill fremur en örtröð. Af hverju var ekki bara gengið alla leið og talað um óeirðir?

Sá myndbandið við lag Litháens í Júróvisjón í sjónvarpinu í kvöld. Ef þetta er grín þá fer það fullkomlega fyrir ofan garð og neðan enda var laginu slátrað af norrænu júróspekingunum í þættinum í kvöld. Þetta hljómar einsog taktlaus heyrnleysingi hafi verið að semja hvatningalag fyrir blaklið Aftureldingar. Og fengið einhverfa órangúta til að syngja það á ensku. Árið 1984.

laugardagur

Gula fíflið

Þegar ég var unglingur vann ég á sumrin í bæjarvinnunni í Gardenstadt. Þar vann stórskemmtilegur fullorðin maður sem var mikill bæjarkarakter. Hann hét Simmi og var alltaf kallaður Simmi hæna því hann hjólaði um bæinn á kvöldin og seldi egg. Þar sem ég heiti sjálfur Simmi var ítrekað reynt að festa þetta viðurnefni við mig, án mikils árangurs. Kannski vegna þess að ég hjólaði ekki um bæinn og seldi egg! Nafni minn, sem var harðduglegur maður, var ekkert sérstaklega hrifin af því þegar sól skein skært á vinnandi fólk. Þá talaði hann alltaf um að gula fíflið væri að angra sig. Í dag skín sólin á höfuðborgarbúa af miklum móð. Megi gula fíflið gera sem mest af því í sumar.

föstudagur

Fótbolti er mannbætandi

Sumt fólk, sem ég þekki ekki neitt, fer óskaplega í taugarnar á mér. Einkum eru það erlendir karlmenn á aldrinum 18 – 35 sem geta farið í mínar fínustu taugar. Þessir menn sem um ræðir eiga það sameiginlegt að vera óheiðarlegir, leiðinlegir, tilgerðarlegir og vonlausir í alla staði. Mest eru þetta knattspyrnumenn sem spila með Manchester Júnæted, Chelsea og Liverpool. Nú bregður hinsvegar svo við að hugur minn er hjá Wayne Rooney, hinum ristarbrotna tuðrusparkara Manchesterliðsins. Vonandi batnar honum sem fyrst svo að enska landsliðið eigi nú séns á HM. Þessi umskipti á mínu hugarþeli í garð fótboltamannsins forljóta segir mér að HM í fótbolta er að gera mig að betri manneskju.

miðvikudagur

Ekki drepa hann!

Hef verið að horfa á þættina Rome sem fjalla um Júlíus Sesar og hinar fornu hetjur rómaveldis sem klæddust pilsum og kuflum og báru sverð. Og stunduðu kynlíf og svall útí eitt. Ég er doldið á eftir, því búið er að sýna alla þættina á Stöð tvö, en ég er bara hálfnaður eða þar um bil með seríuna. Mikið óskaplega er Sesar geðugur maður í þessum þáttum. Vonandi að helv... handritshöfundarnir hafi nú ekki fallið í þá freistni að sálga honum í síðasta þætti af eintómri þjónkun við einhverja sagnfræði. Svona viðkunnanlegur maður á skilið að deyja í hárri elli í sjónvarpsseríu, hvað sem allri fornsögu líður. Ekki drápu handritshöfundarnir Ross í Friendsþáttunum, svo nærtækt dæmi sé tekið.

þriðjudagur

Bömmer

Í heilanum mínum er að velkjast mikil ráðgáta sem ég get ekki leyst. Hún er svona:
Það er til mikið af góðri tónlist í heiminum. Frá því ég byrjaði að hlusta á tónlist í tætlur sem lítill drengur, hef ég heyrt þúsundir laga sem ég fíla í botn. Hef keypt mörgþúsund plötur, heyrt hellingi í útvarpi og dánlódað slatta af netinu. Inná tölvunni minni á ég nokkra tugi gígabæta af tónlist sem mér finnst góð og á þetta hlusta ég tímunum saman. Vel má segja að ég sé haldin þráhyggju gagnvart góðri tónlist. Af hverju fæ ég þá bara víðáttu leiðinleg, ömurleg og vonlaus lög á heilann? Ég vaknaði með Jólahjól í kollinum í morgun! Fyrir helgi söng ég prúðuleikaralagið í huga mér af miklum móð. Af hverju ekki Hells bells eða Killing in the name? Er dulvitund mín að segja mér að ég sé með lélegan tónlistarsmekk?

mánudagur

Júrópönkið

Nú hefur maður legið yfir Júróvisjónlögunum til að vera mellufær í Aþenu eftir þrjár vikur. Einsog gengur eru nokkur lög sigurstrangleg og merkilegt að heimilisfólkið í Kórsölum skuli ekki vera sammála mér um hvaða lög það eru. Úkraína, Svíþjóð, Grikkland, Slóvenía, Rússland og Belgía bítast um sigurinn. Tek það skýrt fram að þetta eru ekki endilega bestu lögin, heldur þau sem ég held að eigi mestan séns.

Finnar og Íslendingar senda síðan áberandi skemmtilegustu flytjendurna. Hollendingar eru svo strategískasta þjóðin því þeir vita sem er að þegar lagið er ekkert sérstakt, þá er um að gera að senda þrjá hálfberrasaðar og gerðarlegar stelpur. Danir og Þjóðverjar hafa svo sammælst um að tími kántrýtónlistar sé loksins runnin upp í evrópu.

Annars er verulega fyndið hvað norðulandalögin eru hrikalega ólík. Danir með kántrí, Svíar með Júrópopp, Finnar með hryllingsrokk, Norðmenn með álfadans og íslendingar með glimmergellu dauðans. Öll lögin eiga séns að mínu mati, en hey, þetta er júróvisjón og því vonlaust að spá. Eitt get ég þó sagt með vissu, lagið frá Litháen hefði sigrað vondulagakeppnina hjá mér og Þossa á Xinu í denn, með þvílíkum yfirburðum! Það er svona fyndiðvont lag. Írska lagið er hinsvegar bara vontvont og það sama má segja um Ísraelska lagið.

Rétt er að taka fram að þessi lærða grein um Júróvisjón var ekki skrifuð án átaka og togstreitu í sálartetrinu.