sunnudagur

NFS og Leiðarljós

Var að spjalla við nokkra vini mína á 365 miðlum. Þar eru menn líka svona ljómandi ánægðir með nýjustu fjölmiðlakönnun Gallup en þar er áhorf í fyrsta sinn mælt á NFS fréttastöðina. Ekki skil ég hvað menn eru ánægðir með því samkvæmt könnuninni eru fáir að horfa. Áhorf er þetta 1-3 prósent, fyrir utan kvöldfréttirnar. Til samanburðar má nefna að tæp 4 prósent horfa á leiðarljós á Ruv og Bold and the beautiful á stöð tvö, síðdegis á mánudögum! Ekki kæmi mér á óvart þótt þarna yrðu gerðar breytingar innan skamms. Margt er vel gert á NFS, en er þessi könnuna að staðfesta það sem margir héldu, að íslenski markaðurinn sé of smár fyrir svona stöð?

Alveg var magnað að sjá David Gedge, forsprakka hljómsveitarinnar Wedding Present, á sviðinu á Grand rokk á fimmtudagskvöld. Ég hef haldið óskaplega mikið uppá þetta band síðasta einn og hálfan áratug, og mér leið einsog ástsjúkri smástelpu fyrir framan þetta goð. Bandið var dúndur þétt og á efniskránni var hellingur af gamla stöffinu frá velmektarárunum uppúr 1990. Það er hreint ótrúlegt hvað lögin þeirra eldast vel og ég féll í trans þegar lögin Everyone thinks he looks daft og Kennedy hljómuðu í beit. Ekki var síðra að hlusta á Dalliance og Corduroy af Seamonsters. Erfitt er að útskýra svona tónleikakikk fyrir fólki sem fílar ekki almennilegt rokk og því verður ekki gerð tilraun til þess hér.

Læt fylgja hér lagalista sveitarinnar á tónleikunum, á hann gæti þó vantað eitt til tvö lög.

Sticky
Ringway to seatac
Corduroy
Flying saucer
Silver shorts
Gazebo
Wow
You Should Always Keep In Touch With Your Friends
Mars Sparkles Down On Me
Click Click
Everyone Thinks He Looks Daft
Kennedy
I'm From Further North Than You
Take me
Merury
Dalliance
Why Are You Being So Reasonable Now?
Brass neck
Octopussy

laugardagur

Dv

Dv hætt í núverandi mynd og orðið að helgarblaði. Ekki get ég sagt að þetta komi mér á óvart, fáar auglýsingar voru í blaðinu síðustu mánuði, fyrir utan auglýsingar frá 365 og tengdum aðilum. Blaðið var líka orðið óhemju óvinsælt, jafnvel þótt ýmislegt í því væri skemmtilegt. Þessi innblaðaskemmtilegheit voru hinsvegar aldrei nein sérstök röksemd fyrir því að halda út blaði sem fór oft á tíðum fram af óskaplegu virðingarleysi gagnvart fólki. Jafnvel veiku fólki, eða einstaklingum í meiriháttar sárum eftir einhvern skelfingaratburðinn. Það er ekki í lagi með blað sem tekur fólk af lífi á forsíðu, þótt einhverjir smádálkar á innsíðum hafi verið fyndnir.

Ég held að það sé pláss fyrir ágengt blað við hliðina á Mogga, Fréttablaðinu og Blaðinu. Það verður að segjast einsog er að þessi þrjú blöð eru á köflum sorglega döll, þótt þau séu um margt góð. En svona blað einsog dv verður að passa sig á því að fjalla af virðingu um menn og málefni, þótt það sé ágengt. Það var alltof oft einhver leiðindatónn í dv, jafnvel fyrirlitningatónn á stundum, sem dró oft úr vægi ágætra mála. Forsíðurnar hans Mikka voru síðan sérkapituli, og vonandi að sá hluti íslenskrar blaðamennsku sé endanlega dauður. Ekki finnst mér eftirsjá að þeim forsíðum amk, en stundum var búið að poppa þær svo mikið upp að þær voru vart í samhengi við fréttina inní blaðinu. Ég hélt reyndar að Mikki væri byrjaður aftur á dv í vikunni þegar blaðið sá ástæðu til að slá því upp með stríðsletri á forsíðu að tottið kostar 10 þúsund hjá einhverri vændiskonu útí bæ! Ég las ekki greinina, en var þetta verðkönnun? Ég fékk það á tilfinninguna eftir að hafa lesið forsíðuna að það væri verið að býsnast yfir verðinu! Var ekkert merkilegra í fréttum þennan dag?

fimmtudagur

Svokölluð sumarhátíð....

Ragnhildur Steinunn, stórvinkona mín, fær oft skemmtilegar hugmyndir. Sumarhátíð Kastljóssins var haldin í Heiðmörk í dag, 27 Apríl, að hennar undirlagi. Þessu var tekið fagnandi af okkur starfsmönnum enda höfum við ekki fengið gott kvef lengi, auk þess sem hressileg lungnabólga er alltaf fín fyrir vinnumóralinn. Eftir þægilegan göngutúr í mold og drullu, norpuðum við í kaldri og blautri lautu og átum nestið okkar. Ákaflega huggulegt allt saman. Að því loknu var skipt í tvö fótboltalið í hálkunni. Það lið sigraði sem var á undan að skjóta niður grýlukertin sem héngu neðan úr markslánni. Frisbímótinu var hinsvegar frestað vegna ísíngar á svifdisknum. Allt fór þetta hið besta fram, fyrir utan að ritstjórinn missti nokkrar tær vegna kalsára. Vetrarhátíðin okkar verður svo haldin í ágúst.

Sé í kommentakerfinu mínu eftir síðust færslu að fólk er í bullandi vörn fyrir sænsku forræðishyggjuna. Fullyrt er að frétt mbl.is um risastóra nærbuxnamálið, sem ég vitnaði til, hafi verið röng. Um þetta er tvennt að segja. Í fyrsta lagi segir talsmaður Calvin Klein að auglýsingin hafi verið bönnuð þar sem hún þótti of sexuð. Fulltrúi forræðishyggjunnar í sænska velferðarríkinu vísar því á bug og segir auglýsinguna einfaldlega hafa verið of stóra. Því má segja að frétt mogga hafi ekki verið nógu nákvæm þar sem bara var greint frá öðru sjónarmiðinu. Í öðru lagi breytir þetta engu um álit mitt á sænskri forræðishyggju, hún er glötuð hvort sem nærbuxurnar hans Ljúngbergs eru of stórar eða of klámfegnar.

Wedding present í kvöld. Jibbí.

miðvikudagur

Nærbuxnaklám

Svíar eru klikk. Jafnvel meira klikk en Norðmenn. Nú hafa borgaryfirföld í Stokkhólmi bannað auglýsingaskilti af Arsenalmanninum Freddie Ljungberg þar sem hann auglýsir Calvin Klein nærbuxur, ýmist einn, eða með módelinu Nataliu Vodianova. Ekki þykir heppilegt í rétttrúnaðarríki dauðans að fólk auglýsi nærbuxur á nærbuxunum og þá væntanlega skárra að slíkt sé gert í kraftgalla, til að særa ekki blygðunarkennd fólks. Nú er ég engin sérstakur áhugamaður um hálfberrasaða karlmenn, jafnvel þótt þeir spili fótbolta með Arsenal, en er sænski forræðishyggjufasisminn ekki að toppa sjálfan sig í þessu máli. Því ef þetta er barátta gegn klámi, þá hafa Svíar dregið víglínuna á bandvitlausum stað, í bjánalegum tepruskap sínum. Ég hef séð Freddie á Calvin Klæn nöddunum sínum á risaauglýsingaskiltum í New York, London og í blöðum og víðar. Skemmst er frá því að segja að myndirnar eru ámóta klámfengnar og soðin ýsa. Á þeim sést bara karlmaður á nærbuxum, punktur.

Nekt eða hálfnekt er ekki ljót eða klámfengin nema hún sé sett í þannig samhengi, en svo virðist sem sænskir velmeinandi vandamálapésar hafi óvenju frjótt ímyndunarafl þegar kemur að því að sjá eitthvað ljótt útúr hversdagslegustu hlutum. Þessi púrítanaþankagangur er einnig svakalegur í bandaríkjunum. Þar fær Freddie reyndar að sjást óáreittur, en konur sem gefa börnum sínum brjóst opinberlega eiga á hættu að lenda í rafmagnsstólnum. Besta dæmið um slíkt rugl sem ég þekki, er frá Mcdónaldsstað í New York. Þar kom Birna eitt sinn að konu að gefa barni sínu inná subbulegu klósetti, enda átti hún annars yfir höfði sér lögsókn frá fólki sem verður fyrir óbætanlegum sálarskaða ef það sér geirvörtu.

þriðjudagur

Átök

Það lá fyrir þegar ég vaknaði í morgun að síðdegis væri ekki tími fyrir vinnu eða fjölskyldu. Grenjandi krakkar eða fánýtt tuð í Kastljósi skildi ekki trufla þau átök sem framundan voru. Stórbrotnustu náttúruhamfarir í heimi eða meiriháttar panikk í fjölskyldunni hefðu engu breytt um áform mín, enda hafði margra vikna andlegur undirbúningur miðað að því að ná hámarksárangri síðdegis í dag. Andleg velferð þjáningabræðra minna um allan heim var í húfi - ekkert mátti fara úrskeiðis. Orð megna ekki að lýsa þeirri einbeitingu sem skein úr augum mínum þegar þetta mikla verkefni hófst. Ég settist í sófann, teygði mig í fjarstýringuna og kveikti á sjónvarpinu. Tveimur tímum síðar lá þetta ljóst fyrir. Arsenal er komið í úrslit meistaradeildarinnar í fótbolta. Ég svitnaði ekki einu sinni. Lifi Jens Lehmann.


Hvaða ídíót ákvað svo að úrslitaleikurinn yrði á sama tíma og generalprufan fyrir undankeppni Evróvisjón? Ekki hefði ég trúað því fyrir einhverjum árum að ég gæti ekki séð Arsenal spila til úrslita í Evrópukeppninni útaf Evróvisjón? Ekki einu sinni útaf aðalkeppninni, heldur vegna þess að ég þarf að vera viðstaddur generalprufu fyrir undankeppnina!!

Lifi Jens Lehmann.

mánudagur

Draugar

Samkvæmt frétt á mbl.is er John Lennon eitthvað að reyna að komast í samband við okkur. Sérfræðingur á sviði “rafrænnar röddunar” hefur staðfest að rödd Lennons hafi heyrst með útvarpsbylgjum á miðilsfundi, en raddir andanna velja iðulega þá leið til komast í samband við raunheima. Vonandi hefur Lennon eitthvað merkilegra fram að færa en dána fólkið sem talar til okkar hinna í gegnum Þórhall miðil og útvarpsBylgjuna 98.9. Doldið skúffandi ef meistarinn þvaðrar bara um bakverki og týndar lyklakippur, sem virðist vera helsta umfjöllunarefni drauganna úr handanheimum Þórhalls. Alltaf þegar ég heyri brot úr þáttunum á Bylgjunni þá kvíði ég því alveg óskaplega að deyja. Það virðist vera svo ófrjó umræða í gangi þarna hinumegin.

Hallgrímur Helgason skrifar grein í fréttablaðið í dag. Umfjöllunarefnið er það sama og í hinum greinunum hans. Hann er orðin jafnfrjór í skrifum sínum og eilífðarblaðamennirnir Hallur Hallsson og Páll Vilhjálmsson. Nennir einhver að pikka í þessa menn og benda þeim vinsamlega á að þráhyggjuhugsanir þeirra eru orðnar þreytandi. Við erum búin að ná því fyrir lifandis löngu að Davíð og Styrmir eru vondir og Ingibjörg Sólrún og Fréttablaðið líka.

Ótrúlegt. Þetta fær ekki staðist!

Oft hef ég orðið undrandi á ævinni en aldrei einsog nú. Þegar ég heyrði tíðindin fór hjarta mitt að slá miklu örar og kaldur sviti spratt fram. Þar sem ég lá fyrir framan sjónvarpið, nánast meðvitundarlaus af undrun, rann það smátt og smátt upp fyrir mér að allt var að eilífu breytt. Þessar fréttir hljóta að hafa afgerandi áhrif á skynjun okkar á veruleikann. Þetta er einsog að frétta skyndilega að jörðin sé ferhyrnd. Samkvæmt skoðanakönnun sem gallup gerði fyrir sjálfstæðisflokkinn í reykjavík, vilja 95 prósent borgarbúa eyða meiri tíma með fjölskyldum sínum. Jahá, þabbarrasonna! Vilja menn kannski hærri laun líka? Hvað með að spyrja hvort fólk vilji halda áfram að anda að sér súrefni?

Mikið eiga annars 5 prósent borgarbúa leiðinlegar fjölskyldur samkvæmt þessari sömu könnun. Eitthvað kvikindislega innrætt úrþvætti gæti náttúrulega bent á að þessi 5 prósent eru nokkurn vegin á pari við fylgi framsóknarflokksins samkvæmt nýjustu tölum, en ekki dettur mér eitt andartak í hug að setja hlutina í slíkt samhengi.

Rétt er að taka fram að ekki verður mikið bloggað um pólitik á þessari síðu. Ég ætla þó að leyfa mér að koma eina hárbeitta analýsu um pólitíkina. Staðreynd sem ekki verður kollvarpað. Þessi hnífskarpa athugun, leidd áfram af djúpu pólitísku innsæi, bindur vonandi enda á allt karp um málið: Gísli Marteinn girðir sig miklu betur en aðrir frambjóðendur.

laugardagur

Kukl

Katla fór til töfralæknis í dag. Hún er búin að vera með ungbarnakveisu sem hefðbundnar lækningar vinna ekki á, og því þurfti að reyna annað. Ekki veit ég nákvæmlega hvað seiðmaðurinn gerði við barnið en miðað við þá fordómalausu afstöðu sem ég hef til óhefðbundinna lækningatrixa þá gerði hann eftirfarandi: Blandaði seið úr gömlu geitablóði, muldu brenninetluhýði, rafgeymasýru og lokki úr óspjallaðri mey frá Hvammstanga. Hrærði rangsælis með rörtöng á fullu tungli. Með smá dassi af sítrónusafa var þessari hómópatísku remedíu nuddað heildrænt yfir orkusviði Kötlu á meðan rætt var við stofnfrumu barnsins á fjórum tungumálum áður en faðirvorið var kyrjað afturábak í falsettu. Við erum bara vongóð um að þetta virki, svona fordómalaust séð.

Þá að leiknum í dag. Jafntefli voru sanngjörn úrslit, Tottarar betri í fyrri hálfleik og Arsenal í síðari. Mínir menn fögnuðu jöfnunarmarkinu innilega, en fyrra marki leiksins var einhverra hluta vegna ekki fagnað af leikmönnum Tottenham. Kannski er erfitt að fagna með óbragð í munninum!
Litlar líkur á að meistadeildarsætið náist nema með sigri í meistaradeildinni sjálfri. Ekki er ég neitt brjálæðislega bjartsýnn á það.

Rétt er að taka fram að fyrirsögn greinarinnar á við um leik Tottenham í dag - ekki töfralækninn!

föstudagur

Líkamslýti dauðans

Einsog oft áður horfði ég á Latabæ með henni Sölku minni. Og einsog í öll hin skiptin hafði pólitíski rétttrúnaðarheilsufasismi þáttarins þau áhrif að ég þaut útí sjoppu og keypti kíló af nammi og ís. Gúmmelaðið hverfur ofan í þá mannlegu hakkavél sem hér heldur á penna, ekki mínútu síðar en Salka sofnar. En í anda þáttarins keypti ég banana handa barninu. Og epli. Djöfull er ég gott foreldri!

Hef áður haft hér á orði hversu sælgætisframleiðendur þessa lands eiga tryggan og traustan bakhjarl í Sigmari Guðmundssyni. Ég á álfumetið í 100 kílóa nammiáti innanhúss, auk fjölmargra íslandsmeta í almennum óhófslifnaði sem flest hafa verið sett við kjöraðstæður í sjónvarpssófanum seint að kvöldi til. Á daginn borða ég hinsvegar bara skyr og kál. Ólíkt öllum öðrum nammisjúklingum í heiminum fæ ég ekki bólur af sykurátinu. Ég fæ bólu! Eina risastóra bólu sem hverfur eiginlega aldrei, heldur ferðast af kappi um mig allan ársins hring og staldrar einkum við á baki og öxlum. Þessi vinalega hlussa, sem í dag er á stærð við Eiríksjökul, hefur nú fundið sér stað á hálsinum, austan megin við hægra eyra, séð aftan frá. Nokkuð ljóst að sminkunni sem er á vakt á sunnudaginn tekst aldrei að hylja þetta náttúrufyrirbæri sem svo sannarlega verðskuldar að fá nafn. Eitthvað smart örnefni væri vel við hæfi.

fimmtudagur

Þér eruð fábjáni, hæstvirta fíflið yðar.

Í fréttablaðinu í dag er skemmtileg grein eftir Gerði Kristnýju, þar sem hún lýsir þeim vandræðagangi sem hún lenti í þegar hún þéraði ekki danadrottningu á blaðamannafundi. Hún gleymdi ávarpsorðunum “yðar hátign” og öðrum bjánalegum krúsídúlluhirðsiðum og fékk bágt fyrir. Til allrar hamingju erum við íslendingar að mestu lausir við svona vitleysisgang. Mér finnst nefnilega eitthvað ógeðfellt við þéringar. Það konsept að sumir séu svo miklu fínni en aðrir að það þurfi sérstakt ávarp og öðruvísi talsmáta til að vera ekki dónalegur - er galið. Það krefst þess að stundum eigum við að setja okkur í þær stellingar að við séum ekki að tala við jafninga, heldur einhvern æðri. Rétt einsog það sé ekki hægt að koma fram við fólk af virðingu og kurteisi á venjulegu mannamáli. Alþingi Íslendinga heldur reyndar enn fast í svona bjánagang. Þar eru þingmenn allir háttvirtir og ráðherrarnir hæstvirtir. Þetta á að auka virðingu þingsins! Fannst einhverjum virðingablær yfir Ólafi Ragnari þegar hann sagði hæstvirtan forsætisráðherra hafa skítlegt eðli? Var Steingrímu J. einsog settlegur sjentilmaður þegar hann sagði hæstvirtan ráðherra vera druslu og gungu? Og var landsföðurlegur virðuleikablær yfir Davíð Oddsyni þegar hann sagði háttvirta þingmenn samfylkingarinnar vera í afturhaldskommatittaflokki? Ég hygg að fæstum hafi þótt það, jafnvel þótt ávarpsorðin hafi verið rétt og bindið á sínum stað. Sá misskilningur er nefnilega líka ríkjandi á alþingi að hálsbindi tryggi einhvern virðuleika og því er þingmönnum skylt að kunna að hnýta bindishnút. En hvort sem menn eru þingmenn, ráðherrar, rafvirkjar eða ruslakallar þá ávinna menn sér virðingu með framkomu sinni og fasi. Hæstvirt hálsbindin duga þar skammt.

Gleðilegt sumar.

miðvikudagur

Hungursneið

1-0 fyrir Arsenal.

Dugir það í seinni leikinn?

Ekki er ég viss um það. Gæti samt farið svo.
Ekki öruggt, en samt ekki útilokað.
Ekki ómögulegt, en alls ekki ólíklegt.
Óvíst, en mögulega.
Ómögulegt að segja, erfitt að fullyrða.

Fótboltinn er óútreiknanlegur.

Og þó!

þriðjudagur

Strengir gengu berserksgang í gær - þrír látnir.

Mikið er nú gott að fá harðsperrur! Eftir fína æfingu í gær er ég með strengi í öxlum og baki. Almenn leti og hefðbundin páskaátsorgía hefur komið í veg fyrir stórafrek á vaxtarræktarsviðinu að undanförnu. Þótt það sé ekki markmið í sjálfu sér að vera í laginu einsog Gilsenegger eða Arnar Grant þá reyni ég að halda mér í þokkalegu formi. Get þó ímyndað mér að það sé kómíkst að sjá mig lyfta við hliðina á kreatíntröllunum í World class. Á meðan tröllin taka 120 kíló í bekk einsog að drekka vatn, rembist ég kófsveittur og helblár í framan, við að lyfta 57 millilítra Parker blekpenna í bekkpressu. En það hefst nú yfirleitt hjá mér! Best finnst mér hinsvegar að hlaupa. Þegar best lætur hleyp ég 30-40 kílómetra á viku og tel mig þá nokkuð góðan. En mikið á maður ólært einsog sjá má á þessu bloggi: gajul.blogspot.com. Gunnlaugur, sem er þrælflottur bloggari, talar um 20-30 kílómetra hlaup sem "léttan hring um hverfið". Hann fór um 400 kílómetra í mars, eða um 100 kílómetra á viku. Gunnlaugur kom í Kastljósið í fyrra, rétt áður en hann tók þátt í 160 kílómetra hlaupi í Bandaríkjunum. Óttalega finnast mér 10 kílómetra hlaupin mín aumingjaleg í samanburðinum.

mánudagur

Skilaboð

Hér eru áríðandi skilaboð til Sóleyjar og Krístínar Tómasdætra:

Rjúpur eru lostæti, en ekki fyrir hvern sem er. Rosalega er ég saddur!!!

Hópsex og dóp

Þessir páskar fara seint í heimsmetabókina fyrir innihaldsríka og uppbyggilega lifnaðarhætti. Borðaði meira af súkkulaðiviðbjóði en ég ætlaði mér og hreyfði mig minna en ég ætlaði mér. Allt eftir bókinni semsagt. Þarf að æfa upp stærðfræðikunnáttuna og tel því kalóríur grimmt næstu daga. Hvernig er það annars, er tannkrem fitandi?

Séð og heyrt stúlkan, sem í gegnum tíðina hefur verið fáklædd og einmana aftarlega í blaðinu, hefur fengið félagskap. Séð og heyrt strákurinn er mættur á svæðið. Og einsog vera ber á þessum jafnréttistímum er stúlkan nánast á túttunum , á meðan drengurinn er kraftgalla - eða því sem næst! Ætli þetta verði öfugt í næsta blaði?

Ritstjórn Zygmarr hefur ákveðið að taka upp stefnu gulu pressunnar í fyrirsagnagerð. Fyrirsagnir eiga ekki endilega að þjóna innihaldinu heldur meira að lokka fólk til lesturs, jafnvel þótt efnið sé steindautt. Og í ljósi þess að ég hef fengið hin krúttlegu viðurnefni "Gettu betur stjúpi" og "bloggpabbi" í blöðum að undanförnu, ætlar ritstjórn Zygmarr í auknum mæli að finna viðurnefni á fólk í framtíðinni.

Vinna á morgun. Hvernig gerir maður aftur svoleiðis?

sunnudagur

Fagnar Bogi?

Allir eðlilegir karlmenn eiga sér uppáhaldslið í enska boltanum. En rétt einsog á öðrum sviðum mannlífsins eru til afbrigðilegar hneigðir innan knattspyrnunnar. Áhangendur Lundúnaliðsins Tottenham Hotspur þykja almennt nokkuð brenglaðir í hugsun þegar kemur að knattspyrnu, jafnvel þótt þeir fúnkeri fullkomlega eðlilega í daglegri umgengni, eða því sem næst. Viðurkennt er innan félagsfræðinnar að þessi menningarkimi er verulegt frávik frá norminu og útfrá fræðunum áhugaverð stúdía. En þetta er ekki illt fólk eða sjúkt - það er bara skrítið og öðruvísi. Við sem styðjum Arsenal höfum oft kennt í brjósti um þessa undanvillinga eðlilegs lífs - enda er góðlátleg vorkunnsemi það eina rökrétta gagnvart fólki sem er firrt allri eðlilegri skynjun á það sem fer fram inná fótboltavelli. Nú ber hinsvegar svo einkennilega við að þetta fótboltalið - Tottenham - á góða möguleika á því að ná inní meistaradeildina á kostnað Arsenal. Ég þekki nokkra Tottenham stuðningsmenn, ágætismenn upp til hópa, þótt þeir reiði ekki knattspyrnuvitið í þverpokum. Má þar nefna Hemma smið, Loft tölvunörd, Jón Otta bankamann, Heimi kyntröll og Boga fréttaþul. Ekki veit ég hvernig þessir góðu vinir mínir bregðast við ef Tottenham hirðir meistaradeildarsætið. En hitt veit ég að fyrir okkur Arsenalmenn verður það örugglega einsog að standa berrasaður í Kringlunni á háannatíma á Þorláksmessukvöldi. Algerlega ný og afar vandræðaleg upplifun!

föstudagur

Föstudagurinn langi

Kristur þurfti að þola kvöl og pínu á krossinum fyrir um 2000 árum. Erfitt er að ímynda sér þann hrylling að vera festur á kross, negldur á höndum og fótum, og finna lífið smátt og smátt fjara út. Kannski er ljótt að segja það en ég er ekki fjarri því að hægt s é að upplifa mjög sambærilega áþján með því að horfa á dagskrá sjónvarpsstöðvanna í kvöld. Þvílík leiðindi í imbanum! Þetta hlýtur að vera einhverskonar met. Það er helst að Ruv standi sig í stykkinu með sæmilegum bíómyndum.

fimmtudagur

Helvítis græðgi

Nú er það svart. Gomma eftir af páskunum en samt eru sælgætisbirgðir heimilisins nánast búnar. Bara eftir eitthvað snikkersóæti og svo páskaeggin sem átti víst ekki að borða fyrr en páskadag. Stjórnlaus súkkulaðifíkill í neyslu hlustar nú ekki mikið á svoleiðis píp og því hakkaði ég eitt eggið í mig, á mettíma, seint í gærkvöldi. Vakti það litla lukku á heimilinu. Á meðan ég smurði súkkulaðiegginu í andlitið á mér, heyrðist í fjarska eitthvað þus á borð við "var þetta nú ekki ætlað börnunum" og "hvernig eiga börnin að geta beðið með að éta eggin þegar fullorðna fólkið getur það ekki sjálft". Einnig heyrðist talsvert "Blablablabla blablablablablabblabla". Ég sofnaði sæll í sykursjokki, án þess að hafa eitt andartak hugsað um afleiðingarnar.

Nóttin var hræðileg. Mig dreymdi börnin mín sorgmædd , svöng og illa hirt, mænandi á tómar umbúðir utan um Nóa Síríusegg númer 5. Til hliðar við umbúðirnar var páskaungaskrautið ofan af egginu, hálfétið. Fullur af skömm fór ég í Nettó í dag til að bæta fyrir tjónið. Er ég slæmur Pabbi?

miðvikudagur

Páskastuð

Þegar ég var yngri hataði ég páskana. Það var ekki hægt að fara í bíó. Það var ekki hægt að kaupa rettur og nammi. Skemmtistöðum var bannað að hafa opið. Bensín á bílinn var bara hægt að fá með því að norpa með hor í heimskautagaddi við einhvern bensínsjálfsala um hábjartan dag. Sjónvarpsefnið gat kreist lífslöngunina á mettíma úr öllum eðlilegum unglingum á þessum tíma. Lokunar og bannstofnun ríkisins, með dyggilegri aðstoð íslensku þjóðkirkjunnar, hvatti til almennra leiðinda í samfélaginu með hryllilegri afskiptasemi sinni af daglegu lífi fólks. Lokað! Lokað! Bannað! Bannað! Ég hafði það sífellt á tilfinningunni að ég ætti að sitja þægur í matrósarfötum uppí sófa á meðan margra sólahringa maraþonmessa glumdi í útvarpinu. Og steinþegja. Yfirþyrmandi heilagleikinn í boði íslenska ríkisins gerði mig fráhverfan trúarbrögðum fyrir lífstíð.

Í dag fíla ég hinsvegar páskana í botn. Ekki vegna þess Íslenskt samfélag sýni þeim einhvern sérstakan skilning sem finnst bolludagur, Rhamadan eða sjöundi apríl ámóta merkilegir viðburðir og páskar. Aldeilis ekki. Mér er bara nokk sama þótt einhverjir túristar fái ekkert að éta á föstudaginn langa. Eða þótt Blómaval og Gleraugnasmiðjan þurfi að skella í lás á páskadag og einhverjir virkir alkar þurfi að drekka landa þegar líður á hátíðina. Í dag er ást mín á páskunum til marks um að allt pönk og anarkí er löngu horfið úr minni sál. Face it - ég er orðin gamall og heimakær.

þriðjudagur

Nammi og spil

Búið er að fylla alla skápa heimilisins af páskaeggjum, Nóa kroppi, lakkrís og hlaupi og annarskonar guðdómlegum viðbjóði. Gotteríið flæðir hér um öll gólf, útúr skápum og undan öllum mublum. Gæti trúað að Þóra hafi keypt þetta 10 - 15 kíló af gúmmelaði í dag. Tel mig góðan ef þetta verður ekki orðið að síðuspiki fyrir skírdag. Sælgæti hefur aldrei legið undir skemmdum á þessu heimili.


Nú er Þóra að plana mikið Scrabble mót um páskana. Um síðustu Jól spiluðum við þetta spil í miklu óhófi. Af tillitsemi við annað heimilisfólk vil ég ekki tíunda úrslit jólaviðureignanna neitt frekar. Verð þó að nefna, af einskærri sannleiksást, að hugmyndarflug Þóru þegar kemur að því að búa til ný íslensk "orð" er gríðarlegt. Gúttóslagurinn og deilurnar fyrir botni miðjarðarhafs voru smámunir í samanburði við þau átök sem urðu þegar ég neitaði að samþykkja merkingarlaus og ljót orðskrípi í einbeittri vörn minni fyrir móðurmálinu. Í því stríði skildi ég hvernig Fjölnismönnum leið á sínum tíma. Þetta verða áhugaverðir páskar.

sunnudagur

ammmæli

Vil bara koma því hér á framfæri að mér fannst ég alls ekki fá nógu grand afmælisgjafir þann 7. apríl. Sumir áttu þó betri spretti en aðrir í risastóraafmælisgjafakapphlaupinu. Hér á eftir fylgir yfirlit yfir gjafirnar og gæðastuðull þeirra. Þessi gæðastuðull er að sjálfsögðu útreiknuð og útpæld geðþóttaákvörðun og byggir einkum á víðfrægri frekju og tilætlunarsemi Zygmarrs.

1. Ragnhildur Steinunn gaf mér merkilega gjöf - hún fór í Kringlunna og fann ný föt....á sjálfa sig. En samt handa mér, vildi hún meina. Þessi blómaarfi sem hún var með á hausnum í sjónvarpinu á afmælisdaginn minn og leit út einsog augnleppur á sjóræningjaforingja, var þannig í raun gjöfin mín! Vantaði bara páfagauk á öxlina og staurfót til að gera mig ánægðan.

2. Þórhallur gaf mér kaffi og súkkulaðikökusneið í kringlunni síðdegis í gær. Mjög grand hjá ritstjóranum og eins gott að gjalda líku líkt. Þegar Þórhallur verður fimmtugur á næsta ári ætla ég að fara með hann í Aktu Taktu og gefa honum Ritter sport súkkulaði, Faxi Kondi gos og dós af Idol mixi.

3. Þóra gaf mér flotta gjöf. Því verður ekkert hraunað yfir hana í þessari bloggfærslu. Rómantíski afmæliskvöldverðurinn sem hún eldaði hinsvegar ekki handa mér gleymist seint. Eldsmiðjupizzan var bara fín.

4. Jóhanna Vilhjálms gaf mér frábæra gjöf sem mér þykir ákaflega vænt um. Nátturlegt sætuefni úr heilsuhúsinu sem ég á nú að nota útá kaffið í stað Canderels. Jóhanna er þess fullviss að Canderell sé uppfinning djöfulsins, krabbameinsvaldandi, valdi hægðartregðu, migreni og tennisolnboga. Í því er eitthvað stöff sem heitir aspartam sem étur smátt og smátt upp innyfli mín einsog rafgeymasýra. Hugurinn á bak við nátturulega sætuefnið er því afar góður, jafnvel þótt það bragðist einsog salt.

5. Gjöf Eyrúnar og Kristjáns var greinilega útpæld. Þau lögðu í púkk með restinni af Kastljósgenginu og gáfu mér ekki neitt.

6. Kristín Alma lofaði að gefa mér eitthvað mikið og dýrt í afæmlisgjöf, en var greinilega ekki að meina á þessu ári.

Rétt er að taka skýrt fram að þessi úttekt er ekki hugsuð sem diss, heldur meira sem uppbyggileg gagnrýni og verður vonandi fólki hvattning til að gera betur - miklu betur - á næsta ári.

Takk fyrir mig. Get ekki beðið eftir næsta ammmæli.

föstudagur

MA vann

Mér er óhætt að fullyrða að úrslitin í Gettu betur hafi verið sanngjörn. Versló og MA eru tvö frábær lið og geta þau bæði verið stolt af framgöngu sinni í vetur. Ekkert vafamál er hinsvegar í mínum huga að MA var með besta liðið í ár. Ásgeir, Tryggvi og Magni voru reyndar ekkert sérstakir í útvarpshlutanum fannst mér, en tilþrifin í sjónvarpsviðureignum þeirra voru mögnuð. Gegn MR og MH voru MA drengirnir með vonda stöðu eftir hraðaspurningar en sýndu gríðarlegan karakter og kláruðu dæmið. Og svo ég sé alveg hreinskilin þá voru MA ingar fram að úrslitum vægast sagt ósannfærandi í hraðaspurningunum. Það er stór ókostur því þar eru lið oft að fá meira en helming stiga sinna. En í kvöld breyttist þetta heldur betur. Í stað þess að... [ritskoðað af ritstjóra]...í hraðanum einsog í fyrri viðureignum rúllaði MA upp 24 stigum, takk fyrir. Ótrúlega svalt hjá þeim, svona miðað við fyrri afrek. Þetta var þægileg staða sem þýddi að Verslingar þurftu að taka sénsa og taka bjölluna áður en spurningar kláruðust. En MA hleypti þeim ekki nærri sér og kláruðu þetta, enda með gríðarlega reynslumikið lið. Og reynslan í Gettu betur skiptir miklu máli. Niðurstaðan er því sú að á einni viku breytti MA mesta veikleika sínum í sitt helsta tromp. Öll lið hefðu tapað fyrir MA í þessum ham. Til hamingju.

Stigamunur í þessari viðureign var samt full mikill miðað við getu liðanna. Verslingar voru greinilega nokkuð slegnir útaf laginu eftir hraðaspurningarnar. Þá strax 6 stigum undir, í fyrsta sinn í vetur. Þeir héldu þó kúlinu býsna vel, enda eitt svalasta og skemmtilegasta liðið í ár. Og ótrúlega öruggir og yfirvegaðir miðað við að það er varla búið að venja þá af snuði. Hlýtur að vera þægileg tilhugsun í Ofanleitinu að sama Gettu betur liðið getur keppt fyrir skólann næstu tvö árin. Reynslan á eftir að verða þeim drjúg, auk þess sem maskínan í kringum Versló liðið er öflug. Þá fannst mér það mikið styrkleikamerki hvað þeir tóku ósigrinum vel, bæði liðsmenn og þjálfarar. Verslingar vita greinilega sem er að í skólanum er efniviður í sigurlið á næsta eða þarnæsta ári ef rétt er spilað úr.

Næsti vetur verður athyglisverður. MA mætir með nýtt lið og erfitt að spá nokkru um þeirra gengi. Verslingar verða augljóslega dúndursterkir og með bulland sjálfstraust. MR ingar mæta að mér skilst með óbreytt lið, banhungraðir í sigur. Og þótt þeir hafi dottið út gegn MA í 8 liða úrslitum í vetur, duldist engum að hljóðneminn á fullt erindi í þeirra krumlur. Þeir verða hrikalega öflugir. MH liðinu skulum við svo fylgjast vel með á næsta ári. MH hefur aldrei sigrað Gettu betur, en skólinn hefur margsinnis verið nærri því takmarki. Að óbreyttu eitt sigurstranglegasta liðið næsta vetur. Nýtt Borgó lið rann inní þennan vetur með hóflegar væntingar á bakinu. Þau komust í undanúrslit og með reynslu úr tveimur sjónvarpsviðureignum verður liðið enn betra á næsta ári. Fleiri skólar mæta svo vafalítið með sterk lið til leiks.

Að lokum ein játning frá spyrlinum. Hjartað í mér tók eitt aukaslag þegar ég, einsog vönkuð belja í sláturhúsi, rændi MA inga svarréttinum í einni bjölluspurningunni. Til allrar hamingju skipti þetta eina stig sem þeir hefðu getað fengið ekki neinu máli. Og í ljósi þess að MA liðið veit ekki rass í bala um íþróttir vil ég bara slá því föstu að þeir hefðu aldrei í lífinu getað grísað á hversu Guðmundur borðtennisspaði hefur oft orðið íslandsmeistari☺☺☺

Mér hefur þótt frábært að fylgjast með Gettu betur úr þessu návígi í vetur. Þetta er eitt skemmtilegast djobb sem ég hef prófað. Takk fyrir mig.

fimmtudagur

GB

Gettu betur í kvöld klukkan tuttuguhundruð. Í beinni í sjónvarpinu og Rás tvö. Þetta eru úrslit og er efniviður í spennandi þátt. Um 400 nemendur frá MA koma suður til að fylgjast með og ég veit að það er gríðarleg stemmning í Versló sömuleiðis. Fylgist með í kvöld og ég blogga eitthvað meira um keppnina á morgun.

miðvikudagur

Æfingaakstur

það er ekkert sjálfgefið að vera á lífi og við góða heilsu. Að undanförnu hef ég fengið að njóta slíks þakklætis í garð almættisins fyrir að vera heill og á fótum, að ég má vart mæla löngum stundum. Allir sem sloppið hafa úr bráðum lífsháska þekkja þessa tilfinningu. Óstöðvandi fagnaðarbylgja hríslast um hverja taug og virkjar boðefnabúskap líkamanns svo unaðslega að allar heimsins fullnægingar eru sem hjóm eitt í samanburðinum. Fögnuðurinn yfir því að vera á lífi yfirgnæfir allt og í vetraríkinu og frosthörkum heyrir maður fuglasöng og finnur ilm fagurra blóma. Svona líður mér í hvert einasta skipti sem ég kemst heim að loknum æfingaakstri með dóttur minni. Henni gengur bara vel í ökunáminu!!!!!

þriðjudagur

Wedding present

Góðir tónleikar í vændum! Wedding present kemur til landsins síðar í mánuðinum og því er fagnað af öllum smekkvísum mönnum. Ég byrjaði að hlusta á þetta eðalrokkband árið 1989, þá tööötttugu ára gamall, en það ár kom út meistarstykkið Bizarro. Hvorki fyrr né síðar hef ég heyrt annan eins gítarleik og á þeirri plötu. Spilað er óskaplega hratt á hátónum, ekki síst í lögunum Kennedy og take me, en þau fara hæglega á lista yfir bestu rokklög allra tíma, ef ég á annaðborð nenni að lemja þann lista saman. Önnur gæðalög af plötunni eru What have i said now, Bewitched og að sjálfsögðu Brassneck. Enn í dag finnst mér þetta fáránlega góð plata. Hún eldist með afbrigðum vel, rétt einsog gæðaplötunar Seamonsters, George best og Hit parade serían. Sá wedding present á tónleikum árið 1994. Þá fór ég með Gunna og Jöra, eðalvinum mínum, á Reading tónlistarhátíðina - en sú ferð gleymist okkur aldrei, þótt við legðum okkur ákaft fram um að eyða minningunum jafnóðum með massívri brennivínsdrykkju. Wedding present var aðalnúmer kvöldsins á litla sviðinu, og þeir spiluðu á nákvæmlega sama tíma og Cypress hill á stóra sviðinu. Þótt mér hafi reynst fátt ómögulegt þessa helgi þá gat ég ekki séð bæði böndin í einu. Ég gaf því skít í cypress og arkaði á litla sviðið til að sjá Weddoes. Gunna og Jöra þótti það til marks um að áfengisneyslan hafi drepið fleiri heilasellur en áformað var. En þessari ákvörðun sá ég sko ekki eftir. Þeir tóku alla slagarana, Kennedy, Corduroy, Come play with me, Brassneck, blue eyes, favorite dress, Dalliance og svo mætti lengi telja. Með betri tónleikum sem ég hef séð. Á Grand rokk taka þeir gamla slagara í bland við efni af nýju plötunni sem ég hef því miður ekki hlustað mikið á. En það er ljóst að það verður hlustað á fátt annað en Wedding present næstu vikurnar. Það á væntanlega eftir að fara í taugarnar á mínum nánustu sem bera ekki mikið skynbragð á þessa snilld. Mér er slétt sama um það enda bý ég við þá áþján að fólkið mitt er með frámunalega lélegan tónlistarsmekk. Ekki síst Þóra og Kristín Alma.

PS.

Wedding present hafa einhverra hluta vegna aldrei tekið þátt í Evróvision!

laugardagur

Gettu betur og Morfís

Búin að vera á kafi í framhaldsskólunum þessa síðustu daga. Á fimmtudagskvöldið var frábær viðureign í GB. Einsog venjulega þegar MA á í hlut réðust úrslit ekki fyrr en á síðustu spurningu eftir miklar sviptingar. MA vann MH og mætir Versló næsta fimmtudag. Merkilegt þetta MA lið! Þeir eru lélegir í hraðaspurningunum og gjarnan nokkrum stigum undir eftir þær. Síðan éta drengirnir andstæðinginn í vísbendingaspurningum og bjölluspurningum. Þannig slógu þeir bæði út MR og MH. Ég hlakka hinsvegar mikið til að sjá MH liðið á næsta ári, en ef að líkum lætur mætir skólinn með óbreytt lið. Reynslunni ríkari verða þau illvinnanleg á næsta ári. Vonandi að einn besti gettu betur keppandi vetrarins, Hildur MH ingur, verði stelpum hvattning til góðra hluta í GB. Fyrirfram tel ég að úrslitaviðureignin verði nokkuð jöfn - verslingar verða væntanlega yfir eftir hraðaspurningarnar en þá fer MA vélin í gang. Ef MA nær að komast yfir snemma í keppninni þá verður forvittnilegt að fylgjast með Verslingum en þeir hafa enn sem komið er ekki mætt miklu andstreymi í vetur.

Í kvöld var ég svo fundarstjóri á úrslitakeppni Morfís á milli MR og MH. Það var mjög gaman, enda hef ég ekki séð Morfískeppni í mörg ár. Háskólabíó var kjaftfullt og brjáluð stemmning. Ekki hægt að segja annað en þetta hafi breyst aðeins frá því í gamla daga. Nú nota menn hljóðeffekta, slædsjóv og læti, og leikræna tjáningin er ýktari en í gamla daga. Ég er hræddur um að við Gísli Marteinn þættum ekkert sérlega ýktir ræðumenn í samanburði við Morfíshetjur nútímans. Og þetta var þrusu keppni. MR vann með 49 stigum en MH átti ræðumann kvöldsins. Halldór Ásgeirsson heitir hann og var vel að titlinum komin fannst mér. Hann átti amk örugglega bestu ræðu kvöldsins, en hann fór á kostum í seinni umferðinni eftir að hátalarakerfið bilaði. Þegar kerfið klikkaði hækkaði hann bara róminn og þrumaði yfir kjaftfullu bíóinu, og fólk sat steinþegjandi undir lestrinum, hálfdáleitt. Magnaður fluttningur á sérlega vel sömdum texta. Stuðningsmaður MR liðsins, Jón Eðvald var líka frábær. Sérstaklega var fyrri ræða hans góð, fyndin og hrikalega vel flutt. Saga í MR liðinu er svo einhver besta stelpa sem ég hef séð í Morfís, og Atli Mar MH ingur var mjög líflegur. Frummælendur beggja liða voru svo mjög traustir ræðumenn þannig að þetta var hörkukeppni. Takk fyrir mig.


Og svona rétt í lokin, Bergsteinn Sigurðsson á Fréttablaðinu, er lúði. Hann hraunar yfir mig í fjölmiðlapistli í dag. Sem væri bara í góðu lagi ef hann segði ekki að ég gæti lært margt af Ingva Hrafni á NFS. Ekki veit ég hvort margir hafa horft á Ingva Hrafn á NFS en þar situr hann fyrir framan myndavél, grettir sig og geiflar einsog geðsjúklingur og hrópar illskiljanleg ókvæðisorð sem heyrast vart fyrir frussi. Þessum manni á ég að líkjast að mati Bergsteins til að vera tilþrifameiri spyrill í gettu betur! Nú þekki ég Bergstein ekki neitt en getur verið að hann hafi sniffað yfir sig í gaggó?