fimmtudagur

Appelsínugulan

Það gerðist nokkuð einkennilegt um síðustu helgi. Katla litla fékk guluna sem er víst nokkuð algengt með hvítvoðunga. Á fimmtudag og föstudag horfðum við beinlínis á barnið verða gulara og gulara með hverjum klukkutíma sem leið. Mér þótti merkilegt að um leið og barnið var orðið nákvæmlega jafngult í framan og Ásgeir Kolbeinsson þá var það í ofboði lagt inná spítala!! Af þessu get ég ekki dregið aðra ályktun að þessi appelsínuguli húðlitur sem nú er í tísku meðal Gilzeneggera þessa lands, getur verið alvarlegt líkamlegt ástand sem þarf að bregðast við á heilbrigðisstofnun. Appelsínugula fólkið er því lasið. Búhú....

þriðjudagur

Bloggfall

Heita þeir ekki aumingjabloggarar sem skrifa ekki staf svo dögum skiptir? Ég er þá slíkur, nema menn kaupi þá góðu afsökun að það er búið að vera brjálað að gera. Og þar sem ég hef aldrei verið í neinum vandræðum með afsaka gjörðir mínar eða athafnaleysi þá tek ég afsökunina gilda!

Góður hugur

Allir frétta og fjölmiðlamenn þekkja það vel að störf þeirra geta haft mikil áhrif. Þá meina ég ekki endilega á valdastofnanir samfélagsins heldur á einstaklinga. Fólk. Í gær í Kastljósi fjölluðum við Siggi Jak um Psoriasissjúkdóminn og ræddum við sjúklinga um réttindi þeirra innan almannatryggingakerfisins. Ég ræddi meðal annars við Ásgerði Pálsdóttur sem er með psóríasisútbrot sem þekja um 70 prósent líkamans. Hún leyfði okkur að mynda sig í bak og fyrir og ekki fer á milli mála að þessi sjúkdómur hefur leikið hana afar grátt. Ásgerði gagnast best að fara í sólina í meðferðarskyni en það er dýrt og tryggingastofnun hefur í þrígang synjað umsókn hennar um slíka ferð. Í dag, í kjölfar Kastljóssins, hafa henni borist boð góðra manna um ferð í sólina til að vinna á sjúkdómnum. Að auki bauðst henni góð peningagjöf. Viðlíka viðbrögð verða iðulega við umfjöllun fjölmiðla og fer sjaldnast hátt. Sem er gott mál. Þeir eru þó líka til sem opna varla tékkheftið nema fyrir framan myndavélar. Mikið vona ég að Ásgerði gangi vel, hvort sem hún fer í sólina eða ekki.

mánudagur

Katla

Katla kom í heiminn um helgina. Allt gekk einsog í sögu og mæðgurnar eru frískari en c vítamín með mentholbragði! Hvað svo sem það nú þýðir. Katla er með meira og dekkra hár en Þóra og hefur frá fyrsta andartaki brætt alla sem hana hafa séð. Hún er ákaflega fingralöng og hefur komið upp sú hugmynd að gefa henni viðurnefnið Þjófurinn. Reyndar ekki líklegt að slíkt viðurnefni festist við svona yndislega stelpu.

Veit ekki hversu mikið ég nenni að blogga á næstu dögum. Hef um merkilegri hluti að hugsa þessa dagana.

laugardagur

Þetta kann að yrkja

Í gær var gert opinbert í Kastljósinu hvaða ljóð er ömurlegast. Þetta var samkeppni á vegum Nyhil sem ég tók ekki þátt í vegna þess að ég sem bara góð ljóð. Meitluð. Einsog þetta ádeiluljóð sem þó er með rómantísku ívafi:

Knár sædrekinn beitti leiftri í þágu horfallins snjós,
í suðri vaggar viftureim úr grimmu spelti - fær engu áorkað.
18 metrar af sjó.
Feiminn rafsuðuhjálmur andvarpar hvellt við mela og stekk,
svarar lævirki í blárri lautu.
Japl og jaml.
Fuður.


Ef til vill verða fleiri ljóð birt síðar.Einn bitur

Þegar þetta er skrifað er farið að halla í laugardagsmorgun. Eins og venjulega er Þóra úti á djamminu, kasólétt, á meðan ég sýni ábyrgð og festu og gæti barnanna og kattarins. Að taka innantómt skemmtanalífið með vinnufélögum framyfir huggulega kvöldstund í Kórsölum er sérkennileg forgangsröðun. Ekki síst þegar um er að ræða konu sem er með þyngdarpunkt líkamans óvenju framarlega sökum mikillar óléttu. Vona að hún komist framfyrir raðir á djammstöðunum! Og að hún komi heim í 38 viku meðgöngunnar. Sem er ólíklegt úr þessu.

Fæðing

Er þetta upphaf?

Hefur maður þolinmæði í þetta?

Úthald?

Sjáum hvað setur!